Jákvæðari afstaða gagnvart jafnlaunavottun

21.02.2018

Nokkrar breytingar hafa orðið á afstöðu aðildarfyrirtækja Félags atvinnurekenda til jafnlaunavottunar undanfarið ár. Í könnun meðal félagsmanna, sem gerð var seinnipart janúar, sögðust samtals um 60% þeirra sem svöruðu spurningunni telja að lögbundin jafnlaunavottun myndi stuðla að auknu launajafnrétti. Í sambærilegri könnun í fyrra sögðust 52% sammála eða mjög sammála slíkri fullyrðingu. Hlutfall þeirra svarenda sem segjast ósammála fullyrðingunni hækkar raunar líka, úr 13% í 21%. Hópurinn sem svarar „hvorki né“ skreppur hins vegar saman, úr 35% í 19%.

Smellið á myndina til að stækka hana.

Þegar spurt var um afstöðu til fullyrðingarinnar „Jafnlaunavottun hefði í för með sér meiri ávinning en kostnað fyrir mitt fyrirtæki“ er breytingin öllu meiri. 41% þeirra fyrirtækja sem svara spurningunni segjast sammála eða mjög sammála fullyrðingunni. Í fyrra voru þau 24%. Hins vegar segjast 26% ósammála eða mjög ósammála, en í fyrra var sá hópur 23%. Aftur hefur „hvorki né“-hópurinn minnkað, úr 53% í 33%.

Þegar spurt var um afstöðu til jafnlaunavottunar í fyrra var frumvarp um lögbundna jafnlaunavottun fyrir fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn ekki orðið að lögum. Jafnlaunavottun er nú komin í lög og hefur fengið meiri kynningu, sem kann að vera ástæða þess að hærra hlutfall tekur nú afstöðu til málsins.

Könnun FA var gerð dagana 19.-24. janúar. Hún var send til forsvarsmanna 153 aðildarfyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 87 fyrirtæki, en það er um 56% svörun. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig svörin skiptust á svarmöguleika og jafnframt hlutfall þeirra sem ekki svöruðu spurningunni.

Nýjar fréttir

Innskráning