Íslandspóstur þverbrýtur sátt við Samkeppniseftirlitið

05.12.2018

Tilgangur ePósts var að selja rafrænar birtingar skjala. Það misheppnaðist og hefur fyrirtækið sáralitlar tekjur.

Íslandspóstur ohf. tók ákvörðun um að sameina rekstur dótturfélagsins ePósts og móðurfélagsins án þess að leita fyrst álits eftirlitsnefndar um framkvæmd sáttar milli Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins. Ákvörðunin var jafnframt tekin, og vinna við sameininguna hafin, án þess að samþykki Samkeppniseftirlitsins lægi fyrir, eins og kveðið er á um í sáttinni. Þetta kemur fram í gögnum sem eftirlitsnefndin hefur látið Félagi atvinnurekenda í té.

Skýr ákvæði í sáttinni
Sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins var gerð í febrúar á síðasta ári. Í 9. grein sáttarinnar kemur skýrt fram að ákveðin starfsemi Íslandspósts skuli rekin í dótturfélögum, þar á meðal ePóstur ehf. Í sáttinni er ennfremur kveðið skýrt á um að lán til dótturfélaga skuli bera markaðsvexti: „Íslandspósti er óheimilt að veita dótturfélögum sínum lán á kjörum sem eru undir markaðskjörum sem sambærileg fyrirtæki njóta. Skulu kjör áður veittra lána Íslandspósts til dótturfélaga endurskoðuð með hliðsjón af þessu ákvæði.“

Jafnframt segir í sáttinni: „Eigi sér stað slíkar breytingar á starfsemi, umsvifum eða stöðu dótturfélags að starfsemi þess kunni ekki lengur að hafa samkeppnislega þýðingu getur Íslandspóstur óskað eftir áliti eftirlitsnefndar, sbr. 11. gr., á því að færa reksturinn inn í móðurfélagið samhliða því sem dótturfélagið verði lagt niður. Samþykki Samkeppniseftirlitsins verður að liggja fyrir áður en slík breyting getur átt sér stað. Er Samkeppniseftirlitinu heimilt að afla umsagnar eftirlitsnefndar áður en ákvörðun er tekin.“

Engir vextir reiknaðir – brot á sáttinni
Eftir að ársreikningur ePósts ehf. fyrir árið 2017 var birtur og í ljós kom að engin vaxtagjöld voru reiknuð á 283 milljóna króna skuld við móðurfélagið, kvartaði Félag atvinnurekenda til eftirlitsnefndar, sem á að hafa eftirlit með því að fyrirtækið haldi sáttina við samkeppnisyfirvöld. Sú kvörtun var send eftirlitsnefndinni 12. október síðastliðinn.

Óskað eftir afstöðu þremur dögum eftir kvörtun
Eftirlitsnefndin hefur nú sent FA afrit af bréfi, sem henni barst þremur dögum síðar frá Helgu Sigríði Böðvarsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Íslandspósts. Þar var óskað eftir afstöðu eftirlitsnefndarinnar til samruna ePósts ehf. og Íslandspósts. Sá samruni var sagður til kominn vegna þess að upphaflegur tilgangur félagsins hefði ekki gengið eftir. Fram kemur í bréfinu að sameiningin hafi verið samþykkt á fundi stjórnar Íslandspósts 25. júní 2018. Ekkert kemur fram um það hvers vegna dregið hafi verið í nærri fjóra mánuði að óska álits eftirlitsnefndarinnar á sameiningunni.

Forstjóra og framkvæmdastjóra ber ekki saman
Eftirlitsnefndin hefur jafnframt veitt FA aðgang að svörum Íslandspósts vegna kvörtunar FA. Þau eru send nefndinni 23. október og undirrituð af Ingimundi Sigurpálssyni forstjóra. Forstjóranum og framkvæmdastjóra fjármálasviðs Íslandspósts ber reyndar ekki saman um tímasetningu ákvörðunar um samruna fyrirtækjanna; í bréfi forstjórans kemur fram að á árinu 2017 hafi legið fyrir ákvörðun um að sameina ePóst og Íslandspóst og þess vegna „þótti ekki efni til að byrja á því ári að reikna vexti á viðskiptastöður félaganna á því ári en það hafi ekki verið gert fram að því.“

Í Fréttablaðinu 24. nóvember síðastliðinn kemur fram að samkvæmt svörum frá Íslandspósti sé nú „unnið að því að innlima ePóst í móðurfélagið.“

Eftirlitsnefndin hefur ekki tekið afstöðu til kvörtunar FA vegna sendibílaþjónustu Póstsins, átján mánuðum eftir að hún var send.

Brot á tveimur ákvæðum í sáttinni
Í málinu liggur þá eftirfarandi fyrir:

  1. Sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins var gerð í febrúar 2017. Samkvæmt henni bar að reka ePóst í sérstöku félagi. Jafnframt bar að reikna markaðsvexti á skuld við móðurfélagið. Íslandspóstur fór ekki eftir þessu, sem er skýrt brot á sáttinni.
  2. Þegar Íslandspóstur ákvað að fara ekki að ákvæðum sáttarinnar um að reikna vexti á lán móðurfélagsins til ePósts lá ekki einu sinni fyrir formleg ákvörðun stjórnar félagsins um að óska eftir samruna móður- og dótturfélags. Afstöðu eftirlitsnefndarinnar eða samþykkis Samkeppniseftirlitsins hafði ekki verið aflað er ársreikningur ePósts var gerður og birtur. Þetta er sömuleiðis skýrt brot á sáttinni.
  3. Ákvörðun stjórnar Íslandspósts um samruna félaganna var tekin án þess að álits eftirlitsnefndarinnar hefði verið leitað. Ekki var leitað eftir slíku áliti fyrr en mörgum mánuðum síðar – og þá eftir að FA hafði kvartað undan brotum Póstsins á sáttinni.
  4. Fjölmiðlum hefur verið sagt að unnið sé að samruna ePósts og Íslandspósts, án þess að fyrir liggi afstaða eftirlitsnefndarinnar til þess samruna eða samþykki Samkeppniseftirlitsins, eins og sáttin kveður skýrt á um.

Hálfur milljarður fæst ekki endurgreiddur
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir þetta mál allt með miklum ólíkindum – en þó komi það ekki á óvart. „Þetta er ekki fyrsta dæmið um að Íslandspóstur skeyti engu um ákvæði sáttarinnar við Samkeppniseftirlitið. Félagið hefur gengið hart fram gagnvart ýmsum keppinautum eftir að sáttin var gerð. Póst- og fjarskiptastofnun og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafa til dæmis stöðvað fyrirtækið í að ýta keppinautum í póstsöfnun út af markaðnum.“

Ólafur bendir á að starfsemi ePósts hafi misheppnast og móðurfélagið muni væntanlega aldrei fá lán sín til félagsins endurgreidd. Tekjur félagsins frá öðrum en Póstinum eða tengdum félagsins hafi á árinu 2017 verið tæpar níu milljónir króna. Hefðu eðlilegir vextir verið reiknaðir á lánin frá árinu 2013 væru þau nú nær hálfum milljarði, sem er þriðjungur þeirrar upphæðar sem Íslandspóstur fer fram á í lán frá skattgreiðendum til að afstýra greiðsluþroti félagsins.

„Þetta mál sýnir ágætlega fram á þörfina á að gerð sé óháð úttekt á starfsemi Íslandspósts, eins og Félag atvinnurekenda hefur lagt til við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,“ segir Ólafur.

Engin svör frá eftirlitsnefndinni í 18 mánuði
Hann segir FA hafa efasemdir um að sátt Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins skili tilætluðum árangri. „Til að hafa eftirlit með sáttinni var sett upp þessi eftirlitsnefnd, sem átti meðal annars að taka við kvörtunum vegna brota á sáttinni. FA sendi nefndinni slíka kvörtun í júní 2017 vegna niðurgreiðslu einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins á sendibílaþjónustu Íslandspósts, en niðurstaðan í því máli liggur enn ekki fyrir. „Það er vandséð að sáttin þjóni tilgangi sínum þegar eftirlitsnefndin getur ekki tekið afstöðu til kvartana vegna brota á henni á átján mánuðum,“ segir Ólafur. „Á meðan heldur ríkisfyrirtækið auðvitað uppteknum hætti.“

Bréf Íslandspósts til eftirlitsnefndar 15. október 2018
Bréf Íslandspósts til eftirlitsnefndar 23. október 2018
Kvörtun FA til eftirlitsnefndar 12. október 2018

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning