Icewear Magasín í Austurstræti hlýtur í ár Njarðarskjöldinn, hvatningarverðlaun til ferðamannaverslana í Reykjavík. Verðlaunin voru afhent í gær við athöfn í Hvalasýningunni við Fiskislóð. Að viðurkenningunum standa Félag atvinnurekenda, Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Samtök verslunar og þjónustu, Kaupmannasamtök Íslands, Global Blue á Íslandi og Tax Free Worldwide Ísland.
Njarðarskjöldurinn var nú veittur í tuttugasta sinn en markmið verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar verslunarþjónustu við ferðamenn í Reykjavík. Njörður, sem skjöldurinn er kenndur við, var upphaflega frjósemisguð en síðar guð sæfarenda og sagður fésæll mjög. Sæfarendur þess tíma stunduðu gjarnan kaupskap og því við hæfi að kenna árleg hvatningarverðlaun til ferðamannaverslunar við guð siglinga og viðskipta.
Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.