Á harðahlaupum undan ábyrgð

21.11.2019

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 21. nóvember 2019.

Atvinnuhúsnæði í Reykjavík.

Tólf stærstu sveitarfélögin hafa lagt fram frumvarp til fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Félag atvinnurekenda hefur fylgzt sérstaklega vel með því hvaða tillögur eru gerðar um álagningu fasteignagjalda á næsta ári. Sex af þessum tólf sveitarfélögum, þar sem um 82% landsmanna búa, hyggjast lækka hlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði, sum verulega. Þannig lækkar Akranesbær tekjur sínar af fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði og í Reykjanesbæ verður hækkun skattbyrði fyrirtækjanna 3,9% á milli ára í stað 7,2%, hefði skatthlutfallið staðið óbreytt.

Sum sveitarfélög, sem hafa lækkað fasteignaskatta á fyrirtæki talsvert undanfarin ár, eins og Hafnarfjörður og Kópavogur, hyggjast nú halda þeim lítið eða ekkert breyttum. Enn á eftir að koma í ljós hvað Garðbæingar gera, en þeir hyggjast endurskoða álagningarprósentuna á milli umræðna um fjárhagsáætlun.

Sveitarfélagið sem hins vegar sker sig úr umhverfinu eins og strandaður blöðruselur er Reykjavíkurborg. Þar er að finna meirihlutann af öllu verzlunar- og skrifstofuhúsnæði á landinu. Á sama tíma og flest önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði heldur borgin skattinum ár eftir ár í lögleyfðu hámarki, 1,65% af fasteignamati. Á næsta ári mun skattbyrðin hækka um 4,7%. Áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir að árið 2023 verði tekjur hennar af fasteignaskatti fyrirtækja 19,5 milljarðar, nærri þrefalt hærri en 2013 þegar þær voru 7,6 milljarðar.

Samtök íslenzkra sveitarfélaga beindu því til sveitarfélaganna í yfirlýsingu, sem var gefin út til að greiða fyrir kjarasamningum í vor, að þau hækkuðu ekki gjöld sín um meira en 2,5% á næsta ári og öxluðu þannig með öðrum ábyrgð á verðstöðugleika í landinu. Sveitarfélög á borð við Vestmannaeyjar, Akranes og Reykjanesbæ taka þessu alvarlega. Stjórnendum stærsta sveitarfélagsins gæti ekki verið meira sama. Þeir eru á harðahlaupum undan þeirri ábyrgð sem þeir bera á efnahagsstöðugleikanum.

Viðtal á Bylgjunni um fasteignagjöld við Ólaf Stephensen og Auði Ölfu Ólafsdóttur hjá ASÍ 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning