Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 6. maí 2020.
Ísland er harðbýlt land og hagkerfið lítið og fremur einhæft. Ekki er hægt að framleiða innanlands nema lítinn hluta þeirra nauðsynja sem landsmenn þurfa á að halda. Ísland er því háðara innflutningi en mörg önnur lönd – og um leið háðara útflutningi en flest önnur hagkerfi, ekki sízt þar sem við eigum gjöful fiskimið og flytjum út margfalt meiri sjávarafurðir en við neytum sjálf. Af þessum sökum á Ísland meira undir frjálsum og greiðum milliríkjaviðskiptum en flest önnur ríki.
Í ljósi þessa er mikið fagnaðarefni að þrátt fyrir að ýmis atvinnustarfsemi hafi stöðvazt í heimsfaraldri COVID-19 veirunnar hefur tekizt að viðhalda órofnum vöruflutningum til og frá landinu. Framboð á innfluttum vörum, jafnt á nauðsynjum fyrir neytendur og aðföngum sem innlendir framleiðendur þurfa á að halda, hefur að langmestu leyti haldizt óskert. Það getum við ekki sízt þakkað samstilltu átaki starfsmanna flutningafyrirtækja og innflutningsverzlunarinnar, sem hafa endurskipulagt reksturinn þannig að hann verði fyrir sem minnstum áhrifum vegna heimsfaraldursins og nýtt erlend viðskiptasambönd til að tryggja nægt framboð af innfluttum vörum.
Í ljósi þessara staðreynda er holur hljómur í málflutningi þeirra sem vilja nýta reynsluna af heimsfaraldrinum til að leggja steina í götu frjálsrar milliríkjaverzlunar með tollum eða öðrum innflutningshöftum. Það er hið bezta mál ef stjórnvöld og hagsmunasamtök innlendra framleiðenda vilja hvetja fólk til að kaupa íslenzkar vörur. En menn ættu ekki að gleyma því að fæst innlend framleiðsla getur án innfluttra aðfanga verið, til dæmis hráefna, áburðar, fóðurs, eldsneytis, umbúða, vélbúnaðar, varahluta og þannig mætti áfram telja. Það sýnir bezt hvað t.d. innlend landbúnaðarframleiðsla er háð innfluttum aðföngum að gengisbreytingar eru tilgreindar sem ástæða verðhækkana á innlendum kjötvörum.
Það er líka hið bezta mál ef grænmetisbændur vilja t.d. auka framleiðslu sína til að mæta vaxandi eftirspurn, en það er ekki þörf á slíku vegna þess að skortur sé á innfluttu grænmeti, eins og formaður Bændasamtakanna gaf í skyn í viðtali, heldur vantar einfaldlega innlenda framleiðslu á markaðinn, eins og margir grænmetisbændur viðurkenna greiðlega.
Fullyrðingar um að Ísland þurfi að vera sjálfbært um nauðsynjar þarf að skoða í ljósi ofangreindra staðreynda. Við verðum alltaf háð innflutningi. Með því að „hindra […] innflutning á vörum sem við erum algjörlega sjálfbær í að framleiða sjálf“ eins og einn af talsmönnum landbúnaðarins lagði til á dögunum, er verið að draga úr þeirri samkeppni, sem innlend framleiðsla þarf nauðsynlega að hafa. Undanfarið hefur verið rifjað upp hvernig ýmis ríki brugðust við kreppunni miklu á síðustu öld með því að hækka tolla, undir því yfirskini að verið væri að vernda innlenda framleiðslu og störf. Afleiðingarnar urðu skelfilegar og hagkerfi á borð við það bandaríska rétti ekki úr kútnum fyrr en höftum var aflétt.
Höfum líka í huga að frjáls milliríkjaverzlun er ekki einstefnugata. Við skulum vona heitt og innilega að þeir sem tala fyrir því í öðrum ríkjum að settir verði tollar á sjávarafurðir af því að heimaland þeirra geti alveg verið sjálfu sér nægt um fisk, hafi ekki erindi sem erfiði.
Tillögur um hærri tolla eru oft settar fram undir yfirskini þess að tryggja þurfi „fæðuöryggi“. Eins og áður var rakið, færi fæðuöryggið fyrir lítið ef innlend framleiðsla hefði ekki aðgang að innfluttum aðföngum. Fólk getur líka velt því fyrir sér hvernig komið væri fyrir fæðuöryggi Íslendinga ef allar innfluttar matvörur vantaði í hillur búðanna vegna heimsfaraldursins.
Óhindruð milliríkjaviðskipti hafa stuðlað að því að tryggja öryggi almennings í heimsfaraldrinum, bæði hvað varðar aðgang að mat og annarri nauðsynjavöru og ekki síður hvað varðar lyf og búnað fyrir heilbrigðiskerfið og aðföng til innlendrar framleiðslu. Í því ljósi er sérkennilegt að sumir vilji nú reka hornin í innflutningsverzlunina og leggja steina í götu hennar.