Hagsmunahópar og misvægi atkvæða

06.05.2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 6. maí 2021.

Orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, um að Íslandi sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum, hafa vakið mikla athygli og umræðu. Í þá umræðu hefur vantað a.m.k. einn þátt í skýringu á því hvers vegna tilteknir hagsmunahópar hafa mikil völd. Það er misvægi atkvæða í landinu.

Landsbyggðarkjördæmin þrjú hafa miklu meira hlutfallslegt vægi á Alþingi en þéttbýliskjördæmin á suðvesturhorninu. Gömlu frumframleiðsluatvinnugreinarnar, landbúnaður og sjávarútvegur, vega langtum þyngra í atvinnulífi þessara kjördæma en landsins í heild. Þegar við bætist sú óskráða regla að þingmenn landsbyggðarkjördæmanna séu fyrst og fremst í vinnu við að gæta hagsmuna síns kjördæmis en þingmenn þéttbýliskjördæmanna horfi fremur á heildarhagsmuni, þýðir þetta að þessar atvinnugreinar hafa mun greiðari aðgang að pólitískri ákvarðanatöku en aðrar.

Þetta birtist með ýmsum hætti. Landbúnaðurinn er til dæmis eina atvinnugreinin sem hefur í seinni tíð beinlínis samið við stjórnvöld um að þau hækki skatta á keppinautana, eins og gert var í búvörusamningunum 2016. Í framhaldinu voru tollar á innfluttar mjólkurvörur hækkaðir duglega. Alþingismenn voru líka fljótir að hlaupa til þegar landbúnaðurinn kvartaði undan áhrifum heimsfaraldursins og tóku tímabundið upp eldri og óhagstæðari aðferð við uppboð á tollkvótum fyrir búvörur. Sagt var feimnislaust að þetta væri til að vernda innlenda framleiðendur. Meirihluti atvinnuveganefndar, sem er eingöngu skipaður þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna, vildi raunar ganga miklu lengra í verndarstefnunni.

Í sjávarútveginum sjáum við hagsmunagæzluna t.d. birtast í harðri andstöðu stóru útgerðar- og vinnslufyrirtækjanna við að sjálfstæðar fiskvinnslur búi við eðlilegt samkeppnisumhverfi með afnámi tvöfaldrar verðmyndunar. Margir sjávarútvegsráðherrar í röð – allir nema einn úr landsbyggðarkjördæmunum – hafa látið álit Samkeppniseftirlitsins um samkeppnishindranir í sjávarútvegi sem vind um eyru þjóta.

Jafn atkvæðisréttur landsmanna væri ágætt skref í þá átt að draga úr ítökum sérhagsmunahópa þannig að Alþingi og ríkisstjórn horfðu fremur á almannahagsmuni.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning