Íslensk-taílenska viðskiptaráðið stofnað

07.09.2016
DSC_0011
Frá stofnfundi ÍTV.

Stofnfundur Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins var haldinn í gær, í lok málþings um tækifæri í viðskiptum Íslands og Taílands. Stofnfélagar í ráðinu eru þrettán fyrirtæki, sem sum hver stunda innflutning frá Taílandi, önnur eru í útflutningi og sum eru í eigu Taílendinga búsettra hér á landi. Félag atvinnurekenda heldur utan um rekstur ráðsins.

Viðstaddir stofnfundinn voru fulltrúar stofnfélaganna og fjölmenn viðskiptasendinefnd frá Taílandi en í henni voru meðal annars allir sendiherrar Taílands á Norðurlöndum og ýmsir aðrir hátt settir taílenskir embættismenn.

Í fyrstu stjórn ÍTV voru kjörin þau Guðmundur Rósmar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Xco hf., Manit Saifa, eigandi Gamla Síam, og Andrea Sompit Siengboon þýðandi.

Stofnfélagar eru Álnabær hf., Hagar hf., Icelandair Group hf., Marel Iceland ehf., Nings ehf., Ó. Johnson og Kaaber ehf., Össur ehf., P.J. markaðs- og auglýsingaþjónusta ehf., Síam ehf., Softverk á Íslandi ehf., T&D ehf., Tómas & Dúna ehf.  og Xco hf. Enn er tækifæri til að gerast stofnfélagi ráðsins. Áhugasöm fyrirtæki eru hvött til að hafa samband við skrifstofu FA.

Í samþykktum ÍTV segir um tilgang ráðsins: „Ráðið hefur það verkefni, að efla verslunar- og viðskiptasambönd milli Taílands og Íslands. Líta ber á ráðið sem vettvang til skoðana- og upplýsingaskipta milli viðskiptaaðila og ríkisstjórna beggja landa. Ráðið mun leitast við að styrkja hagsmuni félagsmanna með því að stuðla að nánara sambandi fyrirtækja beggja landa.“

Nýjar fréttir

Innskráning