ÍEV styður EES-frumvarp utanríkisráðherra

19.04.2023

Stjórn Íslensk-evrópska verslunarráðsins, sem Félag atvinnurekenda hýsir og rekur, hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Stjórn Íslensk-evrópska verslunarráðsins lýsir yfir eindregnum stuðningi við frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra um breytingar á lögunum um Evrópska efnahagssvæðið. Í breytingunni felst að ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum, sé ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skuli það fyrrnefnda ganga framar.

Í þessu felst að bætt er úr galla á innleiðingu EES-samningsins í íslensk lög, þjóðréttarskuldbindingar Íslands eru uppfylltar og réttaröryggi bæði einstaklinga og fyrirtækja er betur tryggt.

Stjórn ÍEV telur EES-samninginn mikilvægasta milliríkjasamning sem gerður hefur verið í þágu íslensks atvinnulífs og samfélags. Hann hefur falið í sér gífurlegar framfarir og íslensk fyrirtæki reiða sig í sífellt ríkari mæli á þau réttindi sem þau njóta á stærsta innri markaði heims í krafti ákvæða samningsins um einsleitt efnahagssvæði. Sú staða er komin upp í íslensku réttarkerfi að vegna ófullnægjandi innleiðingar EES-samningsins er einsleitni reglna á Evrópska efnahagssvæðinu ekki tryggð. Íslensk fyrirtæki hafa jafnvel mátt una því að ákvæði meginmáls EES-samningsins, sem enginn vafi leikur á að var innleitt í íslensk lög, hafa ekki komið til skoðunar í dómsmálum þar sem önnur lagaákvæði hafa stangast á við þau.

Það er því mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins að frumvarp utanríkisráðherra nái fram að ganga. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að með því sé vegið að stjórnarskránni eða gengist undir erlent vald, eins og haldið hefur verið fram í umræðunni undanfarið. Það sem verður skýrt er að ef íslensk lög byggð á EES-samningnum og önnur íslensk lög stangast á, hafa EES-ákvæðin forgang. Það tryggir einsleitt efnahagssvæði, sem er brýnt hagsmunamál íslenskra fyrirtækja.“

Tilgangur Íslensk-evrópska verslunarráðsins er að efla verslunar– og viðskiptasambönd milli Íslands og Evrópusambandsins. Sérstakt viðfangsefni ráðsins er að beita sér fyrir því að rekstur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi sem best og að allir aðilar samningsins standi við skuldbindingar sínar samkvæmt honum.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning