Hagur atvinnulífsins að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar

29.04.2019
Samþykkt þriðja orkupakkans hefur engin áhrif á eignarhald eða forræði á orkuauðlindum.

Félag atvinnurekenda hvetur til þess í umsögn til Alþingis að þingsályktunartillaga um innleiðingu þriðja orkupakkans verði samþykkt. Félagið leggur áherslu á hagsmuni atvinnulífsins af EES-samningnum og að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. FA hvetur þingið til að samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og tengd mál, sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram. Aðalatriði umsagnarinnar fara hér á eftir.

Hagur atvinnulífsins að staðið sé við alþjóðlegar skuldbindingar
Hér er um að ræða staðfestingu Alþingis á þegar gerðum samningi Íslands við önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES), ákvörðun þeirri sem tekin var í sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017. Í ljósi mikilvægis alþjóðasamninga um milliríkjaviðskipti fyrir félagsmenn FA, ekki síst EES-samningsins, hefur félagið lagt ríka áherslu á að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og stuðli þar með að því að íslenska ríkið njóti trausts í alþjóðlegu samstarfi. Það á ekki síður við í þessu máli en öðrum.

Eðlilegt framhald á jákvæðri þróun
Orkumál hafa frá upphafi verið hluti EES-samningsins. Það er ósatt, sem haldið hefur verið fram í umræðum um þriðja orkupakkann, að nú fyrst eigi að fara að setja orkumál á Íslandi undir alþjóðlegt regluverk. Þriðji orkupakkinn felur raunar í sér takmarkaðar breytingar í samanburði við þær EES-reglur um orkumál sem áður hafa verið teknar upp hér á landi. Stærsta breytingin varð með raforkulögunum árið 2003, en þau fólu í sér grundvallarbreytingar á íslenskum orkumarkaði með aðskilnaði orkuvinnslu og -dreifingar, aukinni samkeppni bæði í vinnslu og sölu orku og valfrelsi neytenda. Að mati FA hafa þessar breytingar verið jafnt neytendum og atvinnulífi á Íslandi til góðs. Þriðji orkupakkinn er rökrétt og eðlilegt framhald þessarar þróunar. Ákvæði hans um aukna neytendavernd og sjálfstæði Orkustofnunar eru líkleg til að ýta enn frekar undir virka samkeppni á orkumarkaðnum, sem leiðir af sér aukna hagkvæmni fyrirtækja á markaðnum og fleiri kosti viðskiptavinanna.

Valdaframsal samrýmist stjórnarskrá
Félag atvinnurekenda telur jafnframt liggja í augum uppi, m.a. með samanburði við ýmis fordæmi, að framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana samkvæmt ákvæðum orkupakkans verði ekki umfram það valdaframsal sem þegar hefur átt sér stað vegna EES-samstarfsins og hefur verið talið samrýmast stjórnarskrá Íslands. EFTA-ríkin fela Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þær valdheimildir sem Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) fer með í Evrópusambandinu. Þetta er í samræmi við það tveggja stoða kerfi sem byggt hefur verið upp í EES-samstarfinu frá upphafi. ESA mun í afmörkuðum tilvikum hafa ákvörðunarvald varðandi úrlausn deilumála og tæknileg úrlausnarefni sem tengjast grunnvirkjum yfir landamæri. Ísland framselur þannig vald til alþjóðastofnunar sem það á sjálft aðild að, en ekki til Evrópusambandsins eða stofnana þess. Þessi ákvæði orkupakkans um ákvörðunarvald ESA hafa í raun enga þýðingu á meðan Ísland er ekki tengt sameiginlegum orkumarkaði EES.

Ákvörðun um sæstreng hefur ekkert með orkupakkann að gera
Jafnframt er það hafið yfir allan vafa að samþykkt þriðja orkupakkans hefur engin áhrif á mögulega ákvörðun um að tengjast evrópska orkumarkaðnum með sæstreng. Ákvæði hans skylda Ísland ekki með neinum hætti til að leggja slíkan streng. Orkupakkinn er heldur ekki nein forsenda þess að sæstrengur verði lagður; það er möguleiki sem hefur a.m.k. fræðilega verið á borðinu um árabil. FA hefur talið að það lægi í augum uppi að sæstrengur yrði ekki lagður hingað til lands án atbeina íslenskra stjórnvalda. Með samþykkt þingsályktunartillögu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (791. máls) og frumvarps sama ráðherra til laga um breytingu á raforkulögum (792. máls) er tekinn af allur vafi um þetta atriði. Sama má segja um sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála hjá Evrópusambandinu frá fundi þeirra 20. mars síðastliðinn.

Engar breytingar á eignarhaldi, forræði á orkumálum eða orkuverði
Þá fela ákvæði orkupakkans ekki í sér neinar breytingar á eignarhaldi orkuauðlinda og orkufyrirtækja á Íslandi eða forræði íslenskra stjórnvalda á orkumálum. Innleiðing reglnanna hefur engin áhrif á raforkuverð á Íslandi nema þá mögulega til lækkunar til lengri tíma litið með aukinni samkeppni. Fullyrðingar um annað eru úr lausu lofti gripnar.

Tilefnislaust og ábyrgðarlaust að setja EES-samstarfið í uppnám
FA tekur undir þau sjónarmið, sem fram koma í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni alþingismanni um orkupakka ESB, eftirlitsstofnanir sambandsins og EES-samninginn (64. mál) hvað varðar hugsanlegar afleiðingar þess að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans og innleiða ekki reglurnar sem í honum felast. Slíkt hefur aldrei gerst í sögu EES-samstarfsins og afleiðingarnar eru ófyrirsjáanlegar. Skaðinn fyrir hagsmuni íslensks atvinnulífs er að sama skapi ófyrirsjáanlegur en gæti orðið mikill. Félag atvinnurekenda telur algjörlega tilefnislaust og raunar ábyrgðarlaust að setja EES-samstarfið í uppnám vegna máls, sem felur í sér minniháttar breytingar á íslenskri löggjöf og markaðsaðstæðum. Það er hagur félagsmanna FA og atvinnulífsins í heild að rekstur EES-samningsins gangi sem greiðast fyrir sig og að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning