Íslensk-evrópska verslunarráðið og Félag atvinnurekenda efna til opins morgunverðarfundar um gullhúðun Evrópureglna fimmtudaginn 30. maí kl. 8.30 til 9.45. Fundurinn er haldinn í fundarsal FA í Skeifunni 11.
Gullhúðun Evrópureglna íþyngir atvinnulífinu. Með gullhúðun er átt við það þegar stjórnvöld bæta séríslenskum kröfum við reglur EES-samningsins þegar þær eru innleiddar í íslensk lög. Eftir áralangan þrýsting frá ýmsum hagsmunasamtökum í atvinnulífinu er málið komið á dagskrá stjórnmálanna. Unnin var greining á gullhúðun lagafrumvarpa á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Starfshópur á vegum utanríkisráðherra hefur unnið að tillögum um hvernig megi koma í veg fyrir gullhúðun Evrópureglna og vinda ofan af henni og verða þær kynntar á fundinum. Samfylkingin setti aðgerðir gegn gullhúðun í nýja stefnu sína um atvinnu- og samgöngumál og þannig mætti áfram telja.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
Gullhúðun EES-gerða í íslenskum rétti – tillögur um úrbætur
Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og meðlimur starfshóps utanríkisráðherra
Pallborðsumræður
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Margrét Einarsdóttir prófessor, Páll Rúnar M. Kristjánsson, formaður ÍEV og hæstaréttarlögmaður og Birta Sif Arnardóttir, lögfræðingur FA
Við veltum upp spurningum á borð við eftirfarandi: Hvað þýðir gullhúðun fyrir íslensk fyrirtæki og samkeppnishæfni þeirra? Er gullhúðun til komin vegna skorts á pólitískri forystu og embættismönnum er leyft að leika lausum hala? Er vanþekkingu í stjórnsýslunni um að kenna? Hvaða tilllögur hafa FA og ÍEV lagt fram á undanförnum árum um það hvernig megi koma í veg fyrir íþyngjandi gullhúðun Evrópureglna?
Fundarstjóri og stjórnandi pallborðsumræðna er Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Skráning er nauðsynleg hér að neðan.
Aðalfundur ÍEV verður haldinn í beinu framhaldi af fundinum, kl. 10.