Hvítþvegnir englar?

05.03.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 5. mars 2020.

Félag atvinnurekenda hefur farið fremst í flokki þeirra sem gagnrýnt hafa samkeppnishætti Íslandspósts ohf. Ríkisfyrirtækið hefur verið í harðri samkeppni við einkafyrirtæki, oft á sviðum sem hafa ekkert með póstþjónustu að gera. Uppruni fjármagns sem fjárfest hefur verið í samkeppnisrekstrinum hefur verið á huldu – ekki einu sinni Ríkisendurskoðun virðist geta svarað því með afgerandi hætti hvort það fé hafi komið úr einkaréttarrekstri fyrirtækisins eða ekki. Reksturinn er sveipaður þoku sem engin eftirlitsstofnun virðist hafa sýn í gegnum.

Í vikunni bárust fréttir af því að Pósturinn hefði selt síðasta dótturfélag sitt í samkeppnisrekstri, ríkisprentsmiðjuna Samskipti. Það eru góðar fréttir. Pósturinn hefur líka selt Frakt flutningsmiðlun og Gagnageymsluna og sameinað ePóst móðurfélaginu. Síðastnefndi gjörningurinn er reyndar brot á sátt Póstsins við Samkeppniseftirlitið. Pósturinn er hættur að selja sælgæti, gjafavöru, leikföng, bækur, ritföng og fleira í beinni samkeppni við verzlunina í landinu. Það eru líka góðar fréttir.

Er Íslandspóstur þá orðinn fyrirtæki hvítþveginna engla í samkeppnismálum? Ef það væri nú svo gott. Staðreyndin er sú að Pósturinn er enn í harðri samkeppni við einkaframtakið á ýmsum sviðum. Til dæmis í pakkaflutningum, sem eru vissulega að hluta til alþjónusta sem fyrirtækinu ber að sinna – en samkvæmt nýrri gjaldskrá tekur verðið fyrir pakkaflutninga út um land mið af kostnaði við pakkasendingar innanbæjar í höfuðborginni. Pósturinn vill að skattgreiðendur borgi það sem upp á vantar sem geta orðið milljarðar króna á næstu árum. Fyrirtækið rekur áfram stærsta sendibílaflota landsins, í harðri samkeppni við sendibílastöðvar. Það hefur komizt upp með að færa gjöld vegna sendibílaþjónustu á einkarétt og alþjónustu og haldið þannig gjaldskrá þessarar samkeppnisþjónustu niðri.

Pósturinn hefur ekki lengur einkarétt á bréfasendingum, en fær hins vegar greiðslur frá skattgreiðendum sem við fyrstu sýn virðast notaðar til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Það er því áfram ástæða til að fylgjast vel með samkeppnisháttum ríkisfyrirtækisins.

 

Nýjar fréttir

Innskráning