Illt er að reka svört svín í myrkri

31.08.2016

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 31. ágúst 2016. 

Framkvæmdastjóri FA svarar rangfærslum svína- og kjúklingaframleiðenda.
Framkvæmdastjóri FA svarar rangfærslum svína- og kjúklingaframleiðenda.

Formenn félaga svína- og kjúklingaræktenda, þeir Ingimundur Bergmann og Björgvin Jón Bjarnason, skrifuðu dæmalausa grein í Kjarnann í gær um afstöðu Félags atvinnurekenda og undirritaðs til upprunamerkinga á matvælum. Óhætt er að segja að þar sé flestu snúið á haus sem á annað borð er hægt að hafa endaskipti á. Röksemdafærsla greinarhöfunda er svo óskýr og byggð á svo miklum rangfærslum að óneitanlega kemur gamall íslenzkur málsháttur um óhönduglega smölun búfénaðar að næturlagi upp í hugann.

Í fyrirsögn greinarinnar er spurt: „Af hverju vill FA leyna upprunanum?“ Í texta greinarinnar er haldið áfram: „Fram kom hjá Ólafi í áðurnefndu viðtali að hann telur að krafa um upprunamerkingu innfluttra landbúnaðarvara sé „tæknileg viðskiptahindrun.“

Upprunamerkingar eða heilbrigðiskröfur?
Höfundarnir gleyma reyndar að geta þess hvert „áðurnefnt“ viðtal var, en gera má ráð fyrir að þeir eigi við viðtal við undirritaðan í tíufréttum RÚV 22. ágúst síðastliðinn. Þar voru reglur um upprunamerkingar á kjöti ekki til umræðu, heldur sú tillaga starfshóps landbúnaðarráðherra að „stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings, m.t.t. gæðakrafna, einkum og sér í lagi að því er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.

Þessi tillaga verður ekki skilin öðruvísi en svo að starfshópurinn vilji hafa stífari heilbrigðiskröfur á Íslandi til kjötinnflutnings frá öðrum EES-ríkjum en önnur EES-ríki gera til kjötinnflutnings frá Íslandi. Slíkt er óheimilt, eins og staðfest hefur verið í dómi EFTA-dómstólsins. Reglur um upprunamerkingar eru hins vegar allt annar hlutur.

Annaðhvort skilja greinarhöfundar ekki muninn á heilbrigðiskröfum og upprunamerkingum eða þeir fara hér vísvitandi með rangt mál. FA og undirritaður hafa aldrei talað gegn því að hér á landi gildi skýrar reglur um að matvörur séu merktar með upprunalandi, þvert á móti. Í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar um búvörusamningafrumvarpið er hvatt til þess að innleiðingu reglna Evrópusambandsins um upprunamerkingar á kjöti verði hraðað hér á landi. Félag atvinnurekenda er sammála þeirri tillögu og hefur greint nefndarmönnum í atvinnuveganefnd frá því. Félagið styður almennt að hér á landi gildi sömu reglur fyrir atvinnulífið og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, líka í þessum efnum.

Er taílenzkur kjúklingur seldur sem danskur?
Í viðtalinu við RÚV sagði undirritaður: „ Í þriðja lagi er lagt til að herða heilbrigðiskröfur gagnvart innflutningnum og það er nú gamalkunnug tæknileg viðskiptahindrun. Þarna er verið að tala um innflutning frá löndum Evrópusambandsins, það eru vörur sem hafa farið í gegnum heilbrigðiseftirlit samkvæmt sömu reglum og gilda hér á landi. Þetta er algjörlega sama löggjöfin.“

Í grein sinni segja Ingimundur og Björgvin: „Ólafur hélt því fram, í umræddu við­tali, að um innflutt kjöt giltu nákvæmlega sömu reglur og það innlenda. Þarna má gera ráð fyrir að Ólafur viti betur. Staðreyndin er sú, að óvissa ríkir um uppruna stórs hluta þess kjöts sem íslensk fyrirtæki flytja inn. Til að mynda, er flutt  inn mikið af kjúklingakjöti frá Danmörku, en dönsk fyrirtæki kaupa stóran hluta þess kjúklingakjöts frá Tælandi og þar gilda allt aðrar reglur en í Evrópusambandinu. Hvorki dönsk né íslensk innflutningsfyrirtæki þurfa að geta þess að hluti kjötsins sé upprunninn í Tælandi.“

Hér er aftur ruglað saman heilbrigðisreglum og reglum um upprunamerkingar. Auk þess fara forkólfar íslenzkrar iðnaðarframleiðslu á kjúklinga- og svínakjöti hér með rangt mál. Í Danmörku hafa frá 1. apríl 2015 gilt stífar reglur um upprunamerkingu kjöts, þar sem kveðið er skýrt á um að merkja skuli kjöt bæði með upprunalandi og sláturlandi. Komi kjötið frá ríkjum utan Evrópusambandsins ber að taka það skýrt fram.

Tilraun fulltrúa skemmubúskaparins til að hræða neytendur með því að kjúklingurinn sem þeir kaupa sé mögulega taílenzkur fellur því um sjálfa sig. Eftir því sem undirrituðum er bezt kunnugt er innflutningur stærstu innflytjenda á kjúklingakjöti frá Danmörku danskur að uppruna og merktur sem slíkur.

Hitt er svo annað mál að vara þarf ekki að vera slæm þótt hún komi frá landi sem er langt í burtu. Ekki eru mörg ár síðan stærstu dýraverndunarsamtök Bretlands, RSPCA, ollu miklu uppnámi hjá kollegum Ingimundar og Björgvins þegar þau færðu rök fyrir því að betur væri farið með dýrin á taílenzkum og brazilískum kjúklingabúum en á verksmiðjubúum í Bretlandi. Pottur er víða brotinn í dýravelferð, ekki sízt í verksmiðjulandbúnaði. Þar er íslenzkur verksmiðjulandbúnaður því miður ekki undanskilinn eins og nýleg dæmi sanna.

Neytendur eiga að fá upplýsingar og hafa val
Í grein sinni segja Ingimundur og Björgvin: „Félag atvinnurekenda  virðist ekki vilja að neytendur hafi þetta val, að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvaðan kjötið sem þeir velja að neyta er upprunnið.“ Þetta er alröng fullyrðing. FA vill ekki leyna uppruna vöru og leggst ekki „gegn því að neytendur verði upplýstir um uppruna þess kjöts sem þeir kaupa sér út í búð.“ Það er einfaldlega lygi.

Félag atvinnurekenda vill að innflutningur á búvöru sé sem frjálsastur og upprunamerkingar í góðu lagi. Þannig hafa neytendur valið og geta tekið upplýsta ákvörðun um innkaupin. Málflutningur svína- og kjúklingaræktenda hefur hins vegar aðallega gengið út á að hefta eigi innflutninginn og taka þannig valið af neytendum.

Grein Ólafs í Kjarnanum

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning