Hæstiréttur Íslands dæmdi í dag íslenska ríkið til að endurgreiða þremur innflutningsfyrirtækjum oftekin gjöld upp á um hálfan milljarð sem fyrirtækin voru krafin um vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum til Íslands. Var þar um að ræða valkvæða gjaldtöku við útboð innflutningsheimilda (tollkvóta) sem fór fram samkvæmt einhliða ákvörðun ráðherra. Var það niðurstaða Hæstaréttar að útboðsgjald það sem tekið var af þessum fyrirtækjum hafi verið ólögmætt þar sem það var í andstöðu við bæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár.
Páll Rúnar Mikael Kristjánsson hæstaréttarlögmaður fór með málið fyrir hönd fyrirtækjanna. „Þessi niðurstaða er eðlileg og rétt. Stjórnarskráin bannar fortakslaust að ráðherra geti valið hvort gjald sé innheimt eða ekki. Þegar að ráðherra ákvað að innheimta þetta gjald braut hann gegn 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Gjaldtakan var því ólögmæt. Þegar að íslenska ríkið oftekur gjöld þá þarf það að skila því sem það hefur oftekið. Dómur Hæstaréttar endurspeglar þessar einföldu staðreyndir,” segir Páll.
„Fyrirtækin og hagsmunasamtök þeirra hafa um árabil brýnt fyrir stjórnvöldum og löggjafanum að taka útboðsgjalds fyrir tollkvóta, sem fyrirtækjum er úthlutað, væri ólögmæt. Á það hefur aldrei verið hlustað. Úr verður því þetta mál og gríðarlegt afleitt tjón fyrir markaðinn í heild. Þess vegna þurfa þessi fyrirtæki að treysta á dómstólana. Það er skylda dómstólanna að sjá til þess, að skattþegn nái rétti sínum gagnvart ríkisvaldinu ef á honum er brotið, og þeir standa undir þeirri skyldu sinni. Þess vegna er dómur Hæstaréttar á þessa leið. Það blasir svo við að löggjafinn verði að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er spurningin hvort það verði gert eða hinu ólögmæta ástandi verði viðhaldið með tilheyrandi tjóni.” segir Páll Rúnar.
Dómar féllu í málum sömu fyrirtækja í héraðsdómi í mars síðastliðnum, þar sem útboðsgjaldið var dæmt ólögmætt. Atvinnuvegaráðuneytið neitaði ítrekað að endurgreiða gjaldið og Alþingi brást við dómnum með því að breyta búvörulögum. Páll Rúnar segist telja að þrátt fyrir lagabreytinguna sé innheimta útboðsgjaldsins áfram ólögmæt. Taki stjórnvöld ekki mark á dómnum og breyti fyrirkomulaginu við úthlutun innflutningsheimilda á búvörum verði fyrirtækin enn að láta reyna á rétt sinn.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir dóminn mikilvægan sigur í baráttunni fyrir eðlilegu viðskiptafrelsi með búvörur eins og aðrar vörur. „Það molnar stöðugt úr þeim múrum sem hafa verið reistir til að hindra eðlilega samkeppni á búvörumarkaði,“ segir Ólafur.
Þrjú sambærileg mál voru flutt fyrir Hæstarétti, fyrir Sælkeradreifingu, Innnes og Haga verslanir.
Dómur Hæstaréttar í máli Sælkeradreifingar gegn ríkinu
Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni
Viðtal við Pál Rúnar M. Kristjánsson í tíufréttum RÚV (hefst á 2.00)