Á hið opinbera að hafa forystu um launahækkanir?

05.05.2021

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 5. maí 2021.

Úr Hagtíðindum Hagfræðideildar Landsbankans

Nýlegar fréttir um launaþróun og hækkun launakostnaðar eru alvarlegt umhugsunarefni. Í greiningu Hagdeildar Landsbankans á gögnum Hagstofunnar um launaþróun kemur fram sú jákvæða frétt að laun verkafólks, þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hafi hækkað mest á almennum vinnumarkaði á síðasta ári, t.d. langt umfram laun stjórnenda. Markmið síðustu kjarasamninga var einmitt að hækka lægstu launin mest.

Vonda fréttin er sá augljósi munur sem er á launaþróun á almenna vinnumarkaðnum og þeim opinbera. Á einu ári hækkuðu laun á almenna markaðnum um 8,5% en hjá ríkinu um 13,7% og hjá sveitarfélögum um 18,7%.

Þessi mikla hækkun launakostnaðar á sér stað í einhverri erfiðustu kreppu sem riðið hefur yfir áratugum saman. Í því felst ákveðin þversögn. Tölurnar fela líka þá staðreynd að metfjöldi launþega er nú án vinnu vegna áhrifa heimsfaraldursins. Þar er fyrst og fremst um að ræða fólk á almennum vinnumarkaði; atvinnuöryggi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga er allt annað og betra á tímum sem þessum.

Í síðustu samningum opinberra starfsmanna gekk illa að fá þá til að fallast á sömu hækkanir og í lífskjarasamningunum á almenna markaðnum, en samningarnir náðust saman á styttingu vinnuvikunnar, sem átti ekki að hafa verulegan kostnað í för með sér – eða þannig leit það út á yfirborðinu.

Nú er að koma í ljós að kostnaðurinn af styttingunni, umfram almennar launahækkanir, er gríðarlegur og ekki öll kurl komin til grafar. Fjármálaráðherrann upplýsti á Alþingi á dögunum að kostnaður við styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki í þjónustu ríkisins væri um 4,2 milljarðar króna og mönnunargatið sem verður til vegna styttingar vinnutímans væri 780 stöðugildi. Margt er enn allsendis óvíst um það hvernig kostnaðinum verður mætt, t.d. hvort það gengur eftir að starfsfólk í hlutastörfum bæti við sig vinnu, hvort hagræðingarverkefni gangi eftir o.s.frv.

Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að ræða kostnaðinn hjá sveitarfélögunum. Margt bendir til að hann verði enn meiri en hjá ríkinu og að fjöldi sveitarfélaga horfist nú í augu við ófyrirséðan kostnað vegna styttingarinnar. Ýmis dæmi munu vera um að dagvinnufólk hjá sveitarfélögum fái allt að fjögurra tíma vinnustyttingu á viku en haldi engu að síður neyzluhléum – en afnám þeirra átti þó að vera forsenda styttingarinnar. Það er óhætt að segja að ólíku sé saman að jafna sé t.d. litið á síðustu samninga verzlunarfólks um 45 mínútna styttingu á viku.

Raunveruleg hækkun launakostnaðar hins opinbera vegna síðustu kjarasamninga á eftir að koma í ljós, en flest bendir til að hún verði miklu meiri en talið var þegar samningarnir voru gerðir – og miklu meiri en hækkanir hjá einkafyrirtækjum, sem eru þó í mörgum tilvikum ósjálfbærar í kreppunni.

Líklegt framhald af þessu er því miður að í næstu samningum á almenna vinnumarkaðnum verði ástandið með þeim súrrelíska hætti að á sama tíma og landið er að jafna sig á djúpri efnahagsdýfu fari stéttarfélög fram á sambærilegar kjarabætur í formi styttingar vinnutíma og starfsmenn hins opinbera hafa fengið, með tilheyrandi kostnaði sem engin innstæða er fyrir.

Það er raunveruleg hætta á að einkafyrirtæki verði ekki samkeppnisfær við hið opinbera, sem er ekki eingöngu leiðandi í hækkun launakostnaðar heldur eru laun margra hópa hjá hinu opinbera hærri en hjá einkafyrirtækjum. Því til viðbótar kemur styttri vinnutími. Samkeppnishæfni einkafyrirtækja versnar því á innanlandsmarkaði vegna samninga hins opinbera, að ekki sé talað um í alþjóðlegum samanburði.

Þessi staða sýnir enn og aftur hversu mikilvægt er að ná saman um eitthvert vitrænt vinnumarkaðslíkan, þar sem launaþróun ræðst af getu útflutningsgreinanna til að greiða laun, en ekki kröfum starfsmanna hins opinbera. Án aukinnar verðmætasköpunar einkafyrirtækja er ekki hægt að standa undir hækkunum launa, þar með talið starfsmanna hins opinbera. Það er staðreynd sem ekki verður komizt framhjá í umræðum um vinnumarkaðinn.

Nýjar fréttir

Innskráning