Hvað kostar þögn innviðaráðuneytisins?

16.02.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda í Viðskiptamogganum 16. febrúar 2022. 

Á markaðnum fyrir pakkapóstsendingar innanlands ríkti furðuástand frá upphafi árs 2020 og þar til 1. nóvember 2021. Á þessum tíma var í gildi pakkasendingaverðskrá ríkisfyrirtækisins Íslandspósts, sem var stórlega undirverðlögð og þannig í beinni andstöðu við ákvæði póstlaga um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þessi ólögmæta undirverðlagning bitnaði hart á fjölda póst- og vörudreifingarfyrirtækja um allt land, sem gátu ekki keppt við verð ríkisfyrirtækisins.

Pósturinn ákvað verðskrána á grundvelli annars ákvæðis í póstlögunum, sem var bætt inn í þau í árslok 2019 en afnumið í fyrra; að verð fyrir alþjónustu skyldi vera hið sama um allt land. Í stað þess að ákveða meðalverð, sem tæki mið af raunkostnaði, ákvað Pósturinn að láta verðið, sem hafði gilt fyrir flutninga innan höfuðborgarsvæðisins, gilda um allt land. Það var augljós undirverðlagning.

Félag atvinnurekenda gagnrýndi verðskrá Póstsins harðlega frá upphafi. Um þá gagnrýni var talsvert fjallað hér í Morgunblaðinu. Hinn 4. marz í fyrra birtist í blaðinu svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við spurningum blaðsins um málið og kom þar fram að ákvæðið um raunkostnað – sem er lykilatriði í póstlögunum og ætlað að koma í veg fyrir undirverðlagningu alþjónustuveitenda – væri „ekki að öllu leyti virkt“.

FA sendi ráðuneytinu erindi og benti á þá lögleysu sem í þessari túlkun fælist, t.d. vegna ákvæða stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins. Stofnanir framkvæmdavaldsins geta einfaldlega ekki tekið sér fyrir hendur að lýsa lög frá Alþingi óvirk. Félagið fékk svar frá Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra síðar í marzmánuði þar sem fram kom að ráðuneytið hefði eingöngu óskað eftir efnivið frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins og væri svarið lesið í heild og samhengi kæmi fram að ekki væri um afstöðu ráðuneytisins að ræða.

Gott og vel. Hvort sem þessi nýstárlega lagatúlkun er frá PFS eða ráðuneytinu komin, skiptir hún miklu máli fyrir samkeppnina á póstmarkaðnum. Á henni virðist nefnilega PFS hafa byggt ákvörðun sína, þar sem Póstinum voru m.a. ákvarðaðar 126 milljónir króna úr ríkissjóði vegna taps á pakkaflutningum. Þar með voru skattgreiðendur látnir greiða kostnaðinn af undirverðlagningu ríkisfyrirtækisins.

Afstaða ráðuneytisins, eins og henni var lýst í bréfinu til FA (afstöðuleysi er kannski réttara orðalag), virðist ekki hafa komizt til skila til Byggðastofnunar, sem tók við eftirliti með póstmálum 1. nóvember. Í viðtali við Morgunblaðið 17. desember sl. vísaði Hjalti Árnason, yfirlögfræðingur stofnunarinnar, í hið skriflega svar ráðuneytisins til Morgunblaðsins og sagði: Byggðastofnun og Póst- og fjarskiptastofnun taka undir þetta sjónarmið ráðuneytisins.“

Hér er vitleysan komin í tvo hringi; fyrst sver ráðuneytið af sér lagatúlkun Póst- og fjarskiptastofnunar, sem hafði eftirlit með póstlögunum, og svo kemur stofnunin sem tók við eftirlitinu og vísar í „sjónarmið ráðuneytisins“ sem ráðuneytið segist ekki hafa!

Þetta skiptir félagsmenn FA og önnur fyrirtæki í pakkadreifingu miklu máli, vegna þess að á grundvelli þessara „sjónarmiða ráðuneytisins“ hyggst Byggðastofnun á ný úrskurða Íslandspósti alþjónustuframlag, vegna þeirra tíu mánaða á síðasta ári sem hin ólöglega gjaldskrá var í gildi.

FA sendi ráðuneytinu (nú innviðaráðuneyti) bréf 25. janúar síðastliðinn og krafðist skýrra svara um það hvort ráðuneytið telji virkilega – og þá með hvaða rökum – að á þeim tíma sem ákvæðið um eitt verð fyrir allt land var í póstlögunum, hafi ákvæðið sem bannar undirverðlagningu verið óvirkt. Nú eru liðnar þrjár vikur og engin svör berast frá ráðuneytinu.

Í ljósi reynslunnar má gera ráð fyrir að sú þögn ráðuneytisins kosti skattgreiðendur á annað hundrað milljóna króna hið minnsta. Keppinautar Póstsins, sem misstu viðskipti vegna undirverðlagningar ríkisfyrirtækisins, fá tjón sitt hins vegar ekki bætt.

Erindi FA til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

 

Nýjar fréttir

Innskráning