Húsnæðisverðið gríðarlegt hagsmunamál fyrirtækja

13.09.2021
Ólafur og Kristrún ræða saman í Kaffikróknum.

Ríkið á að beita sér á litlum hluta fasteignamarkaðarins með fjármögnun félagslegra íbúða til að stuðla að sveiflujöfnun og hindra að hækkanir á botni markaðarins hafi áhrif á hann allan. Þetta er að mati Kristrúnar Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, „risastórt hagsmunamál atvinnurekenda“ af því að hækkanir húsnæðisverðs þrýsta á launahækkanir. Kristrún var gestur Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í Kaffikróknum hjá FA í morgun og horfa má á samtal þeirra í spilaranum hér að neðan.

Fasteignaskattar fylgja verðhækkunum á markaðnum
Ólafur spurði Kristrúnu meðal annars út í síhækkandi fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Hún benti á að þær hækkanir fylgdu hækkandi fasteignamati, sem elti stöðugar verðhækkanir á markaðnum, og væri langt umfram verðmætasköpun í þjóðfélaginu og því íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Verðhækkanir á íbúðamarkaði hefðu áhrif á atvinnuhúsnæði og þessir markaðir tengdust. „Hvers vegna eru þessar hækkanir svona miklar? Það er einhver markaðsbrestur til staðar sem er að gera það að verkum að við sjáum núna eignabólu á hluta af fasteignamarkaðnum, sem hefur mikil áhrif á verðlag, verðbólgu og launakröfur. Þetta hefur allt áhrif á stöðu fyrirtækja,“ sagði Kristrún. „Þetta er svo miklu stærra hagsmunamál en bara fyrir einstaklingana. Þetta er stærsti einstaki kostnaðarliður flestra heimila og hefur gríðarleg áhrif í launaumræðum og launakröfum. Þetta er þriðjungur af verðbólgu í dag, þannig að hækkanirnar hafa áhrif á verðlag. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrirtækja – að það sé ákveðið akkeri á markaði sem komi í veg fyrir að þessar hækkanir leki upp allan markaðinn. Þarna er bresturinn.“

Ríkið jafni sveiflurnar
Hún sagði að ein undirrót verðhækkana væri að meira fjármagn úr bankakerfinu hefði farið á kaupendahlið markaðarins en byggingarhliðina. Samfylkingin vildi efla félagslega íbúðakerfið. „Fólk tengir oft sjálft ekki við félagslega kerfið og segir sem svo að það vilji kaupa en ekki leigja. En vandinn byrjar í grunninum, fólk kemst ekki af stað. Þeir sem komast ekki á markaðinn eru að eyða fúlgum fjár í leigu, yfirbjóða ódýrustu eignirnar og þessar hækkanir á botninum þrýsta upp öllum markaðnum.“ Kristrún sagði að veita ætti meira fé í almenna íbúðakerfið og búa þannig til grunn, sem héldi aftur af öllum markaðnum. Það þýddi ekki að allir ættu að búa í leiguíbúðum. Félagslegar íbúðir væru nú um 6% af markaðnum en hefðu fyrir aldamót verið um 11%. „Að mínu mati þarf að gefa þarna í til að hækka þetta hlutfall. Síðan á ríkið að vera með ákveðið hlutfall og fylgja eftir með byggingu húsnæðis eftir því sem við stækkum markaðinn. Það á ekki að taka yfir allan markaðinn.“

Kristrún sagði að ríkið væri í þeirri stöðu að geta aukið fjármagn á framboðshliðinni og farið á móti hagsveiflunni þegar útlán banka skryppu saman. Það væri hagfellt fyrir verktaka, enda vissu allir í byggingabransanum að sveiflur væru slæmar, m.a. af því að þeir hefðu fjárfest mikið í vélum, tækjum og fólki. „Þá erum við komin með aðra sveiflujöfnun þarna inn. Ég myndi vilja líta á þennan litla hluta af markaðnum sem part af opinberum innviðum. Þetta er bara opinber fjárfesting, sem flestir eru orðnir sammála um. Þú gefur í þegar slaknar á markaðnum, svo bakkarðu þegar það er spenna. Þetta er risastórt hagsmunamál fyrir atvinnurekendur, af því að þetta er stærsta rót launahækkana hér á landi.“

Vilja lækka álögur á minni fyrirtæki
Eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar er einfaldara regluverk og lægri álögur fyrir einyrkja og minnstu fyrirtækin. Meðal annars er boðað svokallað frítekjumark varðandi tekjuskatt fyrirtækja. „Við vitum að það er ákveðin tilhneiging hjá litlum fyrirtækjum sem vilja lækka skattbyrðina sína þegar líður á árið að henda í alls konar rekstrarkostnað, oft í ópraktíska hluti, til að minnka skattskuldina. Að okkar mati er þetta sóun á fjármagni,“ sagði Kristrún. „Við viljum skapa svigrúm hjá fyrirtækjum til að vera með ákveðinn grunn sem er undanþeginn tekjuskatti svo lengi sem það fer í fjárfestingu í fyrirtækinu.“ Ekki væri búið að útfæra við hvaða fjárhæðir yrði miðað. „Þá ertu að örva fjárfestingu og skapa þar grundvöll til vaxtar en ef þú vilt ekki nýta þér þetta, þá þarftu ekki að nýta það. Þeir sem eru að standa sig og bæta við reksturinn sinn fá þarna hagkvæma leið til að stýra auðlindum í hagkerfinu. Ef menn vilja ekki nota þetta sitja þeir með óbreyttan hlut.“

Kristrún sagði að Samfylkingin væri ekki mótfallin breytingum á tryggingagjaldinu, en vildi leggja þar áherslu á litlu fyrirtækin þar sem sá skattur vægi hlutfallslega langþyngst, sérstaklega í launakostnaði.

Hægt er að horfa á samtal Ólafs og Kristrúnar með því að smella á spilarann hér að ofan.

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning