Ívilnandi úrræði fyrir fyrirtæki verði endurnýjuð

27.04.2021

Félag atvinnurekenda leggur til að tvö ívilnandi úrræði fyrir fyrirtæki sem voru í gildi á síðasta ári, niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt og tvískipting gjalddaga aðflutningsgjalda, verði endurnýjuð, enda sé enn óvissa í atvinnulífinu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldursins, en þar er lagt til að greiðsludreifing á staðgreiðslu launamanna og tryggingagjaldi, sem tekin var upp á síðasta ári, verði framlengd.

Í  greinargerð frumvarps fjármálaráðherra er vísað til þess að áframhaldandi óvissa sé í atvinnulífi landsmanna þar sem fyrir liggi að heimsfaraldur kórónuveiru dragist á langinn. Jafnframt kemur fram í greinargerðinni að ljóst sé að mörg fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri glími enn við rekstrarerfiðleika vegna faraldursins. Þetta er í fullu samræmi við þær upplýsingar, sem FA fær frá félagsmönnum sínum, sem flestir eru minni eða meðalstór fyrirtæki. Í greinargerðinni er vísað sérstaklega til mikilla áhrifa áframhaldandi óvissu á ferðaþjónustuna, þ.m.t. hótel- og flugrekstur. Undir það tekur FA í umsögn sinni, en bendir á að fyrirtæki sem þjónusta ferða- og veitingageirann með t.d. aðföng og aðkeypta þjónustu búa ekki síður við óvissu og áhrifin ná þannig langt út fyrir ferðaþjónustuna. Ætla má að hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum, sem gilda eiga til 1. júlí, muni áfram hafa mikil áhrif á þessar greinar og tengd fyrirtæki.

Niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt
Í greinargerðinni segir að talið sé að hagsmunum ríkissjóðs sé betur borgið með frekari greiðsludreifingu. Undir það getur FA einnig tekið; líklegra er að þannig skili umrædd opinber gjöld sér á endanum, í stað þess að fyrirtæki fari í þrot og ríkissjóður verði af tekjum.

Að mati FA á sami rökstuðningur við varðandi önnur ívilnandi úrræði, sem gripið hefur verið til eftir að heimsfaraldurinn hófst til að auðvelda fyrirtækjum að standa skil á opinberum gjöldum og bæta fjárstreymi sitt. Í greinargerð frumvarpsins er niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt talin upp á meðal úrræða sem gripið hafi verið til í því skyni að létta undir með rekstraraðilum í kórónuveirufaraldrinum. Sú ívilnun féll hins vegar úr gildi um áramót. Niðurfelling álagsins þýddi í reynd allt að mánaðar gjaldfrest á skattinum. FA leggur til að þessi heimild verði tekin upp á ný til bráðabirgða til að létta undir með fyrirtækjum.

Tvískipting gjalddaga aðflutningsgjalda
Félagið leggur jafnframt til að endurvakin verði heimild til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda í tolli, sem gilti meirihluta síðasta árs. FA telur brýnt að endurvekja þessa heimild og telur að færa megi rök fyrir því að festa eigi heimildina varanlega í sessi, enda hefur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins ítrekað gefið út það álit að heimildin hafi hvorki áhrif á tekjur né kostnað ríkissjóðs og að skil gjalda batni jafnvel með þessu fyrirkomulagi.

„Fyrir fyrirtækin, sérstaklega þau smærri, skiptir þessi heimild hins vegar miklu máli, óháð tímabundnum erfiðleikum vegna faraldursins. Innflutningsfyrirtæki selja vörur sínar iðulega með greiðslufresti sem er lengri en gjaldfrestur aðflutningsgjalda. Þetta skapar óhagræði og vandkvæði í fjárstreymi, sérstaklega hjá minni fyrirtækjum. Þau selja gjarnan vörur til stærri og sterkari aðila, t.d. stórrar verzlanakeðju eða Landspítalans svo dæmi séu tekin. Vegna aðstöðumunar hafa þau í raun ekki stjórn á þeim greiðslufresti sem þau verða að veita. Heimild til að skipta greiðslunum upp er því til sérstaks hagræðis fyrir minni fyrirtæki,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA um frumvarpið

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning