Hvað finnst Sigurði, Bjarna og Lilju um Isavia?

11.01.2022

 

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Innherja á Vísi 11. janúar 2021.

Íslenska ríkið, undir merkjum Isavia, rekur meðal annars öfluga nærfataverslun á Keflavíkurflugvelli.

Félag atvinnurekenda hefur á undanförnum árum látið ýmis mál sem varða ríkisrisann Isavia til sín taka, t.d. hvernig fyrirtækið hefur lagt stein í götu einkarekinna keppinauta í bílastæðaþjónustu á alþjóðaflugvellinum í Keflavík, farið í beina samkeppni við innlenda verzlun með netverzlun fríhafnarinnar, og ósanngjarna úthlutun afgreiðslutíma til flugfélaga.

FA tekur því eindregið undir tilmæli Samkeppniseftirlitsins til stjórnvalda, sem birt voru í áliti stofnunarinnar í síðustu viku, um að séð verði til þess að starfsemi Isavia hamli ekki samkeppni og að ríkið beiti virku eigendaaðhaldi til að hafa hemil á yfirgangi ríkisfyrirtækisins í garð keppinauta. Slíka stefnu þarf að marka almennt um ríkisfyrirtæki og -stofnanir sem (af einhverri furðulegri ástæðu) eru látin standa í rekstri í beinni samkeppni við einkaaðila. Það eitt að ríkið sé í slíkum rekstri er í bezta falli varhugavert en verður þeim mun fráleitara í ljósi þeirrar staðreyndar að ríkið hefur ítrekað farið á svig við samkeppnislöggjöfina í þeim erindagjörðum.

SE fer fram á að stjórnvöld taki afstöðu
Í áliti Samkeppniseftirlitsins er það nýmæli, að stofnunin fer fram á skýra afstöðu stjórnvalda til tilmælanna. „Að því marki sem stjórnvöld fallast ekki á tillögur OECD eða tillögur Samkeppniseftirlitsins, er mælst til þess að tekin verði opinber afstaða til þeirra svo ekki ríki efi um afdrif viðkomandi tillagna eða tilmæla,“ segir þannig í álitinu. Þessi krafa SE er væntanlega sett fram í ljósi biturrar reynslu; það hefur því miður verið alltof algengt að ráðherrar hummi fram af sér tilmæli Samkeppniseftirlitsins árum saman. Dæmin um það eru mýmörg, til dæmis varðandi tilmæli stofnunarinnar á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og fyrri ábendingar hennar um samkeppnishætti á Keflavíkurflugvelli.

Ráðherrum ber að vinna eftir samkeppnislöggjöfinni og Samkeppniseftirlitinu ber að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði. Ráðherrar eiga ekki að hunza Samkeppniseftirlitið. Það er heiðarlegra að þeir segi þá bara skýrt að þeir standi með sérhagsmunum tiltekinna atvinnugreina, fyrirtækja eða stofnana og séu andvígir samkeppni á tilteknum sviðum.

Hvað finnst ráðherrunum?
Tilmælum Samkeppniseftirlitsins er beint að þremur ráðherrum; Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, sem skipar stjórnarmenn ríkisins í Isavia, Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra, sem fer með stefnumótun sem snýr að samgöngum í landinu, og Lilju Dögg Alfreðsdóttur ferðamála-, viðskipta og menningarmálaráðherra, sem fer með skipan ferðamála. Fjölmiðlar myndu gera margt vitlausara en að þýfga þessa ráðherra alla þrjá um afstöðu þeirra til tilmæla Samkeppniseftirlitsins. Við eigum að vita hvar við höfum þá sem með valdið fara í þessum efnum.

Grein Ólafs í Innherja

Nýjar fréttir

Innskráning