Í alvöru?

13.10.2017

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, á Vísi 13. október 2017

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, horfir á innlendar mjólkurvörur. Elín M. Stefánsdóttir telur að framkvæmdastjóri FA hafi gert lítið úr þjáningum fólks í alræðisríkinu – reyndar með orðum sem aldrei voru sögð.

Elín M. Stefánsdóttir, bóndi og stjórnarkona í Auðhumlu, móðurfélagi Mjólkursamsölunnar, skrifar grein um tollvernd á búvörum á Vísi í dag og skammar framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

Hún segist fyrir nokkrum vikum hafa heyrt viðtal við framkvæmdastjórann á Rás 1, „ þar sem hann sagði að „…ef tollar verða ekki felldir niður af matvælum á Íslandi erum við á sama stað og Norður-Kórea.“! Í alvöru?,“ spyr Elín og kannski ekki að furða.

Svo heldur hún áfram: „Ég er nokkuð viss um að Yeonmi Park sem kom til landsins á dögunum og íbúar Norður-Kóreu séu honum ekki sammála. Þeir myndu sjálfsagt fegnir vilja skipta fengju þeir val. Í Norður-Kóreu eru framin margvísleg mannréttindabrot. Mér finnst framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gera lítið úr þeim hörmungum sem íbúar Norður-Kóreu þurfa að þola með svona ummælum. Er það brot á mannréttindum að hafa tollvernd á matvælum sem við getum framleitt hér? Í alvöru?“

Til glöggvunar fyrir lesendur, sem kunna að vera sammála Elínu í ályktunum hennar um það hvernig framkvæmdastjóri FA geri lítið úr hörmungum Norður-Kóreubúa skal upplýst að tollvernd var bara alls ekki til umræðu í þættinum á Rás 1, nánar tiltekið Vikulokunum 26. ágúst síðastliðinn. Þar var rætt um fiskeldi og áhættuna af erfðablöndun og fisksjúkdómum vegna sjókvíaeldis. Framkvæmdastjóri FA setti það mál í samhengi við umræðuna um áhættu vegna innflutnings á matvörum, m.a. í tenglsum við fípróníl-hneykslið á meginlandi Evrópu.

Svo sagði framkvæmdastjórinn (þegar 8 mínútur og 23 sekúndur voru liðnar af þættinum): „Áhættan er einhver. Það eru til tæki til að stýra henni með eftirliti, tilkynningakerfi og svo framvegis. En ef við ætlum að útiloka áhættuna þá erum við augljóslega að missa af einhverjum tækifærum. Ef við ætlum að útiloka áhættuna á að hingað berist nokkurn tímann einhver matur með eiturefnum utan úr heimi eða eitthvert dýra- eða sýklasmit eða eitthvað slíkt, þá nátturlega bara hættum við innflutningi og verðum Norður-Kórea og missum fyrir vikið af mjög stórum efnahagslegum tækifærum. Það þarf alltaf að vega þetta og meta og ég hef á tilfinningunni að varðandi fiskeldið sé þessi umræða bara ekkert búin.“

Svo mörg voru þau orð. Tollvernd var ekki til umræðu. Elín hefur kolrangt eftir undirrituðum og dregur bandvitlausar ályktanir af orðum sem aldrei voru sögð. Með öðrum orðum rangfærslur og útúrsnúningar. Það er óhætt að spyrja hvort þetta séu í alvöru vinnubrögðin sem fólk sem gegnir ábyrgðarstöðum í samtökum bænda vill viðhafa þegar það fjallar um landbúnaðinn. Við svona greinarhöfunda er engin leið að eiga orðastað, annan en að reyna að leiðrétta bullið.

 Grein Ólafs Stephensen á Vísi

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning