Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, brást í beinni útsendingu í fréttum RÚV í kvöld við ummælum Karls G. Kristinssonar læknis og prófessors við HÍ, sem vill draga úr innflutningi á kjöti og grænmeti vegna meintrar hættu á auknu sýklalyfjaónæmi. Karl sagði í kvöldfréttunum að Íslendingar ættu að reyna að vera sjálfum sér nógir um mat.
Lítil áhætta af innflutningi ferskvöru
Ólafur vísaði til skýrslu sem tveir óháðir sérfræðingar á vegum Food Control Consultants, sem hafa starfað sem ráðgjafar fyrir stjórnvöld víða um heim á sviði matvælaeftirlits, unnu fyrir Félag atvinnurekenda árið 2017. Þar kom fram að áhættan af innflutningi ferskrar matvöru væri lítil sem engin hvað varðaði lýðheilsu, dýraheilbrigði og sýklalyfjaónæmi. Þeirra niðurstaða væri að aukin ferðalög á milli landa, aukinn ferðamannastraumur og ofnotkun á sýklalyfjum í heilbrigðiskerfinu væru mun stærri áhættuþættir. Samkvæmt margvíslegum nýlegum rannsóknum, sem farið hefði verið yfir í skýrslunni og hann vissi ekki til að hefðu verið hraktar, væru veik tengsl á milli sýklalyfjanotkunar í landbúnaði og sýklalyfjaónæmis í mönnum.
Ólafur sagði í viðtali í kvöldfréttunum að skoðun Karls væri skoðun eins vísindamanns en aðrir vísindamenn hefðu aðrar skoðanir. „Hann dregur pólitískar ályktanir af sinni vísindalegu vitneskju eins og margir læknar gera. Sumir þeirra vilja hafa sykurskatt og aðrir vilja banna sölu á tóbaki. Það er í rauninni pólitísk skoðun.“
Hömlur væru brot á alþjóðasamningum
Ólafur sagði að alltaf væri einhver áhætta fólgin í viðskiptum með mat milli landa, enda væri matvara viðkvæm. Ein leið væri að banna slík viðskipti eða takmarka þau mikið til að reyna að útiloka áhættuna. „Eða við getum ákveðið að hafa viðskiptin sem frjálsust en viðhafa varúðarráðstafanir, áhættumat og viðbragðsáætlanir eins og gert er á EES-svæðinu. Það er að mínu vati miklu skynsamlegra. Einhvers konar sjálfsþurftarbúskapur sem mér virðist Karl Kristinsson vera að boða yrði í fyrsta lagi ákaflega óhagkvæmur. Hann myndi koma mjög hart niður á bæði úrvali og verði í matvörubúðunum og þar væri einfaldlega verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.“
Þá benti Ólafur á að slíkar hömlur væru brot á alþjóðlegum samningum sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. „Við höfum samið um að okkar sjávarafurðir geti farið inn á Evrópumarkað án heilbrigðiseftirlits á landamærum. Það væri væntanlega í uppnámi ef við beittum hömlum gegn innflutningi á búvörum.“
Viðtalið við Ólaf í heild á ruv.is
Skýrsla Food Control Consultants fyrir FA
Útdráttur úr skýrslunni