Hvaðan kemur fjármagnið í samkeppnisrekstri Íslandspósts?

07.12.2017

Félag atvinnurekenda hefur sent stjórn Íslandspósts (ÍSP) bréf, þar sem óskað er svara við ýmum spurningum sem varða samkeppnishætti fyrirtækisins.

Í bréfinu er bent á að þrátt fyrir að blekið sé varla þornað á sátt Íslandspósts við samkeppnisyfirvöld virðist sem stjórnendur ÍSP hafi ekki í hyggju að breyta háttsemi sinni með nokkrum hætti. Ekki leið á löngu frá því sáttin var undirrituð þar til koma þurfti til inngrips af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem tekin var bráðabirgðaákvörðun til stöðva aðgerðir ÍSP sem beint var gegn keppinautum fyrirtækisins á söfnunarmarkaði.

Hagræði af minni þjónustu notað til að niðurgreiða samkeppnisrekstur?
Nú hafa stjórnendur ÍSP tilkynnt að fækka eigi dreifingardögum bréfapósts, sem að stærstum hluta fellur innan einkaréttar, til að bregðast við óviðunandi afkomu ÍSP á síðustu árum. Í tilkynningu ÍSP um það efni segir m.a.:

„Þetta hefur jafnframt haft töluverð áhrif á rekstrarafkomu Íslandspósts sem hefur verið óásættanleg á síðustu árum en nauðsynlegur árlegur hagnaður til að standa undir skuldbindingum og endurnýjun rekstrarfjármuna er um [Fjarlægt vegna trúnaðar] en töluvert hefur vantað upp á það á síðustu árum.“

„Þessi rök verða að teljast nokkuð sérstök í ljósi þess að fyrir liggur að umtalsverður hagnaður hefur verið af starfsemi einkaréttar um langt árabil á sama tíma og viðvarandi tap hefur verið á samkeppnishliðinni. Þetta liggur raunar í hlutarins eðli, þar sem lög kveða á um að verðskrá einkaréttarþjónustunnar skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættri hæfilegri álagningu og hefur ÍSP þannig sótt tuga prósenta hækkanir á gjaldskrá einkaréttar á undanförnum árum, á sama tíma og gjaldskrár samkeppnisþjónustu hafa hækkað lítið sem ekkert,“ segir í bréfi FA. „Ekki verður annað ráðið af tilkynningunni en að stjórnendur ÍSP ætli að ráðstafa því hagræði sem næst fram með fækkun dreifingardaga innan einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins til niðurgreiðslu á samkeppnisrekstri. Enn og aftur virðist því sem stjórnendur ÍSP hafi ekki í hyggju að virða þá sátt sem fyrirtækið hefur nýlega undirgengist. Eitt af meginmarkmiðum sáttarinnar er einmitt að koma í veg fyrir hvers konar víxlniðurgreiðslu samkeppnisrekstrar og er þar m.a. fjallað ítarlega um hver viðbrögð eigi að vera við taprekstri innan móðurfélags sem og í dótturfélögum þess.“

Ófullnægjandi upplýsingagjöf um reksturinn
Í bréfinu er ennfremur vísað í úttekt Fjárstoðar ehf. sem unnin var fyrir félagið, en þar kemur fram að í ársreikningum ÍSP megi finna fjölmörg dæmi þess að mikilvægum upplýsingum og jafnvel lögboðnum upplýsingum sé haldið eftir, eða framsetning sé svo villandi að ætla megi að um ásetning sé að ræða.

FA óskar eftir að stjórn ÍSP veiti svör við eftirfarandi:

  1. Óskað er eftir að fá yfirlit yfir þær leiðréttingarfærslur sem færðar hafa verið innan einkaréttar á grundvelli alþjónustubyrði vegna áranna 2008 til 2016, með þeim afleiðingum að afkoma þess starfsþáttar er sýnd lakari en hún í raun er.
  2. Óskað er eftir að fá yfirlit yfir raunafkomu mismunandi rekstrarþátta frá árinu 2006, þar sem leiðréttingarfærslur vegna alþjónustubyrði hafa verið bakfærðar og upphæðir mismunandi rekstrarþátta sem færðar hafa verið í samtölu undir liðnum eignarekstri færðar innan þess rekstrarþáttar sem þær í raun tilheyra.
  3. Í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Willum Þór Þórssyni um eftirlit með rekstri Íslandspósts og póstþjónustu, þingskjali 1241 á 145. löggjafarþingi, kemur fram að heildarfjármagnskrafa samkeppnisrekstrar utan alþjónustu hafi verið um 27 mkr. árið 2014. Það liggur fyrir að á þeim tíma voru lán til dótturfélaga a.m.k. 345 m.kr. (ePóstur/Samskipti ehf.) auk þess sem ÍSP hafði varið umtalsverðu fjármagni til kaupa á félögum og til uppbyggingar og fjárfestinga í samkeppnisrekstri utan alþjónustu innan móðurfélagsins. Sem dæmi um samkeppnisrekstur innan móðurfélagsins má nefna uppbyggingu sendibílaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og helstu þéttbýlisstöðum með tilheyrandi fjárfestingum (húsnæði, bifreiðar, tæki o.fl.), flutningaþjónustu (húsnæði, bifreiðar, tæki o.fl.), verslunarrekstur, ePóst (flutt í dótturfélag), fjölpóst, vöruhótel o.s.frv.  Það er vandséð hvernig ca. 275 milljónir eiga að hafa staðið undir öllum fjárfestingum og uppbyggingu ÍSP í samkeppnisrekstri utan alþjónustu á undanförnum árum ásamt að lágmarki 345 m.kr. lánum til dótturfélaga.  Getur stjórn ÍSP staðfest að rétt hafi verið staðið að útdeilingu fjármagnskröfu niður á starfsþætti vegna ársins 2014?
  4. Getur stjórn ÍSP, í ljósi þess að viðvarandi taprekstur hefur verið á samkeppnishlið ÍSP, upplýst hver sé uppruni þess fjármagns sem ríkisfyrirtækið hefur nýtt til sóknar inn á hina ýmsu samkeppnismarkaði á undanförnum árum?
  5. Telur stjórn ÍSP að fyrirtækinu sé heimilt að draga úr lögbundinni grunnpóstþjónustu (alþjónustu) til að bregðast við viðvarandi taprekstri á samkeppnishlið fyrirtækisins?
  6. Í meðfylgjandi úttekt kemur fram að í ársreikningum ÍSP megi finna fjölmörg dæmi þess að mikilvægum upplýsingum og jafnvel lögboðnum upplýsingum sé haldið eftir, eða framsetning svo villandi að ætla megi að um ásetning sé að ræða. Er stjórn ÍSP reiðubúin að beita sér fyrir því að upplýsingagjöf og reikningsskil fyrirtækisins taki af allan vafa um að lögum og reglum sé fylgt og sanngjarnir samkeppnishættir stundaðir?
  7. Er stjórn ÍSP reiðubúin að staðfesta að fyrirtækið muni ekki ráðast í frekari aðgerðir til að reyna að fella niður afslætti til stórnotenda/söfnunaraðila með tilheyrandi skaða fyrir samkeppnisumhverfið, sbr. ákvörðun PFS nr. 23/2017?

Í niðurlagi bréfsins segir að ástæða sé  til að rifja upp að samkvæmt 68. gr. hlutafélagalaga beri stjórn Íslandspósts að hafa eftirlit með því að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. „Það hlutverk stjórnar er undirstrikað í stjórnarháttayfirlýsingu fyrirtækisins. Þá kveður 5. grein siðareglna Íslandspósts á um að starfsmenn félagsins séu skyldugir að fara að landslögum. Samkvæmt 4. grein starfsreglna stjórnar Íslandspósts hafa stjórnarmenn aðgang að þeim gögnum um félagið sem nauðsynleg eru til að þeir geti sinnt stjórnunar- og eftirlitsskyldu sinni. Stjórn félagsins ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að svara spurningum félagsins með skýrum og skilmerkilegum hætti,“ segir í bréfi FA.

Nýjar fréttir

Innskráning