Heimild til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda fallin úr gildi

05.01.2017

AlthingiFélag atvinnurekenda hvatti Alþingi til þess við vinnslu fjárlagafrumvarpsins og tengdra mála að festa varanlega í sessi heimild til að tvískipta gjalddögum aðflutningsgjalda í tolli, en hún hefur verið framlengd hvað eftir annað undanfarin átta ár. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis féllst ekki á röksemdir félagsins og hefur bráðabirgðaákvæðið nú runnið sitt skeið. Því hafa fyrri reglur um uppgjörstímabil og gjalddaga aðflutningsgjalda tekið gildi, eins og fram kemur í tilkynningu tollstjóra.

FA benti meðal annars á ítrekað álit fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um að heimildin skerti ekki tekjur ríkisins og hefði jafnvel í för með sér betri skil virðisaukaskatts. Þá hefði ítrekað verið vísað til þess að yfir stæði heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins. Sú endurskoðun hefði dregist úr hömlu og væri ótækt að láta þetta mál stranda á að henni væri ekki lokið.

Endurskoðun gjalddaga og greiðslufresta enn í undirbúningi
Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um bandorminn svokallaða, frumvarp til laga um ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna fjárlagafrumvarpsins, segir um þetta mál:

„Upphafleg ástæða þess að bráðabirgðareglan var felld inn í tollalög var að nauðsynlegt þótti að bregðast tímabundið við þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna gengisfalls, samdrátt­ar og verðbólgu á síðari hluta ársins 2008. Litið var svo á að reglan fæli í sér greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið sem gerði fyrirtækjum kleift að dreifa gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalds. Með framlengingu sem kveðið var á um í lögum nr. 46/2011 var vísað til yfirlýs­ingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga en að öðru leyti hafa framlengingar grundvallast á því að nauðsynlegt væri að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna samdráttar í íslensku efnahagslífi.

Nefndin flutti frumvarp á 145. löggjafarþingi (609. mál) þar sem heimildin var framlengd með eftirfarandi rökum: Í þau skipti þegar reglan hefur verið framlengd hafa legið fyrir áskoranir frá hagsmunaaðilum, samtökum þeirra eða aðilum vinnumarkaðar. Í ljósi betri stöðu íslensks efnahagslífs og þess að ekki hafði verið farið fram á frekari framlengingu rann reglan sitt skeið á enda við lok ársins 2015 og við tóku ákvæði 122. gr. tollalaga. Fyrsti gjalddagi aðflutningsgjalda aðila sem njóta greiðslufrests á árinu 2016 er 15. mars 2016. Fyrirtæki, og þá einkum hin minni, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir afleiðingum þess að bráðabirgðareglan rann sitt skeið á enda. Í mörgum tilvikum virðast þau illa undirbúin til að takast á við að þurfa að greiða aðflutningsgjöld á greiðslufresti í einu lagi.

Í athugasemdum við umrætt frumvarp áréttaði nefndin einnig að skilningur hennar væri að bráðabirgðareglan rynni sitt skeið á enda á árinu 2016. Af framangreindu má ráða að ljóst var að heimildin félli brott árið 2016 auk þess sem endurskoðun gjalddaga og greiðslufresta skatta og gjalda með samræmingu að leiðarljósi er í undirbúningi. Í ljósi þess telur meiri hlutinn ekki rétt að taka upp umrædda undanþáguheimild að nýju.“

FA heldur málinu vakandi
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að félagið líti ekki svo á að baráttan fyrir að viðhalda þessu fyrirkomulagi sé töpuð. „Það eru gild rök fyrir því að heimildin til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda sé til hagsbóta bæði fyrir innflutningsfyrirtæki og ríkið. Við munum halda þessu vakandi eftir því sem margboðaðri heildarendurskoðun á gjalddögum og greiðslufrestum í virðisaukaskattskerfinu vindur fram,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning