Hagur neytenda að fella tollmúra

23.09.2015

Innfluttur kjúklingurViðtal á mbl.is við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, 22. september 2015

Fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda seg­ir ís­lensk­an al­menn­ing hafa mik­inn hag af auknu frelsi í viðskipt­um með kjötvör­ur. Það sé hag­ur neyt­enda að sem fæst­ar hindr­an­ir séu í vegi milli­ríkjaviðskipta.

Ólaf­ur Stephen­sen er fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda.

Hann hafn­ar því sem haft er eft­ir hag­fræðingi hjá Bænda­sam­tök­un­um í Morg­un­blaðinu í dag, að kjöt­markaður­inn á Íslandi sé að taka ger­breyt­ing­um vegna boðaðra breyt­inga á toll­um á inn­flutt kjöt. Lesamá um málið hér.

Máli sínu til stuðnings vís­ar Ólaf­ur til um­fjöll­un­ar á vef Fé­lags at­vinnu­rek­enda þar sem seg­ir að þegar stækkaðir toll­kvót­ar verða komn­ir að fullu til fram­kvæmda, þá vænt­an­lega árið 2020, verði þeir engu að síður aðeins rúm­lega 10% af inn­an­landsneyzlu í svína- og kjúk­linga­kjöti eins og hún var árin 2011-2013.

Full­trú­ar svína- og kjúk­linga­bænda á Íslandi and­mæla þessu í Morg­un­blaðinu í dag; segja það skekkja mynd­ina að bera sam­an inn­flutn­ing á hreinu kjöti ann­ars veg­ar og á inn­lend­um skrokk­um, að bein­um meðtöld­um, hins veg­ar.

Gengið skemmra en lagt var til

Nú er það sjón­ar­mið svína­bænda og kjúk­linga­bænda að kvót­arn­ir muni fyrst og fremst eiga við hreint kjöt, án beina og svo fram­veg­is. Því séu toll­arn­ir hærra hlut­fall inn­an­lands­fram­leiðslunn­ar en þú til­grein­ir. Hvernig bregstu við því sjón­ar­miði?

„Reynsl­an á eft­ir að leiða það í ljós hvernig vör­ur verða flutt­ar inn á þess­um toll­kvót­um. Jafn­vel þótt inn­flutn­ingskvót­arn­ir séu um­reiknaðir í skrokka með beini eru þeir aðeins lít­ill hluti inn­an­landsneyzlu og -fram­leiðslu á þess­um vör­um. Þeir auka vissu­lega sam­keppn­ina við þess­ar bú­grein­ar, en þó er gengið miklu skemmra í þá átt en til dæm­is Sam­keppnis­eft­ir­litið, Hag­fræðistofn­un HÍ, OECD, Sam­ráðsvett­vang­ur um aukna hag­sæld og fleiri hafa gert til­lög­ur um und­an­far­in ár.“

Ger­ist þrátt fyr­ir mjög tak­markaða toll­kvóta

Ólaf­ur seg­ir einnig að staðan sé orðin sú að inn­flutn­ing­ur sé nú þegar orðinn yfir tug­ur pró­senta neyzl­unn­ar í nauta-, svína- og kjúk­linga­kjöti eins og fram komi í skýrslu starfs­hóps at­vinnu­vegaráðuneyt­is­ins um tolla­mál í land­búnaðinn, sem kom út í lok síðasta árs. Það ger­ist þrátt fyr­ir mjög tak­markaða toll­kvóta sam­kvæmt alþjóðasamn­ing­um; stór hluti þessa inn­flutn­ings sé til­kom­inn vegna þess að inn­lend fram­leiðsla ann­ar ekki eft­ir­spurn.

Nú er það sjón­ar­mið sömu aðila að með réttu fyr­ir­komu­lagi geti inn­lend­ir fram­leiðend­ur vel annað auk­inni eft­ir­spurn, sem er meðal ann­ars til­kom­in vegna auk­inn­ar neyslu ferðamanna. Væri það ekki hag­ur ís­lenskra at­vinnu­rek­enda að efla land­búnaðinn á þenn­an hátt?

„Ég veit ekki al­veg hvað er átt við með „réttu fyr­ir­komu­lagi“. Ef það felst í því að þrengja að heim­ild­um til inn­flutn­ings, eins og t.d. svína­bænd­ur hafa lagt til, er það aug­ljós­lega rangt fyr­ir­komu­lag. Neyt­end­ur eiga ekki að þurfa að líða fyr­ir það með vöru­skorti og/​eða hækk­andi verði að inn­lend­ir fram­leiðend­ur geti ekki annað eft­ir­spurn um lengri eða skemmri tíma. Leiðin til að leysa úr vöru­skorti og halda verði til neyt­enda sem lægstu er að milli­ríkjaviðskipti séu sem frjáls­ust. Það er ekki bara hag­ur at­vinnu­rek­enda, held­ur þjóðar­inn­ar í heild að viðskipti séu frjáls og dregið úr þeirri sóun og óhagræði sem viðskipta­höml­ur valda. Ágæt rök fyr­ir þessu eru til dæm­is færð í ný­legri skilagrein starfs­hóps, sem und­ir­bjó fyr­ir fjár­málaráðherra til­lög­ur að lækk­un tolla.“

Kröf­urn­ar mögu­lega ekki alltaf jafn strang­ar og hér 

Þá lang­ar mig til að spyrja þig út í það sjón­ar­mið ís­lenskra svína­bænda og kjúk­linga­bænda, að hér á landi séu strang­ari kröf­ur á aðbúnað dýr­anna en í sum­um þeim lönd­um sem meira verður flutt inn frá. Jafn­framt er á það bent að notk­un sýkla­lyfja sé al­geng í evr­ópsk­um land­búnaði. Neysla slíkra vara sé því eft­ir at­vik­um ekki góð út frá lýðheilsu­sjón­ar­miðum.

„Það er mögu­legt að í ein­hverj­um lönd­um, sem flutt er inn frá, séu ekki eins strang­ar kröf­ur og hér. Það er líka mögu­legt að í ein­hverj­um lönd­um séu strang­ari kröf­ur. Al­mennt hef­ur þó þró­un­in verið sú und­an­far­in ár að strang­ari kröf­ur hér­lend­is um aðbúnað dýra eru til komn­ar vegna Evr­ópu­reglna og/​eða að fyr­ir­mynd frá ná­granna­lönd­um okk­ar. Ef skoðuð er t.d. ný­leg reglu­gerð um bætt­an aðbúnað ali­fugla kem­ur þar fram að ís­lenzk­um ali­fugla­bú­um ber að taka upp nýja gerð af búr­um níu árum á eft­ir keppi­naut­um í öðrum Evr­ópu­ríkj­um. Þar eru önn­ur ákvæði sem eru sett inn að nor­rænni fyr­ir­mynd, o.s.frv. Al­mennt er Mat­væla­stofn­un á því að kröf­urn­ar í ná­granna­lönd­um okk­ar hafi verið hert­ar, í þágu dýra­vel­ferðar, en Ísland dreg­izt þar aft­ur úr,“ seg­ir Ólaf­ur og vís­ar til þess­ar­ar vefsíðu.

Verður ekki lasið af því að borða kjöt í út­lönd­um

„Hvað sýkla­lyfja­notk­un­ina varðar, er það rétt að hún er að meðaltali meiri í land­búnaði flestra ríkja en á Íslandi. Nor­eg­ur er lík­lega helzta und­an­tekn­ing­in. Það breyt­ir ekki því að þess­ar vör­ur stand­ast heil­brigðis­kröf­ur í ná­granna­lönd­un­um, sem eru að stærst­um hluta þær sömu og á Íslandi. Al­mennt verður fólk ekki mikið lasið af því að borða kjötið sem er fram­leitt í þess­um lönd­um. Þá er ekki sann­gjarnt að setja all­an land­búnað heilu ríkj­anna und­ir sama hatt að þessu leyti; lyfja­notk­un get­ur verið mis­mun­andi eft­ir fram­leiðend­um.

Umræðan um aðbúnað dýra, lyfja­notk­un, sýk­ing­ar og fleira slíkt í svína- og ali­fugla­rækt á að vera sem opn­ust og neyt­end­ur eiga að fá sem rík­ast­ar upp­lýs­ing­ar, bæði um inn­lenda og inn­flutta vöru. Að þessi atriði geti verið mis­mun­andi á milli landa eru ekki rök fyr­ir því að hindra milli­ríkjaviðskipti með svína- og ali­fugla­kjöt. Neyt­end­ur eiga ein­mitt að eiga geta valið um vör­ur sem stand­ast heil­brigðis­kröf­ur og myndað sér síðan skoðun á því hvað þeir vilja kaupa, út frá fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ing­um. Ef ís­lenzk­ir bænd­ur geta sýnt fram á minni lyfja­notk­un, betri bú­skap­ar­hætti og betri aðbúnað dýra öðlast þeir sjálf­krafa sam­keppn­is­for­skot gagn­vart neyt­end­um sem láta slíka þætti vega þyngra en til dæm­is verð þegar þeir taka ákv­arðanir um inn­kaup sín.“

Deil­ir Fé­lag at­vinnu­rek­enda þess­um áhyggj­um ís­lenskra bænda af af­leiðing­um auk­ins inn­flutn­ings á land­búnaðar­vör­um?

„Af fram­an­sögðu ætti að vera ljóst að við deil­um ekki þeim áhyggj­um,“ seg­ir Ólaf­ur Stephen­sen.

Viðtalið við Ólaf á mbl.is

Nýjar fréttir

Innskráning