Átta EES-tilskipanir um afnám tæknilegra viðskiptahindrana hafa ekki verið innleiddar

07.07.2017

Aftur hefur sigið á ógæfuhliðina hvað varðar innleiðingu EES-reglna á Íslandi. Innleiðingarhallinn svokallaði, þ.e. hlutfall reglna sem ekki hafa verið leiddar í lög á Íslandi á réttum tíma, var í lok ársins 2016 2,2% samkvæmt nýjustu úttekt Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Samkvæmt viðmiðum ESA og Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá 2014 ætti innleiðingarhallinn ekki að vera meiri en 1%.

ESA gerir úttekt á frammistöðu EFTA-ríkjanna tvisvar á ári. Innleiðingarhalli Íslands var mestur í nóvember 2013, 3,2%. Svo tókst smám saman að vinna á málastaflanum og var hallinn kominn í 1,8% í nóvember 2015. Eftir það hefur sigið á ógæfuhliðina á ný. Samkvæmt Evrópustefnunni, sem samþykkt var í mars 2014, átti að vera búið að koma innleiðingarhallanum undir 1% á fyrri hluta ársins 2015. Það markmið hefur aldrei náðst.

Jafnframt átti ekkert mál vegna misbrests á innleiðingu að vera fyrir EFTA-dómstólnum á sama tíma. Það markmið náðist ekki heldur á tilsettum tíma, en nú bregður hins vegar svo við að í fyrsta sinn um nokkurt skeið bíður ekkert mál gegn Íslandi vegna misbrests á innleiðingu meðferðar EFTA-dómstólsins.

Tvö mál ESA gegn Íslandi bíða meðferðar, en þau eru vegna innflutningsbanns á fersku kjöti annars vegar og banns við innflutningi á ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk hins vegar. Málin hafa verið sameinuð og verða flutt samtímis fyrir dómstólnum.

Stór hluti hallans varðar frjáls vöruviðskipti
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það sé áhyggjuefni að samkvæmt samantekt ESA varði átta af átján EES-tilskipunum, sem ekki hafa verið innleiddar í tíma, afnám tæknilegra hindrana í vegi frjálsra vöruviðskipta. „Það er mikið hagsmunamál atvinnulífsins að sömu reglur gildi hér á landi og í öðrum ríkjum EES, ekki síst til að milliríkjaviðskipti gangi snurðulaust fyrir sig. Við höfum hvatt til þess að stjórnvöld setji að minnsta kosti tímabundið aukinn mannskap og fjármuni í að rétta af innleiðingarhallann og komið þeim sjónarmiðum okkar á framfæri við starfshópinn sem vinnur nú að endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar til framtíðar. Kröftum embættismanna ráðuneytanna og sendiráðs Íslands í Brussel á að verja til að hafa áhrif á EES-löggjöf á mótunarstigi hennar, ekki í endalausan eltingaleik við tilskipanahalann og að berjast í vonlausum dómsmálum fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning