Hagsmuna neytenda ekki gætt í búvörusamningum

01.03.2016
IMG_6611
Fundurinn á Grand Hóteli var vel sóttur.

Hagsmuna neytenda er ekki gætt í nýjum búvörusamningum. Mörg tækifæri eru til að draga úr kostnaði neytenda og gera landbúnaðinn um leið frjálsari og skilvirkari en þau eru ekki nýtt. Þetta kom fram í máli Daða Más Kristóferssonar, dósents í hagfræði og forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, á fundi um búvörusamningana og hagsmuni neytenda í morgun.

FA og sjö önnur hagsmunasamtök efndu til fundarins á Grand Hóteli og var hann vel sóttur. Daði Már flutti framsöguerindi þar sem hann fjallaði um stuðning við landbúnaðinn í sögulegu ljósi og hvaða breytingar ættu sér stað með nýjum búvörusamningum til tíu ára. Neytendur greiða nú um 13 milljarða króna á ári í beina styrki til landbúnaðarins og bera 6-8 milljarða kostnað af tollvernd í formi hærra vöruverðs, auk þess sem tollverndin dregur úr samkeppni og vöruúrvali.

Litlar og hægfara breytingar
Daði sagðist ekki sjá nein merki um að með samningunum yrði dregið úr kostnaði neytenda eða ábati þeirra aukinn. Opinber verðlagning á mjólk yrði afnumin, en á móti kæmi að ríkið setti áfram reglur um verð á hrámjólk og mjólkuriðnaðurinn hefði áfram undanþágu frá samkeppnislögum. Daði sagði að mjólkurmarkaðurinn yrði áfram ófrjáls og hann sæi ekki að verð á mjólk myndi lækka.

Í búvörusamningunum væri kveðið á um fjölbreyttari stuðningsform en, áfram yrði nær allur stuðningur bundinn við hefðbundinn búskap og stór hluti stuðningsins óbreyttur. Þá væri gert ráð fyrir nær óbreyttri markaðsvernd í formi tolla og raunar heldur bætt í hana.

Allar breytingar væru því mjög hægfara. Fyrstu fimm ár samninganna ætti raunar ekkert að gerast. Það sagðist Daði telja afskaplega langan aðlögunartíma að ekki meiri breytingum.

Vantar aukna samkeppni
Daði sagði að landbúnaðurinn hefði gott af aukinni samkeppni. Henni mætti til dæmis ná með samningum um gagnkvæman markaðsaðgang við nágrannalöndin. Auka ætti samkeppni í framleiðslu og vinnslu og afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Færa ætti stuðninginn frá sértækum stuðningi við einstakar búgreinar og yfir í almennan stuðning, til dæmis jarðræktarstuðning, sem gæfi bændum frelsi til að taka viðskiptalegar ákvarðanir um hvað þeir vildu framleiða, en byndi þá ekki við tiltekna gerð atvinnurekstrar. Stuðningskerfið ætti að stuðla að framleiðniaukningu, nýsköpun og eðlilegri þróun í landbúnaðinum.

Daði nefndi sem dæmi þróunina í grænmetisframleiðslu eftir að tollar voru lækkaðir og ákveðinn stuðningur tekinn upp í staðinn. Það hefði skilað árangri; framleiðendum hefði fækkað en á móti hefði orðið til miklu öflugri atvinnugrein. Ekkert hrun hefði orðið í garðyrkjunni við þessa breytingu; þvert á móti hefðu þetta verið fyrstu skrefin í nýrri sókn hennar.

Daði sagði að lokum að hægt væri að grípa til miklu gagnlegri aðgerða, sem næðu markmiðum um ábata almennings af landbúnaði án þess að takmarka frelsi bænda og án þess að kostnaður neytenda væri of mikill.

Frá pallborðsumræðum. Frá vinstri: Þórunn Sveinbjarnardóttir, Henný Hinz, Skafti Harðarson, Daði Már Kristófersson, Teitur Atlason og Margrét Sanders fundarstjóri.
Frá pallborðsumræðum. Frá vinstri: Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Henný Hinz, Skafti Harðarson, Daði Már Kristófersson, Teitur Atlason og Margrét Sanders fundarstjóri.

Eins og 35 ára með hjálpardekk
Í pallborðsumræðum að loknu erindi Daða voru þátttakendur sammála um að ýmis tækifæri færu forgörðum í nýjum búvörusamningum. Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna, sagði að löngu væri orðið tímabært að lækka tollmúra, draga úr stuðningi við landbúnaðinn og gefa honum færi á að standa á eigin fótum. Þeir geirar landbúnaðarins sem nytu mests stuðnings væru eins og 35 ára manneskja sem enn þyrfti hjálpardekk á reiðhjólið sitt. Allir skildu óttann við að taka þau af, en jafnframt sæju allir tækifærin í því.

Afnám tollverndar á 4-7 árum
Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, tók upp atriði úr framsögu Daða Más, um að kjúklingaframleiðsla nyti einna mests stuðnings íslenskra búgreina í formi tollverndar. Búgreinar sem nytu hvað mests stuðnings neytenda væru nánast hrein og klár iðnaðarframleiðsla. Afnema ætti tollvernd í þeirra þágu á 4-7 árum. Hann vitnaði jafnframt til útreikninga sem sýndu að afnám tollverndar á búvörum þýddi 122 þúsund króna búbót á ári fyrir meðalfjölskyldu. Afnám tollverndar á nokkrum árum væri tækifæri sem ekki væri nýtt.

Mátti skapa breiðari sátt
Henný Hinz, hagfræðingur Alþýðusambandsins, tók undir að tækifærum hefði verið sólundað. Við gerð búvörusamninganna hefði átt að endurskoða núverandi kerfi rækilega og kalla fleiri að borðinu, til dæmis fulltrúa neytenda og starfsfólks í matvælaiðnaði. Færa ætti stuðningskerfi landbúnaðarins í átt til þess sem gerðist í öðrum Evrópuríkjum. Það væri sérstakt að þessi samningagerð færi enn fram í lokuðu ferli hagsmunasamtaka bænda og ráðherra; skapa hefði mátt breiðari sátt um landbúnaðinn með því að hleypa fleirum að. Með samningunum virtist núverandi kerfi fest í sessi án róttækra breytinga. Dragað hefði átt úr tollvernd, færa stuðning skattgreiðenda frá framleiðslu og yfir í almennan stuðning, hverfa frá opinberri verðlagningu á mjólkurvörum og fella mjólkuriðnaðinn undir samkeppnislög.

Verðið of hátt fyrir marga eldri borgara
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, sagði að horfa hefði átt meira fram á veg við gerð búvörusamninganna. Tollvernd fyrir búvörur væri of mikil, skattgreiðendur greiddu of háar fjárhæðir í styrki til landbúnaðarins og verð búvara væri of hátt. Þórunn sagði að sumir af hennar umbjóðendum hefðu einfaldlega ekki efni á gæðakjöti og lambakjöt væri sjaldan á borðum þar sem reiddur væri fram matur fyrir eldri borgara.

Glærur Daða Más

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning