Innflutningskvóti ónýtist vegna verkfalls – ráðuneytið vill ekki hliðra til

10.07.2015


IMG_2879Vegna átta vikna verkfalls starfsmanna Matvælastofnunar hafa ýmis fyrirtæki sem flytja inn mat orðið fyrir tjóni vegna þess að viðkvæm vara á borð við osta og aðrar mjólkurvörur stóð á hafnarbakkanum, rann út og varð ósöluhæf. Við tjónið bætist nú að sum fyrirtæki geta ekki fullnýtt innflutningskvóta sinn á búvörum. Atvinnuvegaráðuneytið hefur þannig synjað beiðni Innness
ehf. um að tollkvóti sem gefinn er út samkvæmt WTO-samningnum verði framlengdur sem nemur þeim tíma er verkfall stóð, eða 8 vikur.

WTO-tollkvótarnir eru gefnir út fyrir tímabilið 1. júlí til 30. júní árið eftir. Undanfarin ár hefur verið venja að ráðuneytið hefur framlengt heimild til innflutnings á lægri tollum, sem tollkvótarnir heimila, út júlí. Þannig hafa fyrirtæki fengið svigrúm til að koma sendingum sem pantaðar voru undir lok tímabilsins til landsins. Í ár óskaði Innnes eftir framlengingu á tollkvóta fyrir osta í átta vikur umfram það sem venjan er, til að mæta áhrifum átta vikna verkfalls. Á meðan á því stóð forðuðust fyrirtæki að flytja til landsins vörur með stutt geymsluþol.

Enn eitt dæmið um stífni ráðuneytisins
Þessu erindi Innness hefur verið synjað af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins, án rökstuðnings. Það stefnir því í að fyrirtækið geti ekki fullnýtt tollkvóta sem það hefur greitt fyrir háar fjárhæðir í útboðsgjald.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það sé bagalegt fyrir fyrirtæki að lenda í þessari aðstöðu. „Þessi viðbrögð atvinnuvegaráðuneytisins eru því miður enn eitt dæmið um að ráðuneytið sýnir hámarksstífni og forðast eins og heitan eldinn að hliðra til fyrir þeirri litlu erlendu samkeppni sem innlendir búvöruframleiðendur fá,“ segir Ólafur. „Það er löngu orðið tímabært að taka allt þetta kerfi sem varðar innflutningsheimildir á búvörum til gagngerrar endurskoðunar.“

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning