Ísland græðir mest á EFTA-samstarfinu

16.11.2017

Ísland er það aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, sem græðir mest á samstarfinu. Þetta er mat Aðalsteins Leifssonar, eins af framkvæmdastjórum EFTA, sem flutti erindi um fríverslunarsamninga EFTA á fundi Félags atvinnurekenda og Indversk-íslenska viðskiptaráðsins í morgun. Í erindi Aðalsteins kom fram að á rúmum áratug hefur átjánfaldast hlutfall utanríkisviðskipta Íslands við ríki utan EES sem EFTA hefur fríverslunarsamninga við. Þetta hlutfall var 0,3% árið 2006 en er nú 5,4%.

„Líklega hagnast ekkert EFTA-ríkjanna á samstarfinu innan EFTA eins og Ísland,“ sagði Aðalsteinn. Hann sagði að Sviss og Liechtenstein, sem eru í tollabandalagi, væru mikilvægur markaður fyrir marga viðsemjendur EFTA og Noregur væri 20 sinnum fjölmennari markaður en Ísland og hefði meiri slagkraft í fríverslunarviðræðum. „Mótaðilinn er ekki mættur til að semja bara við Ísland; það sem dregur hann að samningaborðinu eru væntanlega svissneski og norski markaðurinn. Þegar menn eru að reyna að teygja sig yfir og loka samningum, eru það iðulega vinir okkar í Sviss og Noregi sem hafa getað lagt eitthvað á borðið sem gerir að verkum að mótaðilinn er reiðubúinn að klára samninginn. Við njótum mjög góðs af því að vera í samfloti með EFTA-ríkjunum en að sama skapi hefur Ísland verið einstaklega uppbyggilegur samstarfsaðili í EFTA-fjölskyldunni,“ sagði Aðalsteinn.

Erfiðar viðræður við Indland
Hann ræddi um fríverslunarviðræður EFTA og Indlands, sem hafa verið langar og erfiðar. Sautján samningalotur hafa farið fram, sem er einsdæmi í sögu EFTA. Það sem nú stendur út af í viðræðunum er einkum þrennt; í fyrsta lagi markaðsaðgangur fyrir iðnaðarvörur og sjávarafurðir frá EFTA-ríkjunum, í öðru lagi álitamál varðandi tímabundna dvöl starfsmanna indverskra starfsmanna, sem er einkum vandamál fyrir Svisslendinga, og í þriðja lagi vernd hugverka, en Indland er umsvifamikið á sviði framleiðslu samheitalyfja og hefur lyfjageirinn í Sviss áhyggjur af þeim þætti málsins.

Áskoranir í viðræðum um landbúnaðarvörur
Aðalsteinn sagði að EFTA-ríkin væru sammála um að standa vörð um innlendan landbúnað og hefðu mest samið um tollfrelsi fyrir 60% af tollalínum í landbúnaði við Kólumbíu. Ef EFTA ætlaði hins vegar að semja um fríverslun við Bandaríkin eða Mercosur-ríkin í Suður-Ameríku, þar sem þessi ríki myndu leggja mikla áherslu á markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur.

Fundurinn var í beinni útsendingu á Facebook-síðu FA og má sjá upptöku af honum í spilaranum hér að neðan.

Glærur Aðalsteins Leifssonar

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning