Hagsmunir atvinnulífsins að sveitarfélögin fái skatta af því

02.05.2022
Ólafur og Dagur ræðast við í Kaffikróknum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí segir að það séu hagsmunir atvinnulífsins að greiða sveitarfélögunum skatta, af því að það verði frekar til þess að sveitarfélögin muni eftir atvinnulífinu í stað þess að skipuleggja það út og leggja áherslu á útsvarsgreiðslur. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í samtali Dags og Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Kaffikróknum, hlaðvarpsþætti Félags atvinnurekenda sem er aðgengilegur á YouTube og Spotify. Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Fasteignaverðið að rétta úr kútnum eftir hrun
Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði í Reykjavík er nú sá hæsti á höfuðborgarsvæðinu. Dagur er spurður hvort ekki verði að lækka hann þannig að borgin sé samkeppnisfær við önnur sveitarfélög. Borgarstjóri svarar því til að borgin sé mjög samkeppnisfær og á yfirstandandi kjörtímabili hafi fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verið lækkaðir í fyrsta skipti í sögunni (úr 1,65% í 1,6%). Það sé rétt að hækkanir á fasteignamati hafi líka verið sögulega háar, en halda verði því til haga að fasteignaverð hafi verið að jafna sig á nýjan leik eftir skarpa dýfu eftir bankahrunið. „Þegar ykkar ágætu samtök og aðrir eru að draga fram þróun á verði atvinnuhúsnæðis er til hægðarauka oft miðað við þróunina frá 2010, en þá gleymist að það var gríðarlegt hrun í verðinu, þannig að ef þú skoðar hvað borgin er að fá í tekjur af þessum sköttum þá hefur það hækkað vegna magnaukningar en ekki svo mikið vegna verðhækkana ef þú skoðar söguna fram fyrir hrunið,“ segir Dagur. 

Hann segir að borgin þurfi að hafa skattstofna til að hægt sé að reka borgina vel. „Ég hef haft meiri áhyggjur af því að eftir að aðstöðugjaldið fór út fyrir mörgum áratugum þá vanti kannski beina hagsmuni af skattstofni sem tengist atvinnulífinu – fasteignaskattarnir eru auðvitað slíkur skattstofn – sem verður til þess að það er lágur þröskuldur hjá sveitarfélögum að skipuleggja atvinnulífið út, leggja bara áherslu á útsvarsgreiðendur og vera með einhæfari íbúðahverfi í stað þess að hugsa fyrir atvinnulífi framtíðarinnar og reyna að laða það til sín.“

Dagur segist ekki vilja aðstöðugjaldið, sem var 1,3% skattur á veltu, aftur. Hins vegar mætti huga að því að sveitarfélögin fengju gistináttagjaldið, sem víða erlendis er kallað borgarskattur, eða jafnvel hlutdeild í virðisaukaskatti. „Skattstofnar sveitarfélaga eiga að vera frekar einfaldir og skýrir en ég held að það séu ákveðnir hagsmunir atvinnulífsins að sveitarfélög muni eftir því.“

Aukning bílaumferðar myndi bitna mest á atvinnuumferðinni
Dagur hafnar því algjörlega að stefna borgarinnar í samgöngumálum, að leggja áherslu á Borgarlínu og aðra samgöngukosti en einkabílinn, bitni á þörfum atvinnulífsins t.d. hvað varðar vörudreifingu og aðföng. Ef ekkert verði að gert og almenningssamgöngur gerðar framúrskarandi og aðlaðandi valkostur fyrir miklu stærri hóp muni umferðin halda áfram að þéttast á stofnbrautum samfara fjölgun fólks og bíla. „Ef við höldum áfram á sömu braut og fjölgum alltaf bílum fyrir hverja fimm manna fjölskyldu í takt við þetta þá mun þrengja að fyrirtækjabílunum og flutningunum.“ 

Dagur segir að almenningssamgöngur þurfi forgang í umferðinni og sjaldnast þýði það fórnir fyrir aðra umferð, nema kannski á stöku gatnamótum. „Venjulega umferðin og atvinnuumferðin myndi tapa mest ef við myndum ekki gera þetta, ef við myndum bara halda áfram eins og við höfum alltaf gert og bætum við úthverfum í útjaðrinum.“

Bónus við Vesturlandsveg hefði grafið undan hverfisverslun
Ólafur spyr Dag hvort höfnun borgarinnar á umsókn Bónuss um að reisa matvöruverslun við hlið Bauhaus við Vesturlandsveg sé ekki inngrip í samkeppni á markaði og ofstýring af hálfu borgaryfirvalda. Dagur segir að hugmyndin hafi verið að nota bílastæðin við Bauhaus og gera Bónusbúðina að lykilverslun fyrir Úlfarsárdal og Grafarholtshverfið að einhverju leyti. „Við höfðum gert ráð fyrir atvinnu- og verslunarhúsnæði inni í hverfinu, þar sem það væri að okkar mati aðgengilegra og vildum þess vegna ekki hleypa þessu af stað. Það hefði bara á degi eitt grafið undan hugmyndinni um að setja upp hverfistengda verslun inni í hverfinu. Þarna getur auðvitað alveg brakað í,“ segir Dagur. 

Margt annað var til umræðu í samtali Ólafs og Dags, til dæmis kjarasamningar borgarstarfsmanna, þjónustuviðmót borgarkerfisins og húsnæðismál í borginni. 

Kaffikrókurinn á Spotify

 

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning