Indland er land tækifæranna

15.06.2016
DSC_0039
Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri og Rajiv Kumar Nagpal, sendiherra Indlands.

„Indland er land tækifæranna um þessar mundir,“ sagði Rajiv Kumar Nagpal, sendiherra Indlands í Reykjavík, á aðalfundi Íslensk-indverska viðskiptaráðsins, sem haldinn var í fundarsal Félags atvinnurekenda í morgun.

Nagpal sagði að Íslendingar og Indverjar hefðu ekki nýtt til fulls þau gríðarlegu tækifæri sem lægju í viðskiptum á milli landanna. Löndin gætu átt samstarf um að koma sprotafyrirtækjum á laggirnar. Hugbúnaðargerð, gagnaver og nýting jarðhita væru geirar þar sem væru miklir möguleikar. Sendiherrann nefndi að Indverjar hefðu kortlagt 350 möguleg jarðhitasvæði og vildu endilega nýta sérþekkingu Íslendinga til að virkja orku þeirra.

Hann benti jafnframt á að núverandi stjórnvöld á Indlandi hefðu lagt mikla áherzlu á að draga úr hindrunum í vegi erlendrar fjárfestingar í landinu með því að einfalda regluumhverfið og draga úr skriffinnsku. „Það eru tækifæri fyrir öll fyrirtæki að taka þátt í þróun og uppbyggingu indversks efnahagslífs og það eru gagnkvæmir hagsmunir,“ sagði sendiherrann.

Þarf að endurskilgreina hlutverkið
Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, benti í sínu innleggi á fundinum á að eðli viðskiptatengsla hefði breytzt. Það væri auðvelt fyrir fyrirtæki að leita uppi samstarfsaðila á internetinu. Endurskilgreina þyrfti hlutverk fyrirtækjasamtaka á borð við ÍIV. Stóru fyrirtækin þyrftu enga hjálp við að komast í viðskiptatengsl á milli landa eins og Íslands og Indlands, en ástæða væri til að skoða hvað mætti gera betur fyrir smærri fyrirtækin. Bala sagði frá viðræðum milli Startup Iceland, sem hann stýrir, og 10,000 Startups á Indlandi, um samstarf sprotafyrirtækja milli landanna.

IMG_0527
Engilbert Hafsteinsson ræddi starfsemi WOW Air á Indlandi.

Að þora að taka skrefið
Engilbert Hafsteinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs WOW Air, sagði frá verkefni WOW við útvistun símsvörunar í þjónustuveri til Indlands. Nauðsynlegt hefði verið að bregðast við gífurlega hröðum vexti fyrirtækisins með því að efla þjónustuverið og erfitt hefði verið að stækka það nógu hratt á Íslandi. WOW hefur því gert samning við indverska fyrirtækið IGT, dótturfyrirtæki Interglobe, sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu. Engilbert sagðist í upphafi hafa haft áhyggjur af atriðum eins og fjarlægðinni milli landanna, þjálfun starfsfólks, samskiptum og hvort hægt væri að viðhalda „WOW-faktornum“ í þjónustunni og hinu sérstaka viðmóti sem viðskiptavinir ættu að upplifa.

Hann sagði að ferlið hefði gengið betur en forsvarsmenn WOW hefðu þorað að vona. Þjálfunarferlið hefði verið gífurlega strangt og skipulagt. Um 25 manns starfa nú við símsvörun og bakvinnslu fyrir WOW á Indlandi, flestir vel menntaðir með háskólapróf. Árangurinn hefði ekki látið á sér standa; símsvörun hefði farið upp um 25% og fyrirtækið fengið hrós fyrir góða þjónustu. Aðstaða starfsmannanna sem þjónusta viðskiptavini WOW er máluð í einkennislitum fyrirtækisins og taka starfsmennirnir virkan þátt í hópefli og hvatningu fyrirtækisins. Niðurstaðan væri sú að verið væri að skoða að fá IGT í fleiri verkefni á sviði bakvinnslu hjá WOW.

IMG_0522
Frá aðalfundi ÍIV í morgun.

„Þið ættuð ekki að vera hrædd við að taka skrefið. Ég var það í upphafi, en nú ætla ég bara að stækka það,“ sagði Engilbert.

Ný stjórn ÍIV
Í stjórn ÍIV voru kjörin þau Bala Kamallakharan, formaður, Engilbert Hafsteinsson, meðstjórnandi, og Anna Hedvig Þorsteinsdóttir, sölustjóri hjá Lýsi, meðstjórnandi.

Glærur Engilberts

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning