Héraðsdómur telur að ríkið hafi mátt endurtollflokka pitsuost – málið heldur áfram

17.02.2025

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur öðru sinni hafnað kröfu Danóls ehf., félagsmanns Félags atvinnurekenda, um að ógilda bindandi álit Skattsins um tollflokkun á pitsuosti blönduðum jurtaolíu. Lögmaður Danóls segir að við blasi að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar.

Í dómi Héraðsdóms er ítrekað vísað til dóms Landsréttar í fyrra máli Danóls gegn ríkinu vegna endurtollflokkunar á pitsuostinum úr 21. kafla tollskrár í þann fjórða. Fyrri flokkurinn ber ekki tolla, en sá síðari háa tolla. Fyrir liggur að endurtollflokkunin var gerð þvert á álit tollflokkunarsérfræðinga Skattsins og gekk jafnframt gegn formlegri afstöðu Evrópusambandsins, þar sem osturinn átti uppruna sinn. Árið 2023 úrskurðaði Alþjóðatollastofnunin (WCO), að beiðni ESB, að varan ætti heima í 21. kafla.

Íslenska ríkið hefur borið fyrir sig dóm Landsréttar og ekki talið sig þurfa að fara að ákvörðun WCO. Héraðdómur tekur undir það með ríkinu og segir í dómnum að í dómi Landsréttar felist bindandi fordæmi um hvernig flokka skuli vöruna í 4. kafla tollskrár og „hafa hvorki lög né reglur breyst efnislega um þetta atriði.“ Þá telur dómurinn ekki sannað að Landsréttur hafi verið leyndur gögnum né að þeir stjórnsýslulegu annmarkar hafi verið á málsmeðferðinni að það geti ógilt endurtollflokkunina.

Varð að koma í hlut Landsréttar að vinda ofan af fyrri dómi
„Þetta er auðvitað fyrsta dómstig og frá upphafi var ljóst að málið þyrfti að fara fyrir Landsrétt. Það var fyrst og fremst formsatriði að fá dóm Héraðsdóm til að áfrýja þangað. Til Landsréttar fer málið núna og þar má búast við að málið vinnist að fullu,” segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Danóls. „Dómstólameðferð málsins er rétt að hefjast og í raun skiptir engu máli hver vinnur eða tapar á þessu stigi. Það sem máli skiptir er hvernig lokadómurinn hljóðar. Það varð auðvitað að koma í hlut Landsréttar að vinda ofan af fyrri dómi og því liggur leiðin þangað.”

Breyting á tollskránni með lögum boðuð
Fyrir liggur að Evrópusambandið telur endurtollflokkun íslenska ríkisins á pitsuostinum brjóta gegn bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í síðustu viku birtust í samráðsgátt stjórnvalda áform fjármálaráðherra um að breyta tollflokkun pitsuostsins til fyrra horfs, í samræmi við ákvörðun WCO. „Samkvæmt 189. gr. tollalaga nr. 88/2005 er heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á íslensku tollskránni til samræmis við úrskurði eða álit WCO. Nú er áformað að innleiða túlkun WCO á fyrrnefndri athugasemd við 4. kafla tollskrárinnar. Þar sem fyrir liggur niðurstaða dómstóla hér á landi um það hvernig túlka beri áðurnefnda athugasemd við 4. kafla tollskrárinnar þarf að breyta tollskránni með lagabreytingu,“ segir í áformaskjalinu. 

Staða málsins óbreytt í bili
„Í sjálfu sér er staða málsins óbreytt í bili eftir þennan dóm. Héraðsdómur hefur í tvígang verið ósammála alþjóðastofnunum um umgengni við alþjóðlegu tollskrána. Það er erfitt að trúa því að Landsréttur komist að sömu niðurstöðu en um leið ástæða til að fagna því að ný ríkisstjórn taki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands alvarlega,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Nýjar fréttir

Innskráning