Hæstiréttur: Ríkið reiknaði dráttarvexti rangt

22.11.2018

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að ríkið hafi reiknað rangt dráttarvexti af útboðsgjaldi, sem var tekið af innflutningsfyrirtækjum með ólögmætum hætti og því endurgreitt. Dómurinn hefur mikilvægt fordæmisgildi fyrir fyrirtæki, sem krefja ríkið um um endurgreiðslu ólögmætra gjalda.

Þrjú innflutningsfyrirtæki stefndu ríkinu á sínum tíma vegna útreiknings dráttarvaxtanna. Í málunum var deilt um útreikning dráttarvaxta vegna endurgreiðslu íslenska ríkisins á um 400 milljónum króna í útboðsgjald af innfluttum búvörum. Stefnendur héldu því fram að íslenska ríkið hefði vangreitt dráttarvexti við endurgreiðslu gjaldanna. Aðalágreiningur málanna laut að því við hvaða tímamark skyldi miða upphafstíma dráttarvaxta. Stefnendur töldu að miða skyldi upphafstímann við 16. desember 2013, þ.e. daginn sem fyrirtækin höfðuðu upphaflega málið vegna endurgreiðslu gjaldanna. Frá því tímamarki hefði íslenska ríkinu mátt vera ljóst að innheimta gjaldanna væri ólögmæt. Íslenska ríkið taldi hins vegar að miða skyldi útreikning dráttarvaxtanna við mun síðara tímamark.

Í einfölduðu máli má segja að ríkið hafi gert þá kröfu að greiðendur ólögmætra gjalda gerðu grein fyrir ólögmæti þeirra í hvert einasta skipti sem þau voru greidd í stað þess að nóg væri að gera það í eitt skipti. Þetta gat ekki staðist að mati fyrirtækjanna enda töldu þau að það væri ólögmætt og órökrétt að ætlast til þess að þau gerðu ríkinu ítrekað og endurtekið grein fyrir því að þau teldu þessa gjaldtöku ólöglega. Þá innheimti íslenska ríkið fjármagnstekjuskatt með afturvirkum hætti sem fallist var á með fyrirtækjunum að stæðist ekki.

Mikilvægt fordæmisgildi
Héraðsdómur dæmdi innflutningsfyrirtækjunum í vil, en ríkið áfrýjaði málinu. Fyrir Hæstarétti féllu lögmenn ríkisins frá nokkrum af málsástæðum þess, m.a. um innheimtu fjármagnstekjuskattsins, og viðurkenndu þannig að hluta hinn ranga útreikning. Aðalágreiningurinn stóð þá um dagsetningar vegna útreiknings dráttarvaxtanna og staðfesti Hæstiréttur skilning fyrirtækjanna þriggja á lögunum.

„Fordæmisgildi dómsins er mikilvægt,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Félags atvinnurekenda, sem fór með málið fyrir hönd fyrirtækjanna. „Niðurstaðan gagnast mörgum skattgreiðendum sem eiga rétt á endurgreiðslu skatta og gjalda frá íslenska ríkinu og tryggir að þeir fái fullar efndir, eðlilega vexti og greiði ekki skatta afturvirkt, eins og var í þessu máli. Í einhverjum tilvikum er um háar fjárhæðir að tefla.”

Nýjar fréttir

Innskráning