Innleiðingarhallinn minnkar – fjögur mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum

15.07.2016

Drapeaux européens devant le Berlaymont

Markmið Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, um að hraða innleiðingu nýrra EES-reglna og fækka málum fyrir EFTA-dómstólnum vegna misbrests á innleiðingu, eru enn langt frá því að nást þótt nokkuð hafi miðað í áttina.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti í gær yfirlit um frammistöðu einstakra EES-ríkja við að innleiða í landsrétt nýjar reglur Evrópusambandsins sem gilda fyrir allt svæðið. Noregur stendur sig best allra EES-ríkja; þar voru allar gerðir innleiddar á réttum tíma. Ísland stendur sig hins vegar verst; 1,8% nýrra EES-gerða höfðu ekki verið innleiddar innan tilskilins frests.

Í mars 2014 setti ríkisstjórnin sér Evrópustefnu með tveimur tölulegum markmiðum um innleiðingu nýrra EES-reglna. Annars vegar átti að vera búið að koma innleiðingarhallanum undir 1% á fyrri hluta ársins 2015. Hins vegar átti ekkert mál að vera fyrir EFTA-dómstólnum á sama tíma vegna misbrests á innleiðingu.

Innleiðingarhallinn var þegar Evrópustefnan var sett 3,1% og talsverður árangur hefur því náðst. Samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda aflaði í dag eru hins vegar fjögur mál fyrir EFTA-dómstólnum vegna misbrests á innleiðingu, einu færri en í október síðastliðnum þegar ESA gaf út síðasta yfirlit.

„Það eru út af fyrir sig ánægjulegar fréttir að það skuli saxast á innleiðingarhallann og málum fyrir dómstólnum fækka,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Í báðum tilvikum er staðan hins vegar enn langt frá því að vera eins og hún á að vera og er ekki í samræmi við þau markmið sem voru sett fyrir rúmum tveimur árum. Stefnan er góð, en það þarf augljóslega enn að setja meiri fjármuni og mannskap til að koma henni í framkvæmd. Við verðum að komast á þann stað að stjórnsýslan geti einbeitt sér að því að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja og almennings á mótunarstigi EES-reglna, í stað þess að eltast stöðugt við innleiðingarhallann og sóa tíma og fjármunum í dómsmál sem hefði mátt forðast.“

Ólafur segir það mikið hagsmunamál íslenskra fyrirtækja að sömu reglur gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. „Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að umhverfið sé einsleitt og réttindi fólks og fyrirtækja þau sömu hér og í öðrum löndum EES.“

Hér að neðan eru tenglar á málin fjögur gegn Íslandi sem enn eru fyrir EFTA-dómstólnum vegna misbrests á innleiðingu reglna.

E-30/15
E-31/15
E-33/15
E-34/15

Fréttatilkynning ESA

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins

 

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning