„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 15. september 2022
Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að hækka duglega hæstu áfengisskatta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Áfengisgjald verður hækkað um 7,7%. Í verzlunum Fríhafnarinnar verður skatturinn hækkaður um 150%; úr 10% af fullu gjaldi í 25%.
Margir tapa á þessari skattahækkun. Í fyrsta lagi auðvitað neytendur, sem eru væntanlega hissa á þessu framlagi ríkisstjórnarinnar til baráttunnar gegn verðbólgu. Þeir sem hafa minnst á milli handanna tapa mest. Skattahækkunin leggst þyngra á ódýrari tegundir vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala sem leggst á áfengismagn. Þeir sem eru vanir að kaupa dýrari tegundir finna minna fyrir skattahækkuninni.
Í öðru lagi versnar samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar. Það þykir tilheyra í fríi að leyfa sér að kaupa drykk og drykk til að njóta á veitingastað eða bar. Nú fjölgar væntanlega enn ferðamönnum sem segja öllum vinum sínum á samfélagsmiðlum að Ísland sé fallegt og fólkið gestrisið – en verðlagið glæpsamlegt.
Í þriðja lagi tapa minni framleiðendur áfengis, sérstaklega sterkra drykkja, sem selja stóran hluta framleiðslu sinnar í fríhafnarverzlunum. Verðið á vöru þeirra mun hækka svo mikið að ferðamenn kaupa sér frekar flösku í fríhöfn erlendis.
Loks hallar á Fríhöfnina í samkeppni hennar við erlendar fríhafnarverzlanir. Neytendur eru engir kjánar og bera saman verð. Það sem á að auka tekjur af sölu í Fríhöfninni getur reynzt tvíeggjað sverð.
Félag atvinnurekenda hefur margoft bent á að áfengisskattar séu komnir út úr öllu korti og frekar ástæða til að vinda ofan af þeim en bæta í. Ríkisstjórnin lætur það ekki hafa áhrif á sig – en rökstyður ekki heldur af hverju eigi að skattpína Íslendinga svona miklu meira en nágrannaþjóðirnar þegar kemur að skatti á þessa einu neyzluvöru.