Héraðsdómur: Undanþága kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum stríðir gegn stjórnarskránni og hefur ekki lagagildi

18.11.2024

Félag atvinnurekenda fagnar eindregið dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Innness ehf., félagsmanns FA, gegn Samkeppniseftirlitinu. Þar reyndi á lögmæti breytinga, sem gerðar voru á búvörulögum síðastliðið vor, þar sem kjötafurðastöðvum var veitt víðtæk undanþága frá samkeppnislögum. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að lagabreyting Alþingis hafi ekki lagagildi, enda hafi hún brotið gegn 44. grein stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.

Málið gerbreyttist hjá atvinnuveganefnd
Í dómnum eru upphaflegt frumvarp matvælaráðherra um breytingu á búvörulögum og breytingar, sem atvinnuveganefnd Alþingis gerði á frumvarpinu, borin saman og segir dómurinn að það blasi við að upphaflega frumvarpið og breytingar nefndarinnar eigi „fátt sameiginlegt annað er þingmálsnúmerið og heitið.“ Fyrra frumvarpið hafi átt að efla hagsmuni bænda, en breytingin eins og hún var samþykkt sé í þágu afurðastöðva. Ólíkir aðilar njóti því góðs af.

Dómurinn kemst sömuleiðis að þeirri niðurstöðu að í frumvarpinu eins og atvinnuveganefnd breytti því séu undanþágur frá samkeppnislögum allt aðrar og miklu meiri en í upphaflega frumvarpinu. Í frumvarpinu hafi í upphafi verið gert ráð fyrir að bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu afurðastöðva, sem og samrunareglur og -eftirlit samkeppnisréttar myndu gilda fullum fetum, en það eigi ekki við eftir breytingar atvinnuveganefndar. Bændur hafi einnig átt að njóta góðs af upphaflega frumvarpinu. „Afurðastöðvar njóta á hinn bóginn góðs af eins og Alþingi afgreiddi frumvarpið og það án tillits til þess hvort þær stöðvar séu reknar af bændum,“ segir í dómnum.

Áskildum fjölda umræðna ekki náð
Niðurstaða héraðsdóms er að sú ályktun blasi við að að „í raun hlaut frumvarpið, sem útbýtt var á Alþingi 14 .nóvember 2023, einungis eina umræðu á Alþingi sem fram fór 21. nóvember sama ár. Annað eðlisólíkt frumvarp í samræmi við tillögur atvinnuveganefndar var svo rætt við tvær umræður, 20. og 21. mars 2024. Áskildum fjölda umræðna samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar var þannig ekki náð. Sú breyting sem gerð var á búvörulögum og samþykkt á Alþingi 21. mars og gefin út sem lög nr. 30/2024, var ekki sett á stjórnskipulegan hátt þar sem hún stríðir gegn stjórnarskrá og hefur af þeim sökum ekki lagagildi.“

Niðurstaðan kemur ekki á óvart
„Þessi dómsniðurstaða kemur ekki á óvart. Félag atvinnurekenda hefur sagt, allt frá því að atvinnuveganefnd breytti frumvarpi matvælaráðherra, að þetta væru ólög, vinnubrögðin óboðleg og matið á áhrifum lagabreytingarinnar í raun ekkert, en ljóst er að hún hefur afdrifarík áhrif á samkeppni og skaðar hagsmuni verslunar, neytenda og bænda. Viðvörunum samtaka fyrirtækja, launþega og neytenda var ekki sinnt heldur málið keyrt í gegnum þingið og þeir þingflokkar, sem stóðu að þessum forkastanlegu vinnubrögðum, sitja nú í súpunni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Hann segir blasa við að þeir samningar afurðastöðvanna sem gerðir hafi verið á grundvelli lagabreytingarinnar hafi nú ekkert gildi. Þá séu lögin sjálfkrafa úr gildi fallin miðað við þessa dómsniðurstöðu.

„Það er afar mikilvægt að mál fái þá þinglegu meðferð sem stjórnarskráin gerir kröfu um. Þeirri meðferð er ætlað mikilvægt hlutverk við setningu leikreglna samfélagsins. Í þessu máli var augljóst að svo var ekki. Niðurstaða dómstólsins í þá veru er því eðlileg og rétt. Eftir stendur að umrædd lög hafa ekki lagagildi,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður sem flutti málið fyrir hönd Innness.

Innnes krafðist íhlutunar Samkeppniseftirlitsins
Forsaga dómsmálsins er sú, að eftir að Alþingi samþykkti undanþágu kjötafurðastöðvanna frá samkeppnislögum, sendi Innnes Samkeppniseftirlitinu (SE) kröfubréf og krafðist þess að stofnunin myndi beina því til kjötafurðastöðvanna að haga starfsemi sinni til samræmis við ákvæði samkeppnislaga og viðhafa enga þá starfsemi sem bryti gegn banni laganna gegn samráði, misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða ákvæðum þeirra um samruna. Samkeppniseftirlitið taldi sig hins vegar bundið af áðurnefndri lagabreytingu, en í henni fælist að það væri ekki lengur á valdsviði þess að grípa til íhlutunar gagnvart háttsemi framleiðendafélaga sem undanþágan tæki til. SE hafnaði því kröfu Innness um íhlutun með stjórnvaldsákvörðun hinn 26. júlí síðastliðinn. Í ákvörðuninni kom fram að málið kynni að verða tekið til meðferðar á ný, kæmust dómstólar að þeirri niðurstöðu að breytingin á búvörulögum (lög nr. 30/2024) hefði ekki lögformlegt gildi. Í framhaldi af því stefndi Innnes SE fyrir dóm og krafðist flýtimeðferðar.

Í dómi héraðsdóms segir að þar sem lagabreytingin hafi ekki lagagildi, standi hún ekki í vegi fyrir því að Samkeppniseftirlitið taki erindi Innness frá í júlí til úrlausnar í samræmi við sitt lögboðna hlutverk.

Jafnræði fyrirtækja sé tryggt
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, segir að málshöfðun fyrirtækisins hafi ekki beinst að einstökum fyrirtækjum eða athöfnum þeirra, heldur hafi fyrst og fremst verið til þess hugsuð að leitast við að tryggja jafnræði fyrirtækja í samkeppni; að ekki sé verið að veita hluta af viðskiptalífinu undanþágu frá ströngum reglum sem keppinautar viðkomandi fyrirtækja verða að undirgangast, að viðlögðum refsingum. Þá sé erfitt fyrir fyrirtæki, sem hafi varið miklum fjármunum og vinnu til að stækka og ná hagræðingu með kaupum eða sameiningu við önnur félög og þurft að undirgangast stranga skoðun og skilyrði samkeppnisyfirvalda, að horfa upp á að sameiningar keppinauta lúti engu slíku eftirliti eða skilyrðum. „Breytingar á búvörulögunum áttu að færa neytendum ábata, en það er fyrst og fremst virk samkeppni sem er til hagsbóta fyrir neytendur, ekki að taka hana úr sambandi,“ segir Magnús Óli.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024