Hvað kostar að gera ekkert?

07.03.2019

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu 7. mars 2019.

Það er enginn hörgull á heimsendaspám vegna frumvarps landbúnaðarráðherra, sem kveður á um að leyfa innflutning á fersku kjöti og eggjum og bregðast þannig við dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins. Bændasamtökin hafa látið reikna út fyrir sig tekjutap bænda upp á hátt í tvo milljarða en háværari eru þó raddirnar sem telja að sýklalyfjaónæmi og heilsu dýrastofna verði í hættu stefnt. Alls konar fólk stingur upp á því, til að verja hagsmuni bænda og heilsu tví- og ferfætlinga, að hunza bara dómstólana.

Samt er það nú svo að sóttvarna- og yfirdýralæknir hafa komizt að þeirri niðurstöðu að með afnámi frystiskyldu á kjöti, ásamt þeim mótvægisaðgerðum, sem frumvarpið kveður á um, sé hvorki heilsu fólks né búfjár í hættu stefnt.

Frumvarpinu fylgir líka mat Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði, á efnahagslegum áhrifum. Mat Daða er að ávinningur neytenda nemi um 900 milljónum. Tekjutap bænda verði ekki nema 500-600 milljónir, enda muni margir áfram reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir innlenda vöru.

Í greinargerðinni kemur réttilega fram að líkleg afleiðing þess að Ísland geri ekkert og haldi áfram að brjóta EES-samninginn, sé að Evrópusambandið taki aftur upp heilbrigðiseftirlit á landamærum gagnvart íslenzkum matvælum – og þá ekki bara búvörum heldur sjávarafurðum líka. Mat Daða Más er að skaði matvælaútflytjenda af þessu yrði að lágmarki 4,2 milljarðar króna. Að mati fólks sem starfar við útflutning ferskra sjávarafurða, þar sem hver klukkustund er dýrmæt svo að varan glati ekki verðgildi sínu, er sú tala í lægstu mörkum og líklegt að skaðinn yrði miklu meiri.

Erum við tilbúin í þann kostnað af þeirri ákvörðun að gera ekki neitt, fyrir utan þann skaða sem orðspori Íslands væri unninn með því að virða ekki samninga sem stjórnvöld hafa gert?

Nýjar fréttir

Innskráning