Hefur endurheimt þrjá milljarða fyrir fyrirtækin og er ekki hættur

16.08.2018
Páll Rúnar M. Kristjánsson

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Félags atvinnurekenda, hefur á undanförnum árum höfðað mál í þrígang vegna útboðsgjalda, sem ríkið hefur lagt á félagsmenn í FA og önnur innflutningsfyrirtæki vegna úthlutunar á tollfrjálsum innflutningskvótum vegna búvara. Öll málin hafa unnist, með þeim árangri að ríkið hefur þurft að endurgreiða fyrirtækjunum 2.917.647.222 krónur, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Þetta eru hæstu endurgreiðslur í skattamálum sem dæmdar hafa verið hér á landi.

Stærstu skattamál sögunnar
Fjallað er um árangurinn af málarekstri Páls í Viðskiptablaðinu í dag. „Þetta er auðvitað stærsti sigur í svona máli gegn íslenska ríkinu og afar fordæmisgefandi hvað varðar þann rétt til endurgreiðslu sem borgararnir njóta. Svona mál hafa ekki unnist áður. Það hafa verið ýmis minni mál þar sem skattur er endurákvarð­aður eða felldur niður. En mál af þessari stærðargráðu hafa ekki unnist áður, þar sem kerfisbundinn ágalli veldur því að ríkið þarf að punga út þúsundum milljóna,“ segir Páll í viðtali við blaðið.

„Fyrstu málin sem fóru í gang gengu út á það hvort ráðherra hefði valkvæða heimild til að leggja á skatt í formi útboðsgjalds. Við töldum að þessi heimild væri í augljósri andstöðu við bann stjórnarskrárinnar um valkvæða skattlagningu. Dómur féll svo í Hæstarétti, eftir áfrýjun okkar á niðurstöðu héraðsdóms, og var niðurstaða Hæstaréttar sú að íslenska ríkið var dæmt til að endurgreiða fyrirtækjunum sögulega háa fjárhæð í endurgreiðslu skatta,“ segir Páll. „Meðan á rekstri málanna stóð voru gerðar breytingar á búvörulögum um úthlutun tollkvóta. Breytingin fól í sér að einn valkosturinn við ákvörðun tollkvóta var tekinn út, sem var að kasta hlutkesti, en annar valkostur var skilinn eftir, sem fól í sér þann möguleika að opna fyrir innflutning. Eftir þessar breytingar var dæmt aftur í málinu í héraði, þar sem við unnum aftur þessi nýju mál og þeirri niðurstöðu var ekki áfrýjað.“ segir Páll.

Umfjöllun um dómsmálin er í Viðskiptablaðinu í dag.

Sigur fyrir fyrirtæki sem eiga rétt á endurgreiðslum
Í millitíðinni stefndi Páll inn þremur öðrum málum fyrir hönd sömu fyrirtækja, þar sem ríkið reiknaði kröfurnar í fyrstu málunum rangt út. „Við töldum að íslenska ríkið miðaði við rangan upphafsdag dráttarvaxta, bakfærði fjármagnstekjur og höfuðstóllinn hafi ekki verið færð­ur á réttum tíma.  Embættismenn gerðu þetta í samræmi við reglur sem þeir hafa unnið eftir í mörg ár. Þau mál unnust öll í héraði og ríkið áfrýjaði niðurstöðu dómsins til Hæstaréttar. Ríkið hefur  samt fallið frá nokkrum málsástæðum sínum og fallist á kröfuna að hluta. Það er því í raun viðurkennt að þetta hafi verið röng útreikningsaðferð hjá þeim, en það eina sem þeir gera ágreining um núna er upphafsdagur dráttarvaxta. Áfrýjunin verður tekin fyrir í Hæstarétti í nóvember næstkomandi en segja má að þegar hafi nokkur sigur unnist fyrir hönd fyrirtækja sem geta átt rétt á endurgreiðslum frá ríkinu í framtíðinni,“ segir Páll í Viðskiptablaðinu.

Fleiri mál í farvatninu
Fleiri mál vegna álagningar opinberra gjalda á fyrirtæki eru í farvatninu hjá Páli. Eitt þeirra er málshöfðun fyrir hönd félagsmanns í FA gegn Þjóðskrá og Reykjavíkurborg vegna álagningar fasteignagjalda, en þar er um gríðarlegar fjárhæðir að tefla fyrir fyrirtækin í landinu. Þá upplýsir Páll í Viðskiptablaðinu að fleiri mál vegna fyrirkomulags tollheimtu af búvörum bíði þess að fara fyrir dóm. „Þau mál sem nú hafa verið þingfest en eru ódæmd, eru í raun umfangsmeiri en fyrrnefnd mál. Þessi mál tengjast áðurnefndri heimild ráðherra til að opna fyrir alls konar innflutning á engum eða lægri tollum. Þessi mál ganga í raun út á að fá staðfest að allir tollar sem ráðherra hefur vald til þess að fella niður séu ólögmætir. Stefnendur í þessum málum eru þónokkur fjöldi fyrirtækja sem eiga hagsmuni af þessu máli,“ segir Páll.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning