Íslandspóstur býr tortryggnina til sjálfur

06.10.2016

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 6. október 2016.

Posturinn logoViðskiptablaðið birti í síðustu viku viðtal við Ingimund Sigurpálsson, forstjóra Íslandspósts, undir fyrirsögninni „Rangfærslur og dylgjur“. Það er einkunnin sem forstjórinn velur gagnrýni greinarhöfundar og Reynis Árnasonar, framkvæmdastjóra Póstmarkaðarins, á samkeppnishætti og upplýsingagjöf Íslandspósts, sem kom fram í blaðinu 22. september síðastliðinn. Sú gagnrýni sneri meðal annars að dótturfyrirtækinu ePósti, sem þróar rafrænar póstsendingar, í beinni samkeppni við einkafyrirtæki.

FA og aðildarfélög þess, á borð við Póstmarkaðinn, hafa sett fram málefnalega og rökstudda gagnrýni á ríkisfyrirtækið Íslandspóst. Við höfum vísað til ársskýrslna fyrirtækisins, álitsgerða og ákvarðana Póst- og fjarskiptastofnunar, laga og reglugerða sem gilda um fyrirtækið og úttekta sem við höfum látið fagmenn vinna fyrir okkur. Forstjóranum er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvað hann kallar slíkt. Sjálfur virðist hann ekki alltaf með öll efnisatriðin á hreinu.

Talað í hringi
Ingimundur talar þannig í marga hringi í viðtalinu og lendir ýmist í mótsögn við það sem áður hefur komið fram af hálfu Íslandspósts eða þá það sem hann segir sjálfur í sama viðtali.

Þannig segir forstjórinn nú: „Íslandspóstur er ekki með neitt lögboðið hlutverk.“ Í svörum Íslandspósts í frétt Viðskiptablaðsins 15. september, um taprekstur ePósts og vaxtalausar lánveitingar ríkisfyrirtækisins til þessa dótturfélags síns, sagði hins vegar að þróun rafrænna póstsendinga væri liður í að fylgja eftir„lögbundnu verkefni fyrirtækisins sem sé að þróa póstþjónustu í samræmi við tæknilega möguleika og nýjungar.“

Forstjórinn vísar síðan til 6. greinar póstlaga því til stuðnings að Íslandspóstur eigi að standa í þessum samkeppnisrekstri. Sú lagagrein fjallar hins vegar eingöngu um svokallaða alþjónustu, sem ríkinu ber að tryggja landsmönnum. Nokkrum setningum síðar í viðtalinu upplýsir forstjórinn að kostnaðurinn sé færður á samkeppnisrekstur utan alþjónustu og staðfestir þar með að ePóstur hefur ekkert með lögbundið hlutverk Íslandspósts í almannaþágu að gera!

Ríkið í vaxandi samkeppni við einkafyrirtæki
Það er óumdeilt að Íslandspóstur hefur á undanförnum árum farið í beina samkeppni við einkafyrirtæki á æ fleiri sviðum, skyldum og óskyldum grunnrekstri fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur seilzt inn á markaði fyrir sælgætis- og minjagripasölu, sendibílaþjónustu, hraðflutninga, rafrænar póstsendingar, gagnageymslu, prentþjónustu og flutningsmiðlun, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Forsvarsmenn Íslandspósts hafa ekki getað svarað því með sannfærandi hætti hvers vegna ríkisvaldið, sem hefur dregið sig út úr samkeppnisrekstri á flestum öðrum sviðum undanfarna áratugi, á að færa út kvíarnar á þessum sviðum. Svar forstjóra Íslandspósts í áðurnefndu viðtali er einfaldlega: „Það er því stjórn og stjórnendur Íslandspósts sem taka ákvörðun um það í hvaða rekstri félagið er fyrir utan það verkefni sem við sinnum fyrir ríkið.“ Frekari rökstuðningur óþarfur.

Fleiri svör forstjórans bera vott um að fyrirtækinu sé fremur stýrt af hroka en af virðingu gagnvart eigendunum, skattgreiðendum, og keppinautunum, sem eru æ fleiri fyrirtæki í landinu. Hann vísar þannig til þess að ekki sé skylda á Íslandspósti að birta svokallað starfsþáttayfirlit í ársreikningi. Það er raunar kveðið á um það í reglugerð um um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda að Íslandspóstur skuli halda einkaleyfisrekstri, samkeppnisrekstri innan alþjónustu og samkeppnisrekstri utan alþjónustu, vandlega aðgreindum í bókhaldi og gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir þeirri aðgreiningu og afkomu hvers þáttar.

Birting upplýsinga er forsenda trausts
Það liggur svo í augum uppi að forsenda trausts á því að fyrirtækið fari að ákvæðum samkeppnislaga og póstlaga um að niðurgreiða ekki samkeppnisrekstur með tekjum af einkaleyfisrekstrinum, er opinber birting þessara upplýsinga. Sú gagnrýni, sem Félag atvinnurekenda hefur sett fram á framgöngu Íslandspósts, snýst að stórum hluta um að upplýsingagjöfin hefur verið ófullnægjandi. Þess vegna ríkir sú tortryggni í garð Íslandspósts, sem Ingimundur Sigurpálsson sakar FA um að ala á. Stjórnendur fyrirtækisins hafa til dæmis ekki getað sýnt fram á uppruna þess fjármagns, sem farið hefur í gríðarlegar fjárfestingar í samkeppnisrekstri fyrirtækisins.

Ingimundur segir í viðtalinu: „Við hættum reyndar á tímabili að birta þær [upplýsingar um afkomu starfsþátta] í ársreikningi vegna þeirrar rangtúlkunar sem þyrlað var upp.“ Það er ekki rétt. Eins og fram kom í skýringum við ársreikninga Íslandspósts á umræddu tímabili var hætt að birta starfsþáttayfirlitið vegna þess að Póst- og fjarskiptastofnun samþykkti ekki þann kostnaðargrunn, sem Íslandspóstur lagði til grundvallar.

Forstjórinn fullyrðir jafnframt að einkaréttarrekstur Íslandspósts standi rétt svo undir sér. Þá gleymir hann að nefna að vegna „leiðréttingarfærslna“ stjórnenda Íslandspósts upp á hundruð milljóna króna árlega, þar sem kostnaður samkeppnisrekstrar er færður á einkaréttinn, hefur afkoma einkaréttarhlutans verið sýnd mun lakari en hún í raun er.

Í úttekt á fjárreiðum Íslandspósts, sem unnin var fyrir FA og Póstmarkaðinn, er átalið að ekki sé gerð grein fyrir þessum færslum í ársreikningi og jafnframt að rekstrartekjur og rekstrargjöld dótturfélaga séu færð á starfsþáttinn „eignarekstur“ en ekki „samkeppni utan alþjónustu“ þrátt fyrir að starfsemi þeirra sé í öllum tilfellum í samkeppnisrekstri utan alþjónustu og þau falli því undir skilgreiningu síðarnefnda starfsþáttarins. Þetta gerir að verkum að jafnvel þótt starfsþáttayfirlit sé birt, gerir það utanaðkomandi ekki kleift að átta sig á því hvort Íslandspóstur fari að lögum um aðgreiningu einkaleyfis- og samkeppnisrekstrar.

Í umboði ráðherrans
Forstjóri Íslandspósts hefur stór orð um að Félag atvinnurekenda skuli „nota stöðu sína og afl til þess að rægja og ala á tortryggni í garð eins fyrirtækis, jafnvel þótt það sé í eigu ríkisins.“

Um þetta er tvennt að segja. FA elur ekki á neinni tortryggni í garð Íslandspósts. Pósturinn býr hana til sjálfur með ófullnægjandi upplýsingagjöf um rekstur sinn, eins og áður er rakið. Í annan stað er FA félagsskapur einkafyrirtækja, einkum minni og meðalstórra, og gætir hagsmuna þeirra, meðal annars gagnvart stjórnvöldum. Rekstur Íslandspósts er á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins, sem situr í umboði fjármálaráðherra, en hann fer með alla hluti í félaginu. Þegar FA gagnrýnir ósanngjarna samkeppni við einkafyrirtæki af hálfu Íslandspósts er það þáttur í því hlutverki félagsins að gæta hagsmuna aðildarfyrirtækja sinna gagnvart stjórnvöldum. Það hlutverk hyggst FA rækja af samvizkusemi.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning