Héraðsdómur: Ríkið endurgreiði útboðsgjald upp á 355 milljónir

14.11.2017

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að útboðsgjald, sem ríkið innheimtir fyrir heimildir til að flytja inn búvörur á engum eða lægri tollum, sé ólögmætt. Þetta er í annað sinn sem dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að útboðsgjaldið sé ólögmætt. Breytingar, sem gerðar hafa verið á búvörulögum, duga því að mati Héraðsdóms ekki til að koma á lögmætu fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta.

Héraðsdómur felldi samhljóða dóma í málum fyrirtækjanna Sælkeradreifingar, Innness og Haga. Samkvæmt dómnum þarf ríkissjóður að endurgreiða fyrirtækjunum þremur um 355 milljónir króna í oftekin gjöld. Útboðsgjaldið hefur farið sífellt hækkandi undanfarin misseri, samhliða vaxandi eftirspurn eftir innfluttum búvörum.

Forsaga málsins er sú að í janúar 2016 dæmdi Hæstiréttur ríkið til að endurgreiða sömu þremur innflutningsfyrirtækjum oftekið útboðsgjald. Í dómum Hæstaréttar var því slegið föstu að útboðsgjaldið væri skattur og Alþingi mætti samkvæmt stjórnarskránni ekki framselja landbúnaðarráðherra val um það hvort skattur væri lagður á eða ekki. Alls má ætla að endurgreiðslur ríkissjóðs til innflutningsfyrirtækja vegna þessarar niðurstöðu Hæstaréttar hafi numið hátt í tveimur milljörðum króna.

Framsal skattlagningarvalds andstætt stjórnarskrá
Eftir að dómar í sömu málum höfðu fallið í Héraðsdómi í mars 2015 breytti Alþingi ákvæðum búvörulaga um úthlutun tollkvóta og felldi út þann möguleika ráðherra að úthluta tollkvóta með hlutkesti. Félag atvinnurekenda taldi að búvörulögin brytu áfram í bága við stjórnarskrá, enda hefur ráðherra áfram það val samkvæmt lögunum að bjóða upp tollkvótana og innheimta útboðsgjald eða úthluta kvótunum endurgjaldslaust. Meðal annars á þeim forsendum var ríkinu stefnt á nýjan leik. Á rökin varðandi framsal skattlagningarvaldsins fellst Héraðsdómur Reykjavíkur og segir í niðurstöðum dómsins að ráðherra hafi eftir sem áður verulegt svigrúm samkvæmt 3. mgr. 65. gr. búvörulaga til að ákveða hvort innflutningur vöru skuli háður tollkvótum eða hvort hann veiti heimild til almenns innflutnings.

„Telja verður að ákvæði 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar feli í sér afgerandi kröfu um að Alþingi ráði því til lykta í löggjöf hvaða atvik varða skattskyldu. Þótt sjónarmið sem rakin eru í lögskýringargögnum geti almennt sett því ákveðnar skorður hvernig stjórnvöld beita heimildum sínum til að setja stjórnvaldsfyrirmæli þá geta þau sjónarmið ekki fólgið í sér slíka blessun yfir ákvæði 3. mgr. 65. gr. búvörulaga að ákvæðið komist með því í flokk skattlagningarheimilda sem uppfylla kröfur fyrrnefndra ákvæða stjórnarskrárinnar,“ segir í dómnum.

Úthlutun tollkvóta verði endurskoðuð
„Ríkið hlýtur nú að leiða til lykta þá heildarendurskoðun á úthlutun tollkvóta fyrir búvörur sem Félag atvinnurekenda hefur lengi hvatt til að fari fram,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Félagið hefur bent á aðrar leiðir til að úthluta tollkvótunum en þessa uppboðsleið, sem hækkar verð, hamlar samkeppni og reynist ríkissjóði að auki dýr, þar sem hann þarf reglulega að endurgreiða útboðsgjaldið með dráttarvöxtum.“

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður fyrirtækjanna sem unnu málið fyrir Héraðsdómi, segir að þegar dómur Hæstaréttar í fyrra málinu vegna útboðsgjalda féll hafi íslenska ríkinu mátt vera ljóst að afstaða þess væri röng og að lagfæra yrði meinbugi á búvörulögunum. „Það var ekki gert, þvert á móti hélt þáverandi landbúnaðarráðherra því fram að lagabreytingarnar stæðust stjórnarskrá. Eftir sátu fyrirtækin, sem urðu að leita réttar síns á nýjan leik, og neytendur með innflutningsfyrirkomulag sem markast af viðleitni stjórnvalda til að hafa af þeim þann réttmæta ábata sem alþjóðasamningar eiga að veita þeim,“ segir Páll.

Dómur í máli Sælkeradreifingar gegn ríkinu

Nýjar fréttir

Innskráning