Hagsmunir neytenda og atvinnulífs að brotum á EES verði hætt

08.05.2019
Gera má ráð fyrir að gæði, ekki síst í nautakjöti, aukist með innflutningi á fersku kjöti.

Félag atvinnurekenda mætir í dag fyrir atvinnuveganefnd Alþingis og gerir grein fyrir umsögn sinni um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afnám banns við innflutningi á fersku kjöti og eggjum. FA bendir á að það sé mikið hagsmunamál jafnt neytenda sem atvinnulífsins í heild að brotum Íslands á EES-samningnum verði hætt og frumvarpið samþykkt. Sú takmarkaða erlenda samkeppni, sem í frumvarpinu felist, ætti jafnframt að hvetja landbúnaðinn til dáða.

FA bendir á að allt frá því árið 2009, er matvælalöggjöf Evrópusambandsins var leidd í lög hvað búvörur varðar, án þess að um leið væri aflétt banni við innflutningi ferskra búvara, hafi ríkt ólögmætt ástand, sem stríðir gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Dómar séu nú gengnir hjá EFTA-dómstólnum og Hæstarétti, þar sem núverandi innflutningsbann sé dæmt ólögmætt og í andstöðu við EES-samninginn. „FA er sammála því mati sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem leggur málið fram, að íslensk stjórnvöld eigi ekki annan kost en að breyta lögum til samræmis við niðurstöður dómstólanna. Með því að hunsa dómstólana kann EES-samstarfinu í heild sinni að verða stefnt í uppnám, með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf, enda er um langmikilvægasta viðskiptasamning Íslands að ræða,“ segir í umsögn FA.

Hagsmunir neytenda og atvinnulífs
Í umsögn FA er bent á að neytendur hafi augljósa hagsmuni af því að hömlum á milliríkjaviðskipti sé aflétt. „Neytendur munu njóta meira úrvals og samkeppni og væntanlega einhverrar verðlækkunar við það að innlend ferskvara fái harðari samkeppni frá innflutningi. Gera má ráð fyrir að vara sem flutt verður inn fersk verði einkum af hærri gæðaflokkum, til dæmis nautakjöt bæði fyrir neytenda- og veitingahúsamarkað.

Eins og kemur fram í mati Daða Más Kristóferssonar hagfræðiprófessors, sem hluti greinargerðar frumvarpsins byggist á, er væntanlegt tekjutap innlendra framleiðenda ekki af þeirri stærðargráðu að rekstrargrundvelli þeirra sé í hættu stefnt. Innlendur landbúnaður hefur um áratugaskeið búið við litla samkeppni og má halda því fram að sú takmarkaða erlenda samkeppni, sem í samþykkt frumvarpsins mun felast, hvetji innlenda framleiðendur fyrst og fremst til dáða að gera betur í verði og vöruúrvali,“ segir í umsögninni.

Innan vébanda FA eru tveir hópar fyrirtækja sem eiga ríka hagsmuni af því að ákvæði frumvarpsins nái fram að ganga. „Annars vegar eru innflytjendur matvæla, en á rétti þeirra hefur verið brotið í áratug. Þeirra á meðal eru fyrirtæki, sem hafa reynt innflutning ferkskra kjötvara og eggja eftir að dómur Hæstaréttar féll, en engu að síður mátt sæta upptöku vörunnar. Íslenska ríkið hefur viðurkennt rétt þessara fyrirtækja til skaðabóta.

Hins vegar eru útflytjendur matvæla, fyrst og fremst sjávarafurða. Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er líkleg niðurstaða þess að frumvarpið hljóti ekki samþykki á Alþingi, að Evrópusambandið nýti heimildir í EES-samningnum til að fresta hluta hans gagnvart EFTA-ríkjunum, með þeirri afleiðingu að aftur yrði tekið upp heilbrigðiseftirlit á landamærum gagnvart íslenskum matvælum sem flutt eru út til ríkja ESB með tilheyrandi umstangi, töfum og kostnaði. Það var raunar meginástæðan fyrir því að á sínum tíma var samið um upptöku matvælalöggjafar ESB í EES-samninginn, bæði hvað varðar búvörur og sjávarafurðir, að tryggja varð útflutningshagsmuni sjávarútvegsins. Flutningsferli ferskra sjávarafurða á Evrópumarkað er viðkvæmt og hver klukkustund skiptir máli til að tryggja að varan haldi ferskleika sínum og verðgildi er hún kemur á markað. Í mati Daða Más Kristóferssonar er gert ráð fyrir að kostnaður matvælaútflytjenda af því að þetta eftirlit yrði tekið upp á ný sé að lágmarki 4,2 milljarðar króna. Að mati þeirra sem stunda ferkfiskútflutning til ESB-ríkja er sú tala verulega vanáætluð. Um gífurlega hagsmuni íslensks sjávarútvegs er að ræða, sem engum getur dottið í hug að stefna í tvísýnu að nauðsynjalausu,“ segir í umsögn FA.

Lýðheilsu ekki í hættu stefnt
Þær röksemdir, sem bornar hafa verið fram gegn frumvarpinu, hafa ekki síst snúið að heilbrigði búfjárstofna og lýðheilsu. FA hefur farið yfir ályktanir sóttvarnalæknis og yfirdýralæknis, sem fylgja frumvarpinu. Niðurstaða þeirra er m.a. að frystiskylda á kjöti, sem verður afnumin með samþykkt málsins, hafi fyrst og fremst áhrif á magn kampýlóbakters en lítil áhrif á aðrar bakteríur og sýklalyfjaónæmi þeirra enda lifi þær af frystingu. Með vísan til þess breyti engu hvort kjöt sé ferskt eða frosið með tilliti til sýklalyfjaónæmis og sé því ekki talið að afnám frystiskyldu muni eitt og sér hafa áhrif á sýklalyfjaónæmi hér á landi. Í greinargerðinni kemur ennfremur fram að að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis hafi afnám frystiskyldu lítil sem engin áhrif á veiru- og bakteríusjúkdóma í dýrum en geti haft áhrif á sníkjudýrasmit. Sú krafa sé hins vegar gerð að kjöt sé framleitt í samræmi við EES-löggjöf, auk þess bregðist EES-ríki við með ýmsum hætti ef upp koma alvarlegir dýrasjúkdómar, t.d. með „skyndi-tilkynningarkerfi“ á milli landa. Að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis ætti því framangreint að fyrirbyggja að afurðir sem geta innihaldið smitefni dýrasjúkdóma berist hingað til lands. Með vísan til aðgerðaráætlunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem meðal annars gerir ráð fyrir að krafist verði vottorða með innfluttu fuglakjöti um að það sé laust við kampýlóbakter og salmonellu, telja sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir að afnám frystiskyldunnar muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og aðgerðirnar muni minnka áhættuna.

„Þessar niðurstöður eru í öllum aðalatriðum í samræmi við niðurstöður ráðgjafarfyrirtækisins Food Control Consultants, sem vann skýrslu fyrir FA árið 2017; Innflutningur búvöru og heilbrigði manna og dýra: Felst áhætta í innflutningi ferskra landbúnaðarafurða? Mat þeirra sérfræðinga sem sömdu skýrsluna var að hægt væri að tryggja heilbrigði manna og dýra með aðgerðum, sem væru mun minna íþyngjandi en fortakslaust bann við innflutningi ferskvöru og rúmuðust innan reglna EES-samningsins; til dæmis með því að fara fram á svokallaðar viðbótartryggingar varðandi salmonellu og kamfýlóbakter eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þeir töldu jafnframt að aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu væri líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning