Innflutt kjöt stenst strangar heilbrigðiskröfur

05.02.2015

b0d8e8f5906e3f4dÓlafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var í viðtali á Bylgjunni í morgun og brást þar meðal annars við hræðsluáróðri Haraldar Benediktssonar, alþingismanns og fyrrverandi formanns Bændasamtakanna, um að innflutt kjöt væri lakari vara en það íslenska, meðal annars vegna meiri lyfjanotkunar í landbúnaði ESB-ríkja.

Ólafur benti á að allt kjöt sem flutt er inn til landsins stenst strangar heilbrigðiskröfur stjórnvalda á Íslandi og í Evrópusambandinu. Sama matvælalöggjöf gildir á báðum stöðum og Ísland hefur tekið upp strangari kröfur í matvælaframleiðslu vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hann sagði frá því að erlendir birgjar íslenskra kjötinnflytjenda uppfylltu strangar kröfur um innra og ytra eftirlit með heilbrigði og hollustu, vottuð gæðakerfi og rekjanleika vörunnar niður á einstakar skepnur. Innflytjendur á kjöti áttuðu sig á því að þeir þjónuðu kröfuhörðum markaði, í samkeppni við innlenda gæðaframleiðslu, og flyttu inn gæðavöru.

Ólafur sagði að sjálfsagt mál væri að ræða lyfjanotkun, heilbrigði og aðbúnað dýra við framleiðslu búvara, „en það er ekki bara hægt að bera saman Ísland í heild og Þýskaland í heild. Það er mikill munur á milli framleiðenda,“ sagði Ólafur og rifjaði til dæmis upp umræðu hér innanlands um mismunandi aðbúnað hænsna á hænsnabúum. „Okkar röksemdafærsla hjá Félagi atvinnurekenda hefur fyrst og fremst verið sú að neytendur eigi að geta valið. Það á að vera hægt að flytja inn kjöt á lágum eða helst engum tollum … og það þarf að vera umræða og upplýsing á meðal neytenda. Talandi um Þýskaland og Danmörku, þá er þar verið að framleiða kjöt ofan í gríðarlega kröfuharðan markað. Ég hugsa að Danir og Þjóðverjar séu ef eitthvað er kröfuharðari á matinn sinn en við hérna. Það er miklu meiri neytendavitund.“

Ólafur vakti jafnframt athygli á því að stóraukinn innflutningur á kjöti væri ekki til kominn af því að stjórnvöld hefðu að fyrra bragði rýmkað um innflutningsheimildir, heldur hefði það verið gert af því að skortur hefði verið á kjöti á innanlandsmarkaði. „Þetta margumtalaða fæðuöryggi, sem hefur verið notað til að réttlæta gríðarlega háa innflutningstolla, hefur bara ekki verið tryggt. Innlenda framleiðslan hefur ekki annað eftirspurn,“ sagði Ólafur.

Viðtal við Ólaf Stephensen á Bylgjunni

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning