Havarti heildsalans

21.12.2024

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Morgunblaðinu 21. desember 2024.

Steinþór Skúlason heildsali skrifar grein í Morgunblaðið síðastliðinn þriðjudag og ítrekar þar enn þá röngu staðhæfingu sem er vinsæl hjá forsvarsmönnum afurðastöðva í landbúnaði, að tollar eða útboðsgjald, sem leggjast á búvörur við innflutning, hafi engin áhrif á smásöluverð til neytenda. Greinin er svar við tillögum Félags atvinnurekenda, Neytendasamtakanna og ýmissa stéttarfélaga um að tollkvótum, heimildum til að flytja inn takmarkað magn búvöru án tolla, sé úthlutað án endurgjalds í stað þess að bjóða þá upp. „Á frjálsum markaði selja allir á markaðsverði eða því sem næst. Ókeypis kjötkvóti er ekki gefinn áfram,“ skrifar Steinþór.

Orðalagið hér er svolítið villandi. Umræðan snýst ekki um það hvort innflytjendur/heildsalar gefi tollkvóta, heldur hvort neytendur njóti þess tollfrelsis á takmörkuðu magni af búvörum, sem samið hefur verið um í alþjóðlegum samningum. Með því að bjóða kvótana upp bætist svokallað útboðsgjald við innflutningsverð vörunnar. Hæstiréttur hefur staðfest að útboðsgjaldið sé skattur í skilningi stjórnarskrárinnar og þannig eru innflytjendur látnir borga skatt fyrir að fá að flytja inn vöru sem annar skattur, innflutningstollurinn, hefur verið felldur niður af. Til lengri tíma fer útboðsgjaldið hækkandi og étur upp ávinning verzlunar og neytenda af tollfrelsinu.

Ókeypis úthlutun ostakvóta
Við höfum engin dæmi um að stjórnvöld úthluti tollkvóta fyrir kjötvörur án endurgjalds, en við þekkjum hins vegar slíkt dæmi af mjólkurvörum. Á sínum tíma samdi Ísland við Evrópusambandið um 230 tonna tollfrjálsan innflutningskvóta af svokölluðum sérostum, en það eru ostar sem njóta verndar upprunaheita og eru eingöngu framleiddir á tilteknu landsvæði, t.d. Rochefort, Parmesan eða Havarti. Alþingi ákvað, að tillögu meirihluta atvinnuveganefndar, að úthluta þessum tollkvóta án endurgjalds og með hlutkesti, en ekki með útboði. Hver innflytjandi getur í mesta lagi fengið 15% kvótans, en ekkert útboðsgjald er greitt. Rök nefndarinnar voru að þessir ostar væru ekki í beinni samkeppni við innlenda ostaframleiðslu. Þar með viðurkenndu alþingismenn, reyndar óvart, að útboðin á tollkvótum séu verndaraðgerð fyrir innlenda framleiðslu, en stuðningsmenn kerfisins, eins og Steinþór heildsali, hafa löngum þrætt fyrir það.

Stóra Havarti-málið
Þessi tollfrjálsi innflutningur er meginskýringin á því að úrval innfluttra osta hefur snaraukizt í verzlunum – og að þeir eru boðnir á vel samkeppnishæfu verði. Til að sýna fram á áhrif tollfrelsisins er ekki úr vegi að rifja upp „stóra ostamálið“ sem kom upp síðastliðið sumar, en árvökulum neytendum hnykkti við þegar Havarti-ostur, sem hafði verið seldur í Bónusi á 598 krónur fyrir 300 gramma stykki, hækkaði skyndilega í 998 krónur. Skýringin var sú að sérostakvótinn, sem innflytjandi vörunnar hafði fengið úthlutað, kláraðist. Þá tók við almennur tollkvóti fyrir osta, sem er úthlutað með útboði og greiða þurfti fyrir útboðsgjald, tæplega þúsund krónur á kíló. Svo fékkst aftur sérostakvóti án útboðsgjalds og í dag kosta 300 grömm af Havarti-osti í Bónusi 655 krónur.

Þúsundkallinn á kíló, sem munar í innkaupsverði vörunnar, fer með öðrum orði ekki í vasa heildsalans heldur skilar sér til neytenda, þvert á það sem Steinþór og fleiri halda fram. Í virkri samkeppni á matvörumarkaði er mikill þrýstingur bæði á heildsala og smásala að skila lækkunum á innkaupsverði til neytandans.

Þetta er lítið, en raunverulegt og lærdómsríkt, dæmi um það hvernig úthlutun tollkvóta án endurgjalds stuðlar að lægra verði og meiri samkeppni – og hvernig útboðsfyrirkomulagið hækkar verð.

Nýjar fréttir

Innskráning