ÍKV tekur á móti viðskiptasendinefnd frá Dalian

07.08.2015
IMG_4829
Zhang Kai Hua, formaður Viðskiptaráðs Dalian, og Ársæll Harðarson, formaður ÍKV.

Stjórn og framkvæmdastjóri Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins tóku í morgun á móti viðskiptasendinefnd frá Dalian-borg í Kína. Á fundinum kom fram áhugi Kínverjanna á auknum viðskiptum við Ísland, meðal annars fjárfestingum í ferðaþjónustu og kaupum á makríl af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Dalian er ein helsta hafnarborgin í Norðaustur-Kína og mikil flutninga- og fjármálamiðstöð. Þar er ennfremur rekinn öflugur sjávarútvegur og fiskvinnsla. Zhang Kai Hua, formaður Viðskiptaráðs Dalian, sagði á fundinum að mikil tækifæri gætu falizt í viðskiptum við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, ekki sízt kaupum á gæðahráefni til vinnslu. Þar voru tegundir eins og lax og makríll nefndar sem dæmi.

Zhang sagði að ráðið vildi efla áhuga ferðamanna frá Dalian á Íslandsferðum. Þá sagði hann kínverska fjárfesta áhugasama um að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustu á Íslandi, til dæmis hótelbyggingum.

IMG_1474 (1)
Stjórn og framkvæmdastjóri ÍKV hittu viðskiptasendinefndina frá Dalian í fundarsal Félags atvinnurekenda.

Í viðskiptasendinefndinni var meðal annarra Ding Weili, stjórnandi hjá Weally, sem er einn af stærstu framleiðendum vökvakerfa í heiminum. Hann lýsti áhuga sínum á að mynda tengsl við hugsanlega viðskiptavini á Íslandi.

Viðskiptaráð Dalian er deild í Viðskiptaráði Kína (China Council for the Promotion of International Trade). Skrifstofa Viðskiptaráðs Dalian er reiðubúin að koma áhugasömum íslenskum fyrirtækjum í samband við kínversk fyrirtæki í Dalian. Lin Lin, einn af fulltrúunum í viðskiptasendinefndinni, er reiðubúin að miðla fyrirspurnum. Senda má henni póst á netfangið linlin@ccpit.org.

Nýjar fréttir

Innskráning