Hraðpróf fyrir hundruð milljóna keypt án útboðs

27.01.2022

Svo virðist sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi keypt hraðpróf til að skima fyrir kórónuveirunni fyrir hundruð milljóna króna án þess að bjóða kaupin út í samræmi við lög um opinber innkaup. Heilsugæslan hefur ekki svarað fyrirspurnum Félags atvinnurekenda um málið. Framkvæmdastjóri FA segir um grafalvarlegt mál að ræða.

Forsaga málsins er sú að í september síðastliðnum, þegar fyrir lágu áform stjórnvalda um að heimila fjölmenna viðburði að uppfylltum skilyrðum um að gestir tækju hraðpróf, sendu Ríkiskaup og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu út boð til fyrirtækja um að taka þátt í rafrænu gagnvirku innkaupakerfi vegna hraðprófa. Innkaupin gætu numið allt að fimm milljörðum króna á fimm ára gildistíma innkaupakerfisins. Hinn 8. nóvember fengu níu fyrirtæki staðfestingu þess að þau hefðu verið valin til þátttöku í innkaupakerfinu, m.a. á grundvelli gæða þeirra hraðprófa, sem þau buðu fram og voru metin af erlendum óháðum aðila í útboðsferlinu.

Engin innkaup í kerfinu 
Samkvæmt 41. grein laga um opinber innkaup skulu allir bjóðendur, sem fullnægt hafa skilyrðum útboðs, eiga rétt á aðild að gagnvirku innkaupakerfi. Innkaup viðkomandi vöru fara síðan fram í kerfinu, með því að kaupandinn gefur fyrirtækjunum kost á að leggja fram tilboð fyrir einstök innkaup sem fara fram í kerfinu. Gefa á fyrirtækjunum minnst tíu daga til að leggja fram tilboð innan kerfisins og skal kaupandinn „grundvalla val tilboðs á hagkvæmasta tilboði samkvæmt forsendum fyrir vali tilboðs sem fram komu í útboðslýsingu innkaupakerfisins.“

Er frá leið fóru fyrirtæki, sem valin höfðu verið til þátttöku í innkaupakerfinu, þar með taldir félagsmenn í FA, að furða sig á því að engin innkaup færu fram í kerfinu, á sama tíma og tugir þúsunda manna fóru í hraðpróf, en ætla má að kostnaður við prófin hafi numið numið á annað hundrað milljóna króna hið minnsta.

Ríkiskaup sjá ekki að keypt hafi verið inn samkvæmt löglegu ferli
Fyrr í þessum mánuði sendi FA Ríkiskaupum fyrirspurn vegna málsins. Ríkiskaup svöruðu daginn eftir og greindu frá því að af fyrirliggjandi upplýsingum hjá stofnuninni yrði ekki séð að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefði keypt SARS-CoV-antigen hraðpróf í hinu gagnvirka innkaupakerfi. Heilsugæslan væri kaupandi hraðprófanna og ætti að hafa frumkvæði að kaupum innan kerfisins. „Þegar kaupandi notar innkaupakerfið við kaup á vörum sem falla þar undir, hér SARS-CoV-2 antigen hraðpróf, ber honum að fylgja þeim reglum sem greinir í fyrrnefndri 41. gr., líkt og réttilega er bent á í erindi Félags atvinnurekenda,“ segir í svari Ríkiskaupa.

Ríkiskaup tóku hins vegar fram að þau færu ekki með eftirlitshlutverk gagnvart stofnunum ríkisins og FA yrði að beina fyrirspurnum að Heilsugæslunni.

Í framhaldi af því sendi FA Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins erindi, dags. 21. janúar sl., og óskaði upplýsinga um hvernig hefði verið staðið að innkaupum á  hraðprófum vegna COVID-19, hvers vegna útboð á grundvelli gagnvirka innkaupakerfisins hefði ekki farið fram, af hvaða fyrirtækjum prófin hefðu verið keypt, á hvaða samningsgrundvelli og hvort lögum um opinber innkaup hefði verið fylgt við innkaupin. Þessu erindi hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ekki svarað.

Nota próf sem Landspítalinn „mælir sérstaklega með“
Í Morgunblaðinu 24. janúar var haft eftir Sigríði Dóru Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að stofnunin notaði hraðpróf frá „tveimur framleiðendum sem Landspítalinn hefur mælt sérstaklega með.“ Sérfræðingar Landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins hafa hins vegar samþykkt formlega nokkrar tegundir hraðprófa, auk þess sem öll fyrirtækin sem valin voru til þátttöku í gagnvirka innkaupakerfinu skiluðu inn upplýsingum um próf sem metið var að stæðust kröfur útboðsins.

Grafalvarlegt mál
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að hér sé um grafalvarlegt mál að ræða. „Opinberum aðilum leyfist ekki að kaupa inn vörur fyrir aðrar eins fjárhæðir án þess að fara í formlegt útboðsferli. Af svörum Ríkiskaupa verður ekki annað ráðið en að Heilsugæslan hafi látið hjá líða að fylgja hinu lögformlega ferli. Lögin um opinber innkaup gegna mikilvægu hlutverki; þau ýta undir samkeppni á markaði og að skattgreiðendur njóti kosta þeirrar samkeppni með því að ríkið kaupi af þeim fyrirtækjum sem bjóða lægst verð, að gæðakröfum uppfylltum. Lögin um opinber innkaup tryggja sömuleiðis opið og gegnsætt innkaupaferli og koma þannig í veg fyrir spillingu. Okkur þykir stórundarlegt að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins lýsi því yfir opinberlega að hún noti hraðpróf sem einhverjum á Landspítalanum þykja henta, en gefi ekki fyrirtækjum færi á að bjóða í innkaupin, sem bjóða hraðpróf sem hafa sætt ströngu gæðaeftirliti og eru samþykkt af opinberum og óháðum aðilum. Það er ekki ábyrg meðferð á fjármunum skattgreiðenda. Þá þykir okkur ekki síður furðulegt að stofnunin svari ekki fyrirspurnum um málið ef hún hefur skýringar á reiðum höndum,“ segir Ólafur.

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning