Hvað kosta loforðin þín fyrirtækið mitt?

19.10.2017

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 19. október 2017.

Það er enginn hörgull á dýrum kosningaloforðum þessa dagana. Margir flokkar lofa okkur því að nú verði loksins til nógir peningar í innviðina, menntakerfið, heilbrigðisþjónustuna og þannig mætti áfram telja. Eflaust vilja allir gera betur á flestum sviðum opinberrar þjónustu, en sumir virðast gleymnari en aðrir á það hver er raunveruleg uppspretta verðmætanna sem standa undir velferðinni – það er öflugt atvinnulíf, sem fær að vaxa og dafna. Sumir flokkar hafa talað fyrir allt upp í 50-75 milljarða auknum ríkisútgjöldum á ári, sem verða auðvitað ekki að veruleika nema ríkissjóður hækki tekjur sínar um samsvarandi upphæðir.

Flokkar sem segja okkur ósatt
Sömu flokkar eru hins vegar ekki skýrir í tali um hvernig eigi að hækka skatta til að ná meiri tekjum í ríkiskassann. Þegar þeir segjast ekki ætla að hækka skatta á „almenning“ heldur bara á þá ríkustu og tekjuhæstu eru þeir alveg áreiðanlega að segja okkur ósatt. Hækkanir skatta á þá hópa skila aðeins broti af tekjunum sem þarf til að fjármagna kosningaloforðin, eins og sýnt hefur verið fram á í fjölmiðlum undanfarna daga.

Stjórnmálamennirnir sem eru ófeimnastir við að lofa meiri útgjöldum eru líka fáorðir um skattahækkanir á fyrirtæki. Það er helzt að þeir vilji hækka auðlindagjöld og kolefnisskatta. Aftur er það svo að hækkanir þeirra gjalda og skatta duga skammt, þegar fjármagna á yfirdrifin kosningaloforð. Á endanum munu hækkanirnar ganga yfir öll fyrirtæki – rétt eins og síðast þegar ákveðið var að hækka skatta í kjölfar efnahagshrunsins.

Skattahækkanirnar eftir hrun
Það er reyndar ástæða til að rifja upp að þær hækkanir, sem í mörgum tilvikum var lofað að yrðu tímabundnar, hafa ekki gengið til baka nema að hluta til. Tekjuskatturinn, sem leggst á hagnað fyrirtækja, var 15% fyrir hrun. Hann var hækkaður í 20% og þar við situr.

Tryggingagjaldið, sem leggst á allar launagreiðslur fyrirtækja, var 5,34% fyrir hrun. Það var hækkað í 8,65% árið 2010. Þrátt fyrir ítrekuð loforð flestra stjórnmálaflokka um að hækkunin myndi ganga til baka hefur það ekki orðið. Það er nú 6,85%, einu og hálfu prósentustigi hærra en árið 2008. Rökin fyrir því að hækka það á sínum tíma voru að fjármagna þyrfti stórauknar atvinnuleysisbætur eftir hrun. Nú er atvinnuástandið betra en oftast áður, en tryggingagjaldið hefur ekki verið fært til fyrra horfs. Það þýðir að ríkisvaldið nýtir mestan hluta þess til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en atvinnuleysistryggingar.

Skattar og samkeppnishæfni
Skattagleðin er áhyggjuefni fyrir íslenzkt atvinnulíf. Þótt víða gangi vel um þessar mundir eru ýmsar blikur á lofti. Mörg nýsköpunarfyrirtæki hugsa sér til dæmis til hreyfings og telja starfsumhverfið á Íslandi ekki nægilega hagstætt. Vegna þróunar gengis krónunnar eru mörg útflutningsfyrirtæki í erfiðleikum. Staðreyndin er sú að sem fámennt land með lítinn heimamarkað, sveiflukenndan gjaldmiðil og tiltölulega langt frá helztu mörkuðum þarf Ísland að geta boðið fyrirtækjum betra skattaumhverfi en annars staðar, ekki lakara. Þótt loforðaglöðustu flokkarnir tali margir fallega um öflugt atvinnulíf fer lítið fyrir slíkri sýn hjá þeim.

Litlu fyrirtækin eru uppistaðan
Það er líka villandi þegar stjórnmálamenn þykjast ætla að hlífa „almenningi“ en taka skattana af fyrirtækjunum. Þá sjá eflaust flestir – og kannski þeir sjálfir – fyrir sér stóru fyrirtækin sem munar nú ekki um að borga svolítið meira. Staðreyndin er hins vegar sú að af um 17.200 fyrirtækjum á Íslandi sem greiða laun eru um 16.900 lítil fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn. Þessi fyrirtæki hafa helming launþega í vinnu og greiða helming af launum í landinu. Eigendur þeirra eru flestir ekki auðjöfrar heldur almenningur.

Það er óhætt að hvetja eigendur litlu fyrirtækjanna til að gefa sig á tal við frambjóðendurna, sem nú eru á hverju strái í verzlanamiðstöðvum, á götum úti og á kosningafundum og spyrja þá: Hvernig ætlarðu að fjármagna útgjöldin sem þú lofar? Hvað kosta loforðin þín fyrirtækið mitt? Og kannski má bæta við spurningunni: Hvernig ætlarðu að tryggja öflugt og samkeppnishæft atvinnulíf sem stendur undir velferðinni til framtíðar?

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning