Íslensk-kínverska viðskiptaráðið (ÍKV) gengst fyrir málþingi miðvikudaginn 26. maí kl. 16, undir yfirskriftinni „Hvenær koma kínversku ferðamennirnir og erum við tilbúin að taka á móti þeim?“ Málþingið verður haldið í fundarsal Félags atvinnurekenda á 9. hæð í Húsi verslunarinnar.
Kínverskum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað hratt undanfarin ár og voru þeir 139 þúsund árið 2019, eða um 7% af öllum ferðamönnum sem komu til landsins. Í ársbyrjun 2020 stóð ÍKV ásamt fleiri aðilum fyrir fjölsóttu málþingi um móttöku kínverskra ferðamanna, en þar kom fram að margt mætti gera betur til að Kínverjum fyndust þeir velkomnir og öruggir á Íslandi. Skömmu síðar brast heimsfaraldurinn á og lokað var fyrir ferðalög Kínverja um heiminn, en nú stefnir í að rofi til á ný. Á málþinginu er ætlunin að taka stöðuna; hvað hefur gerst síðastliðið ár varðandi undirbúning komu kínverskra ferðamanna og hverjar eru horfurnar fyrir komandi misseri.
Dagskrá:
Setning málþingsins
Jónína Bjartmarz formaður ÍKV
Ávarp
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi
Virði Kínamarkaðar fyrir íslenska ferðaþjónustu
Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar
Bjóðum Kínverja velkomna á Keflavíkurflugvöll
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia
Verkefni Íslandsstofu í markaðssetningu í Kína
Þorleifur Þór Jónsson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu
Aðalfundur ÍKV verður haldinn á undan málþinginu, kl. 15. Hann er eingöngu opinn aðildarfyrirtækjum ÍKV.
Athugið: Fundarsalurinn okkar er nú fullsetinn og hefur verið lokað fyrir skráningu. Málþinginu verður streymt á Facebook-síðu ÍKV.