Hvenær lækkar bjórskatturinn?

04.10.2023

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 4. október 2023

Áfengisskattar á Íslandi eru þeir hæstu í hinum vestræna heimi. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga næsta árs á enn að hækka þá, að þessu sinni um 3,5%. Þetta er minni hækkun en í fjárlögum þessa árs, en með þeim voru áfengisskattarnir hækkaðir um 7,7%, talsvert umfram hækkun samræmdrar vísitölu neyzluverðs, á sama tíma og meginþorri Evrópuríkja hélt áfengissköttum óbreyttum. Þetta þýddi að Ísland bætti enn Evrópumetið í skattheimtu af neytendum áfengra drykkja.

Þótt hækkunin sem nú er lögð til sé minni en verðbólga ársins, er hún engu að síður umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans og mun að sjálfsögðu stuðla að hærra verðlagi áfengra drykkja og þar með meiri verðbólgu – þótt markmið fjárlagafrumvarpsins eigi að vera að vinna gegn henni. Samkvæmt útreikningum Félags atvinnurekenda þýðir skattahækkunin um áramót að verð léttvínsbelju hækkar um u.þ.b. 200 krónur. Kippa af algengum bjór hækkar um 60 krónur.

Hinir gríðarháu áfengisskattar á Íslandi bitna ekki bara á neytendum, heldur líka á atvinnulífinu. Fráleitlega hátt áfengisverð á Íslandi skaðar þannig samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og veitingageirans. Framleiðsla áfengis er sömuleiðis hraðvaxandi atvinnugrein á Íslandi og í sterkum tengslum við ferðaþjónustuna. Langmest er framleitt af bjór, þar sem alls konar nýsköpun stórra og smárra fyrirtækja hefur búið til störf um allt land.

Það skýtur þess vegna verulega skökku við að áfengisskattur á hvern sentilítra vínanda í bjór, sem er framleiddur í stórum stíl á Íslandi, sé mun hærri en á vínandann í léttvíni, sem er alls ekki framleitt á Íslandi. Rökin fyrir því eru alls ekki augljós. Stjórnmálamenn hafa af og til uppi stór orð um að þeir vilji styðja við nýsköpun og frumkvæði í atvinnulífinu, ekki sízt úti um land. Lækkun á áfengisgjaldi á bjór – eða að hætta hinum árlegu hækkunum – væri slík aðgerð.

Nýjar fréttir

Innskráning