Innlent=hreint, útlent=óhreint?

21.01.2019

Pistill Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á mannlif.is 21. janúar 2019. Styttri útgáfa pistilsins birtist í prentútgáfu Mannlífs 18. janúar.

Einkennilega svarthvít umræða hefur spunnizt um innflutning matvæla í framhaldi af dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins, þess efnis að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk brjóti í bága við EES-samninginn.

Býsna margir virðast þeirrar skoðunar að ekki eigi að fara að dómsniðurstöðunni. Er þá ýmist vísað til efnahagslegra hagsmuna innlendra framleiðenda búvara eða sjónarmiða um dýra- og lýðheilsu. Ýmsir halda því fram að erlent kjöt og jafnvel grænmeti eigi alls ekki að flytja inn, nema þá í undantekningartilfellum.

Sjónarmið prófessors við HÍ, sem vill viðhalda samningsbrotunum, hafa vakið talsverða athygli, en hann segir mikla vá standa fyrir dyrum vegna innflutnings á mat, bæði kjöti og grænmeti, vegna þess að sýklalyfjanotkun í landbúnaði sé meiri í öðrum Evrópuríkjum en hér á landi og hætta sé á að innflutningur vinni gegn sýklalyfjaónæmi hjá Íslendingum.

Við þennan málflutning má gera margvíslegar athugasemdir. Í fyrsta lagi liggur til dæmis fyrir að innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn. Ef ekki hefði verið flutt inn bæði kjöt og grænmeti á undanförnum árum hefði orðið skortur, með tilheyrandi verðhækkunum og fátæklegu úrvali í verzlunum og skerðingu á lífskjörum almennings.

Annað sjónarmið er að óháðir sérfræðingar, sem Félag atvinnurekenda hefur fengið sér til ráðgjafar, telja að ekki séu haldbær rök fyrir þeirri afstöðu að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu sýklalyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu sýklalyfjaþols en innflutningur á matvælum.

Þriðja sjónarmiðið er að áhættu vegna viðskipta með mat er aldrei hægt að útiloka, en margir virðast halda að með því að loka landinu fyrir innfluttum mat sé það hægt. Það er fullkomlega ómálefnalegt að halda því fram að heimurinn sé svarthvítur og innlend framleiðsla sé hrein og laus við sjúkdóma eða bakteríur, en erlend vara sé óhrein og sýkt. Ríkisútvarpið upplýsti til dæmis í síðustu viku að sýklalyfjaónæmar bakteríur hefðu fundizt í innlendum kjötvörum. Í sömu viku voru sagðar fréttir af því að innlendur kjúklingaframleiðandi hefði þurft að innkalla vörur vegna salmonellasmits. Ef við ætlum að útiloka áhættuna, verðum við einfaldlega að sleppa því að borða. Og svo má auðvitað snúa dæminu við og spyrja: Ef niðurstaða mælinga sýndi að innflutt vara væri „hreinni“ en innlend, ætti þá að hætta innlendu framleiðslunni?

Fjórða ábendingin er að sérfræðingar eru almennt sammála um að hvað varðar hættuna á bæði smiti dýrasjúkdóma og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis séu aðrir áhættuþættir stærri en þeir sem tengjast matvörum. Annars vegar er gífurleg fjölgun ferðamanna hér á landi og stóraukin ferðalög Íslendinga til útlanda. Hins vegar eru ófullnægjandi frárennslismál víða um land. Þrátt fyrir þetta leggur enginn til að ferðamönnum sé haldið frá landinu eða ferðalög Íslendinga til útlanda takmörkuð. Ferðamenn eru þvert á móti boðnir velkomnir, tugþúsundum saman, á íslenzk býli þar sem bæði er ræktað grænmeti og haldnar skepnur. Og t.d. sveitarstjórnir sem vanrækja að hafa frárennslismál í lagi eru ekki bornar sömu sökum um að vilja vega að heilbrigði þjóðarinnar og þeir sem vilja tryggja frjáls viðskipti með mat.

Í fimmta lagi liggur alveg ljóst fyrir að það væri brot á alþjóðasamningum Íslands að viðhalda banninu við innflutningi á ferskvöru. Nýjar takmarkanir á innflutningi á mat væru brot á sömu samningum. Hvort tveggja gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir hagsmuni íslenzks atvinnulífs. Þegar samið var um frjálst flæði ferskra búvara við Evrópusambandið á sínum tíma var það ekki gert í tómarúmi, heldur í samhengi við að matvælalöggjöf Evrópusambandsins var einnig innleidd hér landi hvað sjávarafurðir varðaði. Íslenzkur fiskur er fluttur annarra EES-ríkja án þess að sæta heilbrigðiseftirliti á landamærum með tilheyrandi töfum og kostnaði, sem er gífurlegt hagsmunamál íslenzks sjávarútvegs. Með brotum á EES-samningnum eða samningi við ESB um tvíhliða viðskipti með búvörur væri verið að stefna þeim hagsmunum í hættu.

Það tengist svo sjöttu athugasemdinni, sem er óhjákvæmilegt að gera við málflutning þeirra sem halda því fram að hér togist á góð sjónarmið um lýðheilsu annars vegar og vond sjónarmið um viðskiptahagsmuni hins vegar. Staðreyndin er sú að frjáls milliríkjaviðskipti eru undirstaða hagsældar Íslendinga. Sú hagsæld stendur meðal annars undir rekstri góðs heilbrigðiskerfis og matvælaeftirlits, sem tryggir öryggi matarins sem við látum ofan í okkur. Að stilla þessu upp sem andstæðum er ekki málefnalegt.

Þegar öllu er á botninn hvolft, getum við ekki varið okkur fyrir áhættu vegna sjúkdóma með því að loka landinu, hvorki fyrir vörum né fólki. Við eigum að virða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og hafa viðskipti og samskipti milli landa sem frjálsust. Um leið eigum við  að viðhafa strangt eftirlit og grípa til aðgerða ef hætta steðjar að – og hafa samstarf um slíkt við nágrannalönd okkar, eins og ríki Evrópska efnahagssvæðisins gera. Þannig tryggjum við bæði hagsæld og heilsu.

Mannlíf, 3. tölublað 2019
Pistillinn á mannlif.is

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning