Hvað vernda tollar?

22.10.2015

IMG_5519Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 22. október 2015.

Hvað verndar 30% tollur á sætar kartöflur, sem ekki eru ræktaðar á Íslandi? Hvað verndar 76% tollur á franskar kartöflur, sem eru framleiddar á Íslandi í mjög smáum stíl og að stærstum hluta úr innfluttu hráefni? Hvað verndar 30% verðtollur og 430 króna viðbótartollur á hvert kíló af Parmesanosti, sem á sér enga hliðstæðu í íslenzkri ostaframleiðslu?

Því er oft haldið fram að ofurtollar á mat séu nauðsynlegir til að vernda íslenzkan landbúnað og mikilvægi hans fyrir samfélag okkar. Ofangreind dæmi – og þau eru mörg fleiri – sýna vel að ekki gegna allir matartollar slíku hlutverki. Þeir bitna bara á neytendum, gera innflutning of dýran og draga úr vöruúrvali í matvörubúðunum.

Tollar á vörur á borð við alifugla- og svínakjöt þjóna ekki heldur því hlutverki að vernda hefðbundinn, íslenzkan landbúnað. Framleiðsla þessara vara fer að stærstum hluta fram á stórum verksmiðjubúum sem rekin eru af fáum fyrirtækjum og staðsett í grennd við þéttbýli. Þar við bætist að þessar matvælagreinar anna hvergi nærri innlendri eftirspurn. Innflutningur er nauðsynlegur til að tryggja margumrætt fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er þá nær að fella niður af honum tollana en að gera innfluttu vöruna miklu dýrari en hún þyrfti að vera.

Félag atvinnurekenda lagði fram í gær tillögur sínar um breytingar á matartollum, en þær eru hluti af viðamikilli skýrslu sem félagið hefur unnið um matartollana og áhrif þeirra. FA vill að matartollar verði lækkaðir um helming á afurðum hefðbundins landbúnaðar en felldir alveg niður á alifugla- og svínakjöti. Sömuleiðis ætti að afnema tolla á sætu kartöflunum, frönskunum, Parmesanostinum, kengúrukjötinu og öllum hinum vörunum sem eru í rauninni ekki í samkeppni við neina innlenda búvöruframleiðslu.

Okkur finnst þetta vera rétti tíminn til að efna til umræðu um þetta mál. Stjórnvöld afnámu vörugjöld í fyrra og stefna að afnámi tolla af öllum vörum öðrum en mat á næstu tveimur árum. Það er engin rökrétt ástæða til að undanskilja matinn í þessari góðu viðleitni til að auka frelsi í milliríkjaviðskiptum.

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning