Íslandspóstur sektaður fyrir brot á sátt við Samkeppniseftirlitið

06.03.2020

Samkeppniseftirlitið (SE) hefur, í kjölfar kvartana Félags atvinnurekenda, sektað Íslandspóst ohf. um fimm milljónir króna vegna brota ríkisfyrirtækisins á sátt sem það gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2017. Íslandspóstur viðurkennir brot sín og gengst undir sektina, samkvæmt sátt sem gerð var við samkeppnisyfirvöld í desember síðastliðnum, en áður hafði fyrirtækið neitað því eindregið að hafa brotið gegn sáttinni frá 2017.

Íslandspóstur viðurkennir að hafa brotið sáttina með tvennum hætti:

  • Með því að óska ekki eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en rekstur ePósts ehf. var færður inn í móðurfélagið, Íslandspóst, og því áður en sameining félaganna komst til framkvæmda.
  • Með því að láta hjá líða að endurskoða kjör á áður veittri lánsfjármögnun til dótturfélags síns, ePósts ehf., þrátt fyrir að ljóst hafi verið að kjörin hafi verið undir markaðskjörum sem sambærileg fyrirtæki njóta.

FA kvartaði undan síðarnefnda brotinu til eftirlitsnefndar með sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins í október árið 2018 og undan því fyrrnefnda í desember sama ár. Eftirlitsnefndin komst síðan að þeirri niðurstöðu að hvort tveggja væri brot á sáttinni.

Breytt afstaða Íslandspósts
FA sendi Samkeppniseftirlitinu síðan erindi 19. september 2019 og fór fram á að eftirlitið skoðaði niðurstöður eftirlitsnefndarinnar í málinu og gripi til aðgerða gegn Íslandspósti. Sex dögum síðar óskuðu stjórnendur Íslandspósts eftir því á fundi með Samkeppniseftirlitinu að hafnar yrðu viðræður um mögulega sátt vegna málefna tengdra ePósti. Leiddu þær viðræður til þess að fyrirtækið viðurkenndi brot á sáttinni og skyldu til að greiða stjórnvaldssekt. Er hún eins og áður segir ákveðin fimm milljónir króna.

FA ósammála niðurstöðunni að hluta til
Samkeppniseftirlitið fellst hins vegar í ákvörðun sinni á þau málsrök Íslandspósts að starfsemi ePósts hafi ekki lengur haft samkeppnislega þýðingu á þeim markaði sem félagið var stofnað til að starfa á þegar sáttin 2017 tók gildi. Stofnunin telur því ekki forsendur til að gera athugasemdir við að rekstur og eignir ePósts hafi verið færð inn í móðurfélagið og dótturfélagið ePóstur lagt niður. Þessu er FA ósammála. Félagið hefur í erindum til Samkeppniseftirlitsins fært fyrir því rök að sameiningin hafi verið óheimil og farið fram á að SE mæti áhrif þess að tap af rekstri ePósts væri yfirfært á móðurfélagið, hvort kostnaður sem af því hlýst myndi leiða til hækkana á verðskrá almennrar póstþjónustu og hvort kerfi ePósts séu nýtt í rekstri Íslandspósts sem tengjast lögbundinni grunnþjónustu og sem þriðji aðili hefði getað þróað fyrir brot af þeirri fjárhæð sem var lögð í ePóst. FA fellst heldur ekki á þá niðurstöðu SE að brot Íslandspósts kunni að hafa verið framin af gáleysi.

Lítil fælingaráhrif
„Við fögnum því að tekið sé á brotum Íslandspósts á sáttinni en teljum sektina alltof lága og hafa afar lítil fælingaráhrif gagnvart fyrirtækjum og stofnunum, sem gætu freistast til að rjúfa sátt við Samkeppniseftirlitið,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Við höfum kvartað undan fleiri brotum á sáttinni til eftirlitsnefndar og vonum að tekið verði á þeim af meiri myndugleik.“

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Nýjar fréttir

Innskráning