Hljóð og mynd fer ekki saman

01.03.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 1. mars 2021.

Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, odd­viti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur, ræddi í samtali við Fréttablaðið sl. fimmtudag þörfina á að koma betur til móts við at­vinnu­lífið í borginni.

Dóra segir að borgarstjórnarmeirihlutinn viti af vantrausti og tortryggni fyrirtækjanna í borginni gagnvart borgaryfirvöldum og sé að bregðast við. „Við viljum vera með sam­keppnis­hæft um­hverfi og nærandi jarð­veg fyrir blóm­legt at­vinnu­líf og frjóa hug­mynda­auðgi og ný­sköpun,“ segir Dóra. Óhætt er að fagna þeirri stefnuyfirlýsingu.

Um leið og oddviti Pírata hefur þennan málflutning í frammi lýsir hún yfir eindregnum og áköfum stuðningi við tillögur umhverfisráðuneytisins um breytingar á hollustuháttareglugerð, í samtali við vef Fréttablaðsins nokkrum dögum fyrr. Í þeim tillögum er gert ráð fyrir að þar sem almenningur hefur aðgang að salernum, t.d. á veitingahúsum eða í verzlunarmiðstöðvum, skuli bjóða upp á einnota tíðavörur. Sömuleiðis að þar sem eru karla- og kvennaklósett, sem almenningur hefur aðgang að, skuli einnig vera salerni fyrir önnur kyn.

Lagastoð finnst ekki
Félag atvinnurekenda hefur bent á að þessar kvaðir geti reynzt kostnaðarsamar; annars vegar vegna innkaupa á vörum, sem eiga væntanlega að vera til ókeypis afnota fyrir gesti, og hins vegar vegna breytinga á húsnæði, sem geta orðið mjög dýrar. Fyrir slíkum íþyngjandi kvöðum verður að vera skýr lagastoð, en hún finnst ekki, jafnvel þótt Dóra Björt segi „mikil­vægt að reglu­gerðir endur­spegli laga­um­hverfi“. Í lögum um kynrænt sjálfstæði er þannig enginn áskilnaður um breytingar á húsnæði fyrirtækja.  

Reglugerðardrögin eru alveg ljómandi gott dæmi um það hvers vegna fyrirtæki vantreysta stjórnvöldum. Settar eru fram tillögur um breytt regluverk án nokkurrar greiningar á afleiðingum þeirra fyrir atvinnulífið. Ótal dæmi eru um slíkt á undanförnum árum; að í þágu fallegra markmiða sé kostnaði bætt á fyrirtækin, oft án nokkurrar umræðu eða greiningar. Embættismenn sjá oft ekki út fyrir skrifstofuveggina og hafa jafnvel ekki hugmynd um að kvaðir, sem er bætt á atvinnulífið, hafi kostnað í för með sér af því að þeir hafa aldrei unnið annars staðar en hjá hinu opinbera.

Hjá borgarfulltrúanum fer ekki saman hljóð og mynd. Það fer ekki saman að ætla að skapa fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi og að bæta sífellt á þau kostnaði. Mörg fyrirtæki hafa, að íhuguðu máli, ákveðið að leggja í kostnað við að bjóða upp á tíðavörur á salernum eða gera breytingar á húsnæði til að bjóða upp á kynhlutlaus klósett. Það er þeirra val – stjórnvöld eiga ekki að skikka þau til að leggja í kostnaðinn sem slíku fylgir.

Nýjar fréttir

Innskráning